21.11.1957
Efri deild: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

18. mál, umferðarlög

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi styðja og taka undir tilmæli hv. þm. Barð., — en með honum flyt ég brtt. við þetta mál, tilmæli hans um það, að málinu sé frestað í þetta sinn, vegna þess að það eru komnar fram í okkar hendur mjög mikilvægar og rökstuddar upplýsingar okkar tillögum til stuðnings, en þær eru samt sem áður ekki svo af hendi leystar, þessar upplýsingar, að við getum á þessu stigi málsins lagt bær fram sem opinbert gagn í þinginu, en það mundi vera hægt að fá þann galla lagfærðan með dags fyrirvara eða svo. Þeir hv. þm., sem mótmæla þessari frestun, hafa mjög til þess vitnað, að málið kunni að vera sett í hættu, ef þessi frestur er veittur, þ.e.a.s. sett í hættu á þann veg, að það fái ekki framgang á þessu þingi. Ég kann ekki að skilja þann ótta á þessu stigi málsins. Það er nú að vísu komið langt fram í nóvember, en þingið á eftir mjög langa setu enn þá, Hvað sem því líður, þá tel ég, að leggja verði alla alúð við það að vanda svo frágang þessa frv. sem unnt er og ganga ekki viljandi fram hjá upplýsingum hæfra manna, sem hér liggja núna fyrir, ganga ekki viljandi fram hjá þeim, bara af ótta við það, að það kunni að taka of langan tíma að fá þær fram.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að málinu sé frestað, þannig að þessar upplýsingar geti legið fyrir hv. þm., allt í því skyni, að frágangur þessa frv. verði sem öruggastur fyrir þá, sem eiga að njóta löggjafarinnar á sínum tíma.