06.11.1957
Efri deild: 18. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til meðferðar hér í hv. d, við 1. umr., lét ég þess getið, að n., sem frv. flytur, hefði hug á því að athuga það milli umræðna með það fyrir augum að bera fram brtt., ef henni sýndist svo. Síðan hefur nefndin haft málið til athugunar og hefur þegar haldið um það 4 fundi. Athugunum hennar er það langt komið, að hún hefur þegar ákveðið að bera fram brtt., þó að ekki séu þær stórvægilegar, og sennilegt er, að auk þess muni einstakir nm. bera fram brtt. Boðaður hefur verið fundur í n. á morgun, og þá er gert ráð fyrir að n. muni forma þessar tillögur. Það eru því tilmæli n. til hæstv. forseta, að umræðu þessari verði nú frestað og málið tekið af dagskrá, þannig að væntanlegar brtt. geti legið fyrir við framhald umræðunnar.