17.03.1958
Neðri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Ágúst Þorvaldason):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. á þskj. 184 um heimild handa ríkisstj. til þess að selja Eyrarbakkahreppi nokkrar jarðir, og einnig hefur landbn. athugað frv. á þskj. 191, þ.e. frv. um heimild handa ríkisstjórninni til þess að selja Raufarhafnarhreppi allt land jarðarinnar Raufarhafnar, og hefur nefndin steypt þessum frv. saman og umorðað þau, eins og stundum mun vera venja við svipuð tækifæri, og leggur til, að frv, verði samþykkt með þeim breytingum, sem nefndin hefur gert á því.

N. hafa borizt umsagnir um þessi mál frá nokkrum aðilum, sem hún sendi þau til umsagnar. Með leyfi hæstv. forseta — ætla ég að lesa úr umsögnunum; það er umsögn landnámsstjóra. Hann segir:

„Telja verður þær ástæður, sem fram eru færðar í grg. í frv., réttmætar, og það er tvímælalaust eðlilegast um þéttbyggð hreppsfélög, þar sem ekki er að ræða um sjálfstæðar jarðir, að hreppsfélögin sjálf hafi fullan eignar- og ráðstöfunarrétt til hreppsbúa á nytjalöndum.

Með tilvísun til þessa mæli ég með samþykkt frv. þessa.“

Þetta segir hann um Eyrarbakkajarðirnar. Og þá segir hann enn fremur um Raufarhöfn: „Það er ótvírætt hagsmunamál fyrir hreppinn að eignast þær lendur, sem Raufarhöfn stendur á. Með því getur hreppsnefnd á hverjum tíma ráðstafað nytjum af löndum til lóða og ræktunar með hagsmuni þess fólks fyrir augum, sem heimilisfast er í hreppnum, en hreppurinn nær yfir þessa jarðeign eina, eins og kunnugt er. Með tilvísun til þessa mæli ég með, að frv, nái fram að ganga.“

Þá var leitað einnig umsagnar Búnaðarfélags Íslands um þessi frv., og var málið lagt fyrir búnaðarþing, bæði frv.:

„Frv. þessi voru bæði lögð fyrir búnaðarþing það, er nú er að störfum. Mælir búnaðarþingið með samþykkt beggja frv.

Þetta tilkynnist hv. nefnd hér með. Steingrímur Steinþórsson.“ Enn fremur var leitað umsagnar jarðeigna

deildar ríkisins um málið, og jarðeignadeildin hefur svarað, en álit hennar eða svar var ekki komið, þegar nefndin afgreiddi málið, en hefur borizt síðan, og þar segir:

„Jarðeignadeildin getur eftir atvikum fallizt á, að land framanritaðra jarða verði selt Eyrarbakkahreppi, en vill jafnframt leggja áherzlu á eftirfarandi atriði: að undanskilja við sölu landsins töku sands, malar og vikurs nema til framkvæmda á vegum hreppsfélagsins og að í lögunum verði ákvæði um það, að söluverð landsins skuli ákveða af dómkvöddum mönnum, en ekki með samkomulagi milli jarðeignadeildarinnar og hreppsnefndar, eins og frv. gerir ráð fyrir.“

Frv. bæði, sem hér eru til meðferðar, eru samin eftir eða með sama sniði og frv. til laga um sölu Kópavogs í fyrra. Var farið eftir því, og þess vegna tel ég, að hér sé ekki um að ræða neitt óvenjulegt form á þessu.

Ég held, að ég þurfi svo ekki meira um þetta mál að segja. Nefndin leggur til, að málið verði samþykkt með þeim breytingum, sem hún hefur á því gert á þskj. 299.