22.11.1957
Efri deild: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það má lengi um það deila, hver lagaákvæði séu æskileg um hámarkshraða bifreiða. Í umferðarlagafrv. er hann ákveðinn 45 km á klst. í þéttbýli, en 70 km utan þess. Tveir hv. þm., þeir hv. þm. Barð. og Vestm., flytja á þskj, 64 brtt. um þetta og vilja lækka hámarkshraðann nokkuð frá því, sem frv. ráðgerir. Ég leyfi mér að draga mjög í efa að slíkt yrði til bóta. Hver maður að heita má, sem ekur t.d. um Hringbraut eða Snorrabraut hér í bænum eða aðrar álíka breiðar og greiðfærar götur, ekur með 40 km hraða og margir miklu hraðar, þegar gott svigrúm er á þessum götum, og hver maður, sem ekið hefur nokkuð að ráði um þjóðvegi þessa lands, hefur þráfaldlega orðið fyrir því á breiðum og greiðfærum vegum, að ekið er fram úr honum, enda þótt hann hafi ekið á allt að 60 km hraða, sem nú er lögleyfður hámarkshraði á þjóðvegum. Segja má því með nokkrum sanni, að með hinum nýju hámarkshraðaákvæðum umferðarlagafrv. sé ætlazt til, að lögfest verði það ástand, sem nú er algengast í þessum efnum og hefur verið svo árum saman.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því, að mikilvægustu ákvæðin um ökuhraða eru í 49. gr. frv. En þar segir m.a., að ökuhraða skuli ávallt miða við gerð og ástand ökutækis, staðhætti, færð, veður og umferð, og aldrei má ökuhraði vera meiri en svo, að ökumaður geti haft fullkomna stjórn á ökutæki og stöðvað það á þriðjungi þeirrar vegalengdar, sem er auð og hindrunarlaus fram undan og ökumaður hefur útsýn yfir. Það er vitanlega gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að hámarksökuhraði í bæjum verði takmarkaður við breiðustu og greiðfærustu götur, enda verði sett um það lögreglusamþykktarákvæði á hverjum stað. Fjöldinn allur af götum í bæjum er þannig, að óheimilt væri með öllu að aka þar með 45 km hraða eftir hinum almennu hraðaákvæðum 49. gr. umferðarlagafrv. Hins vegar eru ýmsar götur það greiðfærar, að hættulaust er, að þar sé ekið með um eða yfir 40 km hraða. Þetta á fyrst og fremst við breiðar götur með tvískiptri akbraut, sem eru aðalbrautir og þar sem vel sést til beggja hliða. Ég dreg ekki í efa, að menn mundu halda áfram að aka þessar götur jafnhratt og nú er gert, hversu lágt sem hámarkshraðaákvæði umferðarlaganna yrðu sett. Og lög, sem almenningur virðir ekki, eru verri en engin lög.

En áherzlu vil ég þó enn leggja á það, að þótt lögtekin verði hámarkshraðaákvæði þau, sem í frv. eru nú, þá takmarkast þau af ákvæðum 49. gr., þannig að slíkur hraði er aðeins heimill þar, sem hættulaust er að aka með þeim hraða, og til þess ætlazt, að í lögreglusamþykkt bæjanna verði nánari ákvæði um þessar takmarkanir og umferðarmerki verði til leiðbeiningar vegfarendum um lögleyfðan hraða.

Þróun þessara mála er víða erlendis þar komið, eins og kunnugt er, að þar eru engin hámarkshraðaákvæði í lögum. Þess ber þó að gæta í því sambandi, að vegir eru þar yfirleitt stórum betri, en hér tíðkast, og af þeim sökum er því eðlilegur og sjálfsagður hlutur, að hér séu í lögum ákvæði um hámarkshraða.

Hv. þm. Barð., fyrri flm. brtt. á þskj. 64, sýndi mér þá hugulsemi og kurteisi að senda mér í gærkvöld til lesturs grg. yfirlögregluþjónsins í Reykjavík, sem hann hefur nú lesið upp í ræðustólnum. Ég er honum þakklátur fyrir það og met það svo sem vert er. Hins vegar hlýt ég að játa það, að í grg. þessari finn ég ekki fullnægjandi rök fyrir brtt. háttvirtra þm. á þskj. 64. Grg. hefur ekki inni að halda neina hluti, sem ekki voru áður flestum kunnir. Meginefni hennar er: Í fyrsta lagi, að samfara notkun bifreiða er ávallt nokkur hætta. Þetta er öllum vitanlegt. Í öðru lagi, að því fleiri bifreiðar, því fleiri slys. Þetta er það, sem kallað hefur verið „selvfölgelighed“

og allir vita um og leiðir af hættueiginleikum bifreiða. Í þriðja lagi, að meiri hluti ökuslysa eigi beint eða óbeint rót sína að rekja til ógætilegs og of hraðs aksturs. Einnig þetta er alkunnugt, og ég á ekki von á því, að neinn komi til að mátmæla því. En umfram þetta er í grg. yfirlögregluþjónsins fróðleg tafla um lengd hemlafara og ýmsar tölur til staðfestingar þessum hlutum og hugleiðingar í því sambandi.

Nú kann svo að vera, að einhverjir haldi, að slys vegna of hraðs aksturs orsakist ævinlega vegna þess, að ökumaður hafi farið yfir löglegan hámarkshraða, 25–30 km í þéttbýli, en 60 km utan þess. Vissulega efast ég ekki um og veit reyndar með vissu, að mörg umferðarslys orsakast vegna hraða, sem er umfram löglegan hraða, en hitt veit ég einnig, að mörg slys hafa orðið fyrir þá sök, að ökumaður hefur ekið of hratt miðað við aðstæður, enda þótt ökuhraðinn væri lægri, en lögleyfður hámarkshraði bifreiðalaganna. Það er vitanlega fyrsta boðorð hvers skynsams ökumanns að haga akstri sínum eftir aðstæðum hverju sinni. Umferðarlagafrv. leggur þá skyldu á herðar hverjum manni, sem ekur farartæki, að gæta þess boðorðs. Dyggð góðs ökumanns er ekki í því fólgin að aka alltaf löturhægt, heldur í því að aka löturhægt, þegar aðstæður eru þannig, að háski gæti verið að, ef svo væri ekki gert, hins vegar aka greitt, þegar engin hætta er á ferðum og augljóst er, að svo getur ekki orðið. Það er þetta sjónarmið, sem ökuhraðaákvæði umferðarlaganna brýna fyrir ökumönnum, og í mínum augum er það sjónarmið rétt.

Ég er ekki sammála hv. flm, brtt. á þskj. 64 um lækkun hámarkshraðans og tel, að sú breyting, sem þar er ráðgerð, muni í engu draga úr slysahættu, sökum þess að jafnvel þótt samþykkt yrði, mundi ökuhraði almennt ekki lækka frá því, sem nú tíðkast. Menn munu einfaldlega ekki virða þau ákvæði og þau yrðu gagnslaus eins og núgildandi hámarkshraðaákvæði. Engin löggæzla gæti ráðið bót á því. Og fyrst og fremst hlýtur löggæzlan að beinast að hinum stærri og alvarlegri brotum, en sneitt yrði hjá að gera tilraun til þess að hafa hemil á aksturshraða, sem fyrir fram er vonlaust að unnt sé að framkvæma.

Ég vil að lokum benda á, að það var rangt hjá hv. þm. Barð., að allshn. hafi gert till. um að setja inn í 50. gr. frv. heimild til handa dómsmrh. til þess að ákveða lægri hámarkshraða, en í greininni segir. Þetta ákvæði var í frv. frá upphafi, og brtt. allshn um þessa gr. var einungis orðalagsbreyting, sem n. þótti skýrara orðalag en eins og í frv. var. Hugleiðingar hv. þm. um eftirþanka n, í þessu sambandi voru því út í bláinn.