10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

18. mál, umferðarlög

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri skrýtið, að foreldrar barna sinna gættu ekki fyllsta öryggis í sambandi við meðferð dráttarvéla. Staðreyndirnar segja, að í meðferð dráttarvéla hafa orðið mjög alvarleg slys og að margra dómi m.a. af því, að það hefur ekki verið gætt þess öryggis, sem átti að gæta.

Eins og frv. var lagt fram í fyrstunni, þá virtist sem þeir sérfræðingar, sem voru kjörnir til að semja frumvarpið, hafi skilið þetta þá mætavel, En mér er spurn: Hvaða aðilar eru það, sem hafa gripið þarna inn í? Ég hef ekki leitað mér upplýsinga um það. Það getur vel verið, að það sé hægt að fá þær. En mér er nær að halda eftir þá ræðu, sem hv. þm. Borgf. hélt í sambandi við málið, að þá mætti láta sér detta í hug, að Búnaðarfélag Íslands eða einhver slík samtök hafi gripið þarna inn í og ekki viljað fá lágmarksákvæði unglinga við keyrslu á dráttarvélum inn í frv.

Hv. frsm., formaður allshn., var að tala um, að þarna rækist á öryggi og almennir hagsmunir. Það er þannig í flestum málum, að þar rekast hagsmunirnir á. Þessi telur, að þetta séu sínir hagsmunir, og hinn telur það þveröfugt. Það má vel vera, að bændur telji sér það miklar hagsbætur og það sé mikið áhugamál fyrir þá að geta fengið 3, 9 eða 10 ára unglinga til að keyra dráttarvélar. Ég er á þeirri skoðun, að það sé hneyksli, sem hið opinbera geti ekki látið ómótmælt, ef það er rétt, að slík vinnubrögð séu viðhöfð í sveitunum. (Gripið fram í: Það lætur enginn bóndi 8 eða 9 ára börn —) Ég hef hér ummæli hv. 1, þm. Árn. fyrir því, að jafnvel yngri börn en sá aldur, sem ég tilnefndi hér áðan, hafi verið látin keyra á dráttarvélum, þó að hann sé hins vegar ekki samþykkur minni till., sem ég flyt. Hann mundi standa við þau ummæli, ef hann væri hér á þinginu, en hann er því miður ekki hér við.