10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

18. mál, umferðarlög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að ræða þetta mál sérstaklega. Það er búið að ræða það af mörgum fróðum mönnum, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur fengið vandlega athugun og brtt. allar ræddar við þá sérfræðinga, sem frv. hafa undirbúið. En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, eru þau orðaskipti, sem fram hafa farið milli hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hv. þm. V-Húnv. (SkG) um atriði, sem að mínum dómi er mjög veigamikið atriði í sambandi við þessa löggjöf. En það er um það, hversu bezt verði tryggt, að menn aki ekki bifreiðum undir áhrifum áfengis. Í grg. umferðarlagafrv. frá þeirri n., sem undirbjó það, var gerð grein fyrir því, hvernig þetta hefði verið framkvæmt að undanförnu, og mun yfirleitt ekki hafa verið álitið af dómstólum, að menn væru undir áhrifum áfengis, nema áfengismagn í blóðinu væri a.m.k. um 0.8%0, og með hliðsjón af þeirri niðurstöðu og þeim dómspraksís, sem fyrir liggur og að sjálfsögðu þýðir ekkert að skella skollaeyrum við, því að ef sams konar ákvæði væri látið gilda áfram, þá mundu dómstólar að sjálfsögðu fylgja þeirri dómvenju, sem þegar er orðin, þá virðist augljóst, að ef ætti að láta hliðstætt ákvæði standa áfram í lögunum, þá mundi framkvæmd málsins verða á þennan hátt. Það sýnist því alveg augljóst mál, að með þeirri ákveðnu skilgreiningu, sem hér er fengin, og það er einmitt sú skilgreining, sem dómstólar hafa í rauninni óskað eftir, vegna þess að þetta hefur allt verið mjög á huldu, hvernig ætti að framkvæma lagaákvæðið, þá er að því stuðlað að þrengja þær kröfur, sem gerðar eru til ökumanna í þessu efni. Mér finnst ástæða til þess að leggja áherzlu á þetta atriði hér. Ég þykist þess fullviss, að fyrir hv. þm. V-Húnv., sem er mjög mikill áhugamaður á þessu sviði, hafi það vakað að stuðla hér að auknu aðhaldi. En ég held því miður, að það liggi alveg í augum uppi, að verði hans till. samþykkt, þá muni það verða nákvæmlega í sama farinu og það er í dag og menn telja óviðunandi í þessu efni.

Það er vitanlega alveg ljóst mál, að það er miklu líklegra, að hægt sé að koma fram ákveðinni reglu í þessu efni, ef ekki er látið nægja mjög óljóst orðalag, eins og það er að „vera undir áhrifum áfengis“, sem er mjög mismunandi eftir því, um hvaða aðila er um að ræða, því að menn þurfa mismunandi mikils að neyta af áfengi til þess að geta verið taldir vera undir áhrifum áfengis, þannig að úr því fæst aldrei nein fastmótuð regla. Ef menn eru ekki ánægðir með það aðhald, sem er í frv. sjálfu, 0.60–1.30, þá má vissulega hugsa sér að þrengja það mark, en alls ekki með þessum aðferðum, heldur væri þá heppilegra að hafa þá aðferð, sem lagt er til í brtt. á þskj. 255, að þetta %0 magn verði lækkað, t.d. í 0.50–l.20, og það hafa verið uppi kenningar um það bæði í Bandaríkjunum og reyndar víðar, þar sem þessi mál hafa mikið verið rædd, að það væri ef til vill ástæða til að fara niður í þetta magn.

Ég tel mjög mikilvægt, að hv. þm. geri sér grein fyrir þessu máli, vegna þess að hér er um mjög veigamikið atriði að ræða og einmitt atriði, sem mér skilst að umferðarmálanefnd hafi tekið til mjög rækilegrar íhugunar og haft um það samráð við þá dómara, sem mesta reynslu hafa í þessum efnum um framkvæmd löggjafarinnar, sem nú gildir. Og ég teldi mjög varhugavert, ef till. hv. þm. V-Húnv. í þessu efni yrði samþykkt með þeim afleiðingum, sem það óneitanlega hlyti að hafa um að draga úr þeim kröfum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og mundi fyrir mitt leyti telja mun æskilegra, að væri þá hægt að sameinast um það, ef menn vilja þrengja þær kröfur, sem gerðar eru í frv, sjálfu, að samþykkja þá tillögu, sem ég hér gat um áðan og flutt er af hv. þm. N-Þ. (GíslG) og hv. 6. landsk. þm. (GJóh).