10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er fram borið til staðfestingar á brbl., sem sett voru í sumar, og er breyting á ákvæðum 26. gr. gildandi útsvarslaga. Breytingin, sem í frv. felst, er sú ein, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd skuli nú heimilað að breyta útsvari, sem kært hefur verið yfir, ef útsvarið reynist a.m.k. að vera 3% of hátt eða of lágt. En skv. gildandi útsvarslögum er þessum aðilum, yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd, því aðeins heimilt að breyta útsvari, sem kæra hefur borizt um, ef þessir aðilar telja, að það sé of hátt eða lágt, svo að nemi 10% eða meira. Önnur breyting á útsvarslögunum felst ekki í frv.

Þetta frv, hefur nú verið til meðferðar í hv. Nd. og var við lok afgreiðslunnar þar afgreitt með shlj. atkv. til efri deildar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um frv. Það er augljóst, að það er einungis þetta eina efnisatriði útsvarslaganna, sem í þessu frv. felst. Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.