27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Allshn. hefur komið saman til fundar, eftir að 2. umr. var lokið, og hefur tekið nokkur atriði til endurskoðunar og athugunar.

Nefndin hefur borið fram brtt. á þskj. 339, sem eru í fyrsta lagi viðvíkjandi 40. gr. frv., 1. málsgr., um það, að ökumenn skuli aka til hliðar eða nema staðar, ef lögreglubifreið, sjúkrabifreið eða slökkvibifreiðar gefa hljóð- eða ljósmerki, en fellt er aftan af þessari málsgr.: „ef ástæða er til“. Henni er breytt þannig, að stjórnendum annarra ökutækja er skylt að aka til hliðar eða nema staðar, en fellt aftan af: ef ástæða er til. Vitaskuld er alltaf ástæða til að aka til hliðar eða nema staðar, ef svona stendur á.

Önnur brtt. á þessu þskj. er einungis um gildistöku laganna, að lögin taki gildi 1. júlí, nema 1. og 2. málsgr. 70. gr., sem komi til framkvæmda 1. maí 1958, en það er varðandi tryggingarfélögin, þar sem þeirra tryggingarár byrjar þá.

Á þskj. 349 hefur n. leyft sér að flytja tillögu, þar sem breytt er orðinu glampagler, sem allvíða kemur fyrir, í „glitauga“. Málsnjall maður hefur bent okkur á, að glampagler sé ekki reglulega skemmtilegt orð, og við höfum fallizt á það og teljum, að orðið glitauga fari miklu betur í þessu sambandi.

Þá er lítil brtt. við 82. gr., sem hefur ekki komið fram, en n. leggur fram hér skriflega. Það er varðandi það nýja atriði, sem kom inn við 2. umr. síðast í 1. málsgr., þar sem talað er um: „er skýri helztu umferðarreglur ásamt myndum af vegamerkjum og handarmerkjum bílstjóra“. Það er um það, að orðið „bílstjóra“ falli niður, en í staðinn komi: ökumanns. Þetta er samkvæmt ábendingum frá lögreglustjóra, sem bendir á, að vitaskuld eiga einnig aðrir ökumenn, en bifreiðastjórar, að gefa þau handarmerki, sem hér er gert ráð fyrir,

Þá höfum við lagt fram brtt. á þskj. 341, fjórir af þeim þm., sem eiga sæti í allshn., en við tökum þá till. aftur og leggjum fram skriflega till., sem er um það sama efni. Okkar hugsun í sambandi við þetta var vegna þess ákvæðis, sem hafði komið inn í 73. gr. við 2. umr. og er viðvíkjandi skyldu tryggingarfélaganna til þess að endurkrefja þann, sem hefur valdið tjóni, um tiltekna upphæð. Okkar brtt. verður þannig, að í staðinn fyrir orðið „skylt“ í 1. mgr. 73. gr. kemur orðið „heimilt“.

Til fundar við n. komu fulltrúar frá bifreiðastjórafélögunum og frá tryggingafélögunum. Fulltrúar bifreiðastjórafélaganna mæltu eindregið gegn því, að þetta ákvæði væri sett inn, svo sem gert er í greininni. Fulltrúar eða samtök bifreiðaeigenda og bifreiðastjórafélaganna hafa sent n. bréf, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. umr. frv. til umferðarlaga í Nd. Alþingis var samþykkt brtt. frá Skúla Guðmundssyni, svo hljóðandi: (Ég hirði ekki um að lesa till.)

„Með ákvæði þessu, ef að lögum yrði, væri allverulega búið að skerða rétt tryggingarkaupanda frá því, sem upphaflega er til ætlazt með lögboðinni tryggingu, og lítum við svo á, að í framkvæmd mundu nefnd ákvæði jafngilda gífurlegri iðgjaldahækkun frá tryggingarkaupanda og þannig verulega gengið til móts við viðkomandi tryggingarfélög með því að draga úr greiðslum þeirra vegna tjóna, sem tryggingin byggist fyrst og fremst á og kemur þeim einum til hagnaðar, þar sem vitað er, að verulegur hluti tjónagreiðslna byggist á þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir að tryggingarkaupandi greiði án tillits til afsláttar í iðgjaldagreiðslu.

Við undirritaðir leyfum okkur því að mótmæla harðlega áðurgreindri breytingu og óskum eftir, að hún verði felld úr frv. við 3. umr., þar sem við teljum, að vátryggingarfélögin hafi fullkominn möguleika án þessa ákvæðis til endurkröfu á hendur tryggingarkaupenda samkv. 73. gr. frv., eins og hún er þar fram sett.

Með tilvísun til framanritaðs, þá leyfum við okkur að mega vænta fullkomins skilnings n. og hv. Alþingis á þessari ósk bifreiðatryggjenda og það sjái sér fært að endurskoða samþykkt þessa og fella hana úr frv.“

Undir þetta skrifa fulltrúar fyrir bifreiðastjórafélagið Hreyfil, Landssamband vörubifreiðastjóra, Strætisvagna Reykjavíkur, bifreiðastjórafélagið Neista, bifreiðastjórafélagið Fylki, Félag íslenzkra bifreiðaeigenda, Vörubílstjórafélagið Þrótt og Félag sérleyfishafa,

Fulltrúar frá tryggingarfélögunum komu nokkuð inn á þetta mál líka. En það, sem þeir raunar lögðu mesta og aðaláherzlu á við n., fannst mér, var það að hraða afgreiðslu þessa máls, með því að það veldur tryggingarfélögunum miklum erfiðleikum við undirbúning skírteina fyrir næsta tryggingartímabil, ef þau geta ekki innan skamms fengið vissu sína um það, hvort þetta frv, verður að lögum eða ekki. En fulltrúar þeirra komu einnig inn á þetta atriði sérstaklega, og þeir voru ekki tilbúnir til þess að gefa neinar ákveðnar upplýsingar um það, hvað þetta hefði mikil áhrif á lækkun iðgjalda, ef til kæmi, en mér fannst á þeim, að þeir teldu mjög mikla annmarka á því að ýmsu leyti að framkvæma þessa skyldu til endurkröfu og teldu, að lækkun iðgjalda yrði ekki verulega mikil.

Við höfum því lagt til, að í staðinn fyrir að skylda tryggingarfélögin til þessarar innheimtu komi heimild fyrir þau til þess að hafa þennan hátt á, enda er sú heimild, eins og ég hef áður getið um hér í umræðum, bundin í þessari lagagrein.

Að gefnu tilefni vill n. aðeins taka fram í sambandi við 28. gr. frv., sem er varðandi það mál, sem áður hefur verið rætt hér, um aldur til aksturs dráttarvéla, að það er skilningur okkar, að dómsmrh., eins og stendur í lagagr., setji skilyrði og reglugerð fyrir því hæfnisskírteini, sem gert er ráð fyrir að sé krafizt til heimildar til að aka dráttarvélum, að dómsmrh. gefi einnig reglugerð út um þetta atriði, en sumir hafa bent á, að það væri kannske ekki alveg tvímælalaust, eins og það stendur í gr. En við nánari athugun hefur okkur þó fundizt það vera alveg tvímælalaust.