18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. var kunnugt um áhuga hv. þm. Barð. um að breyta skýrgreiningu á dráttarvél í 2. gr. frv., eins og hann leggur til á þskj. 66 og hefur nú reifað. Nefndin athugaði mál þetta sérstaklega af þessum sökum og leitaði ráða kunnáttumanna um þetta, en að því loknu treysti hún sér ekki til að mæla með slíkri breytingu. Vél sú eða vélar þær, sem hv. þm. mun hafa í huga, eru að dómi kunnáttumanna þeirra, sem nefndin leitaði til, rétt að telja til bifreiða, jafnvel þó að vélin sé vel til dráttar fallin einnig. Ég vildi draga í efa það, sem hv. þm. Barð. sagði um vélar, sem vafi kynni að geta leikið á, til hvaða flokks ættu að teljast, þ.e.a.s. vélar, sem væru aðallega eða eingöngu notaðar til dráttar, en hefðu þó meiri aksturshraða en 30 km. Slíkar vélar skilst mér að mundu falla beint undir skilgreiningu frv. um bifreið, því að í frv, er bifreið skilgreind þannig, að það sé vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga, svo og til annarra nota, þannig að þó að slíkt tæki mætti nota til dráttar, þá fellur það einnig undir skilgreininguna á bifreið samkvæmt þessu. Ég sé nú ekki neina ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta atriði.

Þá er það brtt. hv. þm. Barð. við 81. gr. frv. Hann sagði í ræðu sinni, að hann skildi ekki nauðsyn á miskunnsemi við þá menn, sem aka bifreið undir áhrifum áfengis. Ég lái honum þetta ekki, og ég geri ekki ráð fyrir, að neinn skilji heldur ástæðu til slíkrar miskunnsemi, enda ekki gert ráð fyrir henni í frv., því að í frv. er einungis gert ráð fyrir, að heimilt sé að fella niður ökuleyfissviptingu, þegar sérstakar málsbætur eru. Þessi heimild er í núgildandi bifreiðalögum, en allshn. er ekki kunnugt um, að heimildin hafi nokkru sinni verið notuð, enda kemur það vafalaust mjög sjaldan fyrir, að sérstakar málsbætur séu fyrir hendi hjá þeim, sem aka bifreið, þegar svo er ástatt sem hér er ráðgert. Hins vegar er hugsanlegt, að slíkar málsbætur geti verið fyrir hendi, t.d. í sambandi við brýnt björgunarstarf, þegar svo bæri við, að ekki væri tiltækur maður til aksturs, sem hefði ekki bragðað áfengi, svo að eitt dæmi sé nefnt. Ég álít, að það væri allt of mikil fórn fyrir slíkan mann að missa atvinnuréttindi sín fyrir vikið, ef um það væri að ræða, að ekki væri annars völ, en á slíkum manni til þess að annast einhvern tiltekinn akstur, sem bráð og óumdeilanleg nauðsyn væri að fram færi. Ég tel því, að þetta ákvæði um undanþáguheimildina megi gjarnan vera í umferðarlögunum, og mun því greiða atkvæði gegn brtt.

Ég þarf ekki að svara mörgu til um ræðu hv. þm. V-Sk. um brtt. mína í sambandi við 3. mgr. 20. gr. Hann lagði á það áherzlu í sínu máli, að nauðsyn bæri til, að allar bifreiðar séu á bifreiðaskrá, frá því að þær eru teknar til notkunar nýjar og þar til þær eru dæmdar ónothæfar. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég sé ekki, að nein nauðsyn sé til þess, að allar bifreiðar séu skrásettar, séu þær ekki notaðar. Það er höfuðatriðið og fyrst og fremst sjálfsagður hlutur, að allar bifreiðar, sem í notkun eru, séu skrásettar. En ég fæ ekki séð, að af því geti skapazt neinn glundroði með neinum hætti, þó að bifreið sé tekin af bifreiðaskrá, enda þótt hún enn sé í nothæfu ástandi, og ég fæ heldur ekki séð, hvernig það getur valdið erfiðleikum, að slík bifreið sé geymd tímum og árum saman og tekin síðan í notkun aftur og vitanlega þá skrásett. Ég álít, að hver maður eigi að ráða því sjálfur, hvort hann hefur sína bifreið á skrá, sem hann notar ekki, eða ekki, og þó að hún komi á skrá aftur, mundi það engum erfiðleikum valda, því að ævinlega er hægt að gera grein fyrir bifreiðinni, hvernig á því stendur, að hún kemur nú á skrá, enda þótt notuð sé. Hins vegar fellst ég alveg á tilmæli hv. þm. um að taka till. mína aftur til 3. umr., ef vera kynni, að við gætum fyrir þá umræðu samræmt okkar sjónarmið í þessum efnum í sambandi við till. hv. 11. landsk.