18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

18. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti, Ég beindi nokkrum atriðum til hv. allshn. við 1. umr, þessa máls og bað að íhuga þar sérstakar greinar, en ég sé, að engar brtt. hefur n. flutt við þær. Ég hef aftur á móti flutt tvær brtt. á þskj. 66. Önnur, fyrri breytingin, er um skilgreiningu á hugtakinu dráttarvél, en seinni breytingin er um það að fella burt þá heimild, sem felst í frv. fyrir dómara til að láta sakborning halda ökuréttindum, þótt hann hafi orðið sekur um að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Ég skal þá fara nokkrum orðum um þessar tvær brtt.

Eins og segir í 2. gr. frv. um dráttarvélar, þá er þar nákvæm skilgreining á því, hvað skuli kallast dráttarvél. Nú er það öllum ljóst, að það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að breyta á nokkurn hátt ákvæðum tollskrár eða breyta innflutningsgjöldum á vörum með neinu því, sem felst í þessu frv. En ég er þeirrar skoðunar, að gangi þetta frv. fram óbreytt hvað þetta snertir, þá hafi það í för með sér þær breytingar á innflutningsgjöldum á þessum tækjum, dráttarvélum, eða réttara sagt geti haft þau áhrif, sem jafngildi því, að verið sé að breyta stórkostlega tollskránni. Og sú breyting á tollskránni mundi þýða að mínum dómi útilokun á vissum tegundum dráttarvéla.

Þessi skilgreining á dráttarvél í 2. gr. frv. er þannig: „Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til að draga annað ökutæki eða vinnutæki og ekki er gert til hraðari aksturs en 30 km á klukkustund án verulegra breytinga á því.“

Þarna er um tvö skilyrði að ræða, sem tækið verður að uppfylla til þess að geta talizt dráttarvél. Það verður annars vegar að vera gert til þess að draga annað ökutæki, og hins vegar má það ekki hafa meiri aksturshraða en 30 km á klukkustund.

Ég er þeirrar skoðunar, að nafn eða merki viðkomandi verksmiðju, sem framleiðir slíkt tæki, eigi að vera alveg nægileg trygging fyrir því, að þetta sé dráttarvél, en ekki eitthvað annað, sem þeir eru að selja. Nafnið eitt gefur til kynna byggingu þessa tækis og tilgang eða verksvið tækisins. Og bygging dráttarvélar gefur um leið til kynna, að það er tæki, sem aldrei fer mjög hratt. Þannig eru allar dráttarvélar byggðar, að hraði þeirra er mjög takmarkaður, oftast ekki nema 1/3 eða jafnvel 1/4 á móts við venjulegar bifreiðar. Ég verð því að líta svo á, að þetta sé nóg skilgreining á því, hvað sé dráttarvél. Hitt skiptir að mínum dómi litlu máli, hvort dráttarvél getur farið 29 km á klukkustund eða hún getur farið 31. Eða skiptir það miklu máli, hvort bifreið getur farið 100 km á klukkustund eða 150? Hún verður auðvitað bifreið eftir sem áður, hvort heldur er, og dráttarvélin er dráttarvél eftir sem áður, hvort sem hún fer undir eða yfir 30 km hraða á klukkustund.

Þetta ákvæði, að setja þennan aksturshraða sem skilgreiningu á vélknúið ökutæki, er að mínum dómi fjarri lagi. Aðalatriðið er hitt, hvað þessum ökutækjum er ekið hratt, ef það er hraðinn, sem menn óttast eitthvað í þessu sambandi. Ef það er slysahættan, þá er það ekki það, hvað tækið getur farið hratt, heldur hvað því er ekið hratt. Bifreið er skaðlaus, meðan hún hefur þann hraða, að hún gerir ekki skaða af sér þess vegna. En ef farið er langt fram úr því, þá fer hún að verða skaðleg eða réttara sagt aksturinn hættulegur. Alveg eins er um dráttarvél. Ég get ekki séð, að það sé neitt við það að athuga, þó að dráttarvél geti farið eitthvað yfir 30 km hraða, og fjarri öllu lagi, að hún sé ekki dráttarvél lengur.

Nú eru ýtarleg ákvæði í þessu frv. um aksturshraða bæði dráttarvéla og bifreiða, svo að skilgreining í þessari grein hefur ekkert að segja hvað það snertir. En ástæðan til þess, hvað ég hef mjög á móti þessu ákvæði, er sú, að eins og menn vita, þá eru miklar framfarir í allri véltækni í heiminum, líka í smíði dráttarvélanna, og nú er farið að flytja inn til landsins tegundir dráttarvéla, sem fara hraðar en þetta, ég veit ekki hversu margar, en einhverjar eru þær. Þessar vélar hafa gefizt mjög vel, svo vel, að þeir, sem hafa reynt þær, telja engar aðrar jafnast á við þær. En ef þetta yrði nú samþykkt, eins og það liggur hér fyrir, þá er að mínum dómi ótvírætt, að þær verða ekki fluttar inn lengur, vegna þess að þá mundu þær sennilega verða flokkaðar undir bifreiðar. Það er líklega næsta tækið, sem kæmi þá til greina. Og ef það yrði gert, þá yrðu tollar af þessum tækjum það háir, að flestir mundu láta vera að kaupa þau með því verði. M.a. er mér kunnugt um, að ein slík vél mundi hækka um milli 50 og 60 þús. kr. í verði við að falla undir innflutningsgjöld bifreiða. Ef svo kynni nú að fara, að vegna ágreinings yrði raunveruleg dráttarvél flokkuð sem bifreið, þá mundi það hafa þessar afleiðingar. Það er því óbeint verið að hindra framfarir í tækni með því að setja slík skilyrði í þessu frv. Og ég hygg, að landbúnaðinum komi það ekkert vel að fá slíkar hindranir, því að í landbúnaði er m.a. notuð sú tegund dráttarvéla, sem ég á sérstaklega við og hefur gefizt svo vel.

Það getur ekki haft neina úrslitaþýðingu, hvort þessi tæki geta farið eitthvað hraðar, en þetta eða ekki. Það má alveg eins segja um bifreiðar, það hefur ekki neina úrslitaþýðingu, hvort bifreið getur farið 10 eða 20 km hraðar eða ekki. En ég vil ekki, að slík ákvæði sem þessi geti haft mjög mikil áhrif á það, hvort hægt er að fá beztu og fullkomnustu tækin, hvort sem það er til landbúnaðar eða annarra framkvæmda í landinu, heldur sé látin nægja sú skilgreining, sem er í fyrri hluta þessarar málsgreinar: Dráttarvél er vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til að draga annað ökutæki eða vinnutæki, — og þar með sé það nóg, en sleppa hinu aftan af.

Ég held, að þetta sé ekki fyllilega athugað hjá hv. n., að taka ekki þetta inn sem brtt. sína, og vænti þess, að hv. alþm. geti fallizt á að samþykkja þessa breytingu, því að það yrði til bóta og hægðarauka fyrir innflytjendur og kaupendur þessara tækja, en þau eru fyrst og fremst notuð við framleiðslustörf, bæði við landbúnað og önnur störf, því að þetta hlýtur, ef hvor tveggja skilyrðin ættu að standa óbreytt þarna í greininni, að geta rekizt á. Tækið getur fullnægt öðru skilyrðinu, en ekki hinu, það getur verið dráttarvél, vegna þess að tækið er gert til þess að draga annað tæki, en fullnægir ekki hinu, að hafa svo lágan hraða sem þarna er tilgreint. En ég vildi gjarnan spyrja hv. nefnd, sem ég vona að hafi athugað þetta: Ef ég flyt inn dráttarvél, sem getur farið 31 km, hvað heitir hún þá á eftir? Það stendur ekkert um það. Ja, manni dettur sjálfsagt í hug, að þá heiti þetta bifreið. En það getur farið svo, að svo geti ekki orðið, því að hún fullnægir ekki heldur nema öðru skilyrðinu um skilgreiningu bifreiðar. Um bifreiðar segir: „Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga.“ Því fullnægir þessi dráttarvél alls ekki. Hún er þá hvorki dráttarvél né bifreið. Hvað er hún þá? Það er að vísu í 3. gr. frv. tekið fram, að komi fram ágreiningur um flokkun þessara tækja, hverrar tegundar tækin eru, þá skuli dómsmrh. skera úr, en ef ágreiningsefnið er um gjaldskyldu, skal leita álits fjmrh. Og samkv. 16. gr. ætla ég, að það sé raunverulega bifreiðaeftirlitið, sem hefur þar öll völdin, því að þar segir: „Innflytjendum skráningarskyldra, vélknúinna ökutækja er skylt að senda bifreiðaeftirliti ríkisins nákvæma lýsingu og myndir af nýjum gerðum vélknúinna ökutækja, sem þeir ætla að flytja til landsins.“ Þeir eiga að gera það áður, en þeir fara að panta þær. — „Tollstjórum er óheimilt að tollafgreiða skráningarskylt, vélknúið ökutæki, nema sú gerð ökutækja hafi hlotið viðurkenningu bifreiðaeftirlits ríkisins.“ Mér virðist því, að fyrst verði bifreiðaeftirlitið að viðurkenna þetta tæki sem dráttarvél, ef um slíkt tæki væri að ræða, síðan þarf úrskurð bæði dómsmrh, og fjmrh., því að vafalaust kemur gjaldskyldan þar til líka. En þó að allir þessir aðilar eigi að úrskurða ágreiningsatriði, þá geta þeir auðvitað ekki úrskurðað nema í samræmi við lögin. Og lögin segja þetta: Geti tæki farið hraðar en 30 km á klst., þá er það ekki dráttarvél. — En hvort þeim tekst að koma því þá í bifreiðaflokkinn, það vil ég ekkert fullyrða um. Ég býst við því, að það þyki standa næst, en ég bendi á, að það rekst á annað skilyrði þar líka.

Ég held, að það sé fráleitt að hafa þessi tvö óskyldu atriði sem skilgreiningu á því, hvað er dráttarvél, því að þetta á ekki saman, enda bygging þessara tækja svo gerólík, að það er óhugsandi að mínum dómi að hringla til með þau milli slíkra flokka. Það væri líkt og við segðum, að kýr væri kýr, ef hún færi 5 km, en ekki hraðar, en færi hún að ganga 6 eða 7, þá væri hún orðin hestur.

Mér er ekki ljóst, hver tilgangurinn er með því að setja þetta atriði þarna inn, um hraða dráttarvéla. Ég hygg helzt, að það sé slysahættan, og þó veit ég það ekki, því að ef það er vegna slysahættu, sem þetta er sett inn, þá sé ég ekki, að meiri hætta stafi af dráttarvélum með 30 eða 35 km ökuhraða heldur en af bifreiðum, sem geta farið 100–150, því að það eru mjög merk og glögg ákvæði í þessu frv. um aksturshraða, sem taka af öll tvímæli hvað það snertir. En tilgangur minn með flutningi þessarar till. er fyrst og fremst sá að hindra ekki innflutning nýtízkutækja við framleiðslustörf og önnur nauðsynleg störf hjá þjóðinni, en það tel ég að geti orðið afleiðingin af því að samþykkja þetta svona, enda hefur þegar komið til ágreinings út af innflutningi slíks tækis og úrskurður um það fallið í ráðuneyti, svo að það má sannarlega búast við þessum ágreiningi. En ég endurtek það, að þeir aðilar, sem eiga að úrskurða slíkan ágreining, geta ekki gert annað en farið eftir lögunum, og verði lögin svona, þá getur varla farið hjá því, að vélknúið ökutæki, sem óneitanlega er dráttarvél, verður úrskurðað: „er ekki dráttarvél“ — á eftir.

Seinni brtt., sem ég flyt við þetta frv., þ.e. sem ég flyt einn á þessu þskj., er við 81. gr. Það er um refsiákvæðin gegn þeim, er aka bifreiðum undir áhrifum áfengis. Í 2. mgr. 81. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis gerzt brotlegur við 1. eða 2., sbr. 3. og 4. mgr. 25. gr., og skal hann þá sviptur ökuleyfi eða rétti til að öðlast það.“ En 25. gr. fjallar um það, að bannað er að neyta áfengis við akstur eða vera undir áhrifum áfengis, og er þar greint í tvennt áfengismagn í blóði við rannsókn, annars vegar frá 0.60%0 til 1.30, það er í 3. mgr. 25. gr., en síðan það, sem er yfir 1.30%0 í 4. mgr. M.ö.o.: þetta refsiákvæði í 81. gr. segir því, að hafi maður gerzt brotlegur við þessi ákvæði 25. gr., þá skuli hann sviptur ökuleyfi eða rétti til að öðlast það, en „ef sérstakar málsbætur eru, má sleppa sviptingu réttinda vegna brota á 1. og 2., sbr. 3. mgr. 25. gr.“ Það er það: Nú hefur maður ekið bifreið undir áhrifum áfengis, en áfengismagnið er fyrir neðan 1.30%0, og þá er dómara heimilt að sleppa sviptingu ökuréttinda skv. 81. gr.

Ég tel þetta mjög vafasama miskunn við þessa menn, sem leyfa sér að aka bifreið undir áhrifum áfengis, að þeir þurfi ekki einu sinni að missa ökuleyfi sitt um skamman tíma. Það kann að vera, að til séu einhverjar sérstakar málsbætur fyrir þessa menn, ég þekki ekkert út í það, en ekki held ég, að það geti orðið almennt. Hitt held ég að menn séu sammála um, menn, sem hafa ekið bifreið og aka bifreið, að þeim þyki sýnu verra að vera dæmdir til að missa ökuréttindin heldur en hitt, þó að þeir séu dæmdir til að borga einhverja sekt. Ef refsiákvæði verka, þá hygg ég, að þau muni verka frekar, sem ákveða, að maður missi ökuréttindi, heldur en hin, sem ákveða aðeins, að hann skuli greiða sekt. Ef við með refsiákvæðum viljum því hafa einhver áhrif á það, að menn leyfi sér ekki að aka bifreið undir áhrifum áfengis, þá á ekki að mínum dómi að vera heimilt að sleppa ökuleyfissviptingunni. Hitt er annað mál, hve lengi hann skuli sviptur réttindunum.

Ef maður aftur á móti fer yfir þetta áfengismagn í blóði, 1.30%0, þá skal hann tvímælalaust samkvæmt þessum ákvæðum sviptur ökuréttindum og ekki skemur, en í eitt ár. Ég hef síður en svo, neitt á móti þessu. En ef þetta er réttmætt, er þá réttmætt að hafa möguleikann fyrir hendi, að hinn, sem hefur minna áfengismagnið, skuli alveg sleppa við réttindamissinn? Ég get ekki skilið nauðsynina á þessari miskunnsemi við þessa menn, og ég tel þá sannarlega ekki neitt hart leikna, þó að þeir verði að missa ökuréttindi einhvern tíma, — jafnvel þarf það ekki að vera nema um eins mánaðar skeið samkvæmt frv., því að í 3. mgr. 81. gr. segir: „Réttindasvipting skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en 1 mánuð.“ Og ég sé ekki, að neitt banni það að fara niður í það tímamark, þó að mín brtt. verði samþykkt og sleppt yrði aftan af 2. mgr., eins og greinir í till. minni á þskj. 66, því að þá stæði eftir: hann skal sviptur ökuréttindum, og það er heimilt eftir málsatvikum fyrir dómara að dæma hann í sviptingu, sem næmi ekki lengri tíma en þetta.

Við erum vafalaust allir sammála um það að vinna gegn slysahættu, í hvaða mynd sem hún er og ekki sízt í umferðarmálunum. Ég býst við því, að menn séu nokkuð sammála um það líka, að eitt af því allra hættulegasta i umferðarmálum er það, ef menn aka bifreið undir áhrifum áfengis. Því vil ég ekki eiga þátt í því að samþykkja ákvæði um, að menn skuli geta sloppið við sviptingu ökuleyfis, þá refsingu, sem ég hygg að mundi þó helzt hafa áhrif, ef þeir hafa orðið sannir að sök um brot á þessu ákvæði. Ég geri það þá fyrst og fremst í því skyni að flytja þessa seinni brtt., að hún hafi áhrif í þá átt, að meiri varúðar sé gætt í því að setjast undir stýri á bifreið undir áhrifum áfengis en ella.

Þá vil ég beina örfáum orðum til hv, allshn. út af 47. gr. frv., þó að ég flytji ekki neina brtt, við þá grein. Það eru ekki nein efnisatriði, það er aðeins íslenzkan á þessari grein. Það eru orðatiltækin að „aka fram fyrir“, „aka fram úr“ og „aka fram hjá“. Þetta kemur 11 sinnum fyrir í greininni, og ég get ekki betur séð, en þetta eigi að þýða alls staðar það sama. Ég hefði viljað mælast til við hv. n., að hún athugaði þessa 47. gr. málsins vegna fyrir 3. umr. Ég kann ekki við þennan hrærigraut, sem þarna er. Þar stendur: „Ökumenn skulu hleypa fram fyrir sig á hægri hönd“ o.s.frv. Í öðru lagi: „má aka vinstra megin fram úr ökutæki.“ Í þriðja lagi: „ef ástæða er til, skal sá, sem fram hjá ætlar.“ Ekki er það nú eiginlega fallegt að „aka fram úr“ annarri bifreið. Ef þetta væri góð íslenzka, má víst vafalaust alveg eins segja: ganga fram úr öðrum manni. — Það vildi ég samt ekki eiga að gera. — Þetta vildi ég biðja hv. n. að athuga. Mér sýnist, að það bezta af þessu væri að aka „fram fyrir.“ Þetta „fram úr“ kemur ekki til mála að mínum dómi. „Fram hjá“ er dálítið annað, en að aka „fram fyrir“. Í þessari grein er verið að tala um bifreiðar, sem aka í sömu átt og sömu braut. Fari bifreið fram hjá fer hún í sömu átt, en aðra braut.

Að lokum skal ég geta þess, að ég flyt ásamt hv. þm. Vestm. brtt, á þskj. 64 um aksturshraðann, sem við fluttum einnig báðir á síðasta þingi. En ég er ekki viðbúinn að taka þá till. til meðferðar í dag, vegna þess að ég hef verið fjarverandi, auk þess er meðflm. minn, hv. þm. Vestm., fjarverandi í dag, og leyfi ég mér því að taka þessa till. aftur til 3. umr.