21.04.1958
Neðri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, var borin upp fyrirvaralaust brtt., sem hafði verið til meðferðar í landbn. og ekkert samkomulag var um, og var hún samþ. hér með meiri hluta atkv. Þessi till. var um það að heimila sölu á eyðijörð í Andakílshrepp, sem Skógarkot heitir. En þess vegna var ekki samkomulag um þessa till. í landbn., að þessi eyðijörð hefur lengi heyrt undir Hvanneyri, og það lágu fyrir mjög eindregin mótmæli frá skólastjóranum á Hvanneyri gegn því, að þessi jörð yrði seld. Nú verður sjálfsagt ekkert við því gert hér í hv. d. varðandi þessa till. úr þessu, en ég vænti þess, að þetta mál verði tekið til nánari athugunar, þegar þetta frv. kemur til hv. Ed.

Varðandi aðalatriði þessa máls, sem er sala á löndum Eyrbekkinga og Raufarhafnar, þá vil ég í fyrsta lagi taka það fram, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það væri heppilegasta ástandið, þar sem því yrði við komið, að kauptún og þorp og helzt kaupstaðir allir ættu það land, sem þeir standa á, og helzt eitthvert athafnasvæði í kring. Þess vegna er ég eindregið með því að samþykkja þá heimild, sem hér er um að ræða, til handa Eyrarbakka og Raufarhöfn til kaupa á því landi, sem hér er um að ræða. En varðandi þá brtt., sem minni hl. landbn. flytur hér um það að undanskilja vikursand, þá sé ég eftir að hafa farið þarna austur og athugað þetta mál ekki neina ástæðu til að samþykkja hana. Í fyrsta lagi er þarna um lítið að ræða, eftir því sem okkur virtist. Í öðru lagi hef ég hvergi orðið þess var, að það væru á ríkisreikningum færðar neinar tekjur af sandnámi á þessum stað, enda þótt talið sé, að þarna hafi verið tekinn allmikill sandur á undanförnum árum til bygginga. Og ef um er að ræða einhverjar smávægilegar tekjur af þessari sandtöku, þá finnst mér, að þetta fátæka þorp sé bezt að því komið að njóta þess, enda er skv. frv. gert ráð fyrir því, að þetta land sé metið, þegar það er selt, og ef gert er ráð fyrir því, að það verði einhverjar tekjur af þessu vikursandnámi, þá mundi að sjálfsögðu verða tekið eitthvert tillit til þess, um leið og verðið á landinu er ákveðið. Mér finnst þess vegna hreinlegast og réttast að selja þetta land Eyrbekkingum alveg kvaðalaust. Þess utan eru svo till. frá hv. þm. Snæf., sem n. er sammála um að mæla með, um sölu á tveimur jörðum á Snæfellsnesi.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.