21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

177. mál, eignarnámsheimild fyrir Hvammstangahrepp

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj, 410 er um það að veita Hvammstangahreppi heimild til þess að taka eignarnámi erfðafesturéttindi í eignarlandi hans. Frv. er flutt af heilbr.- og félmn., eins og þskj. ber með sér, samkv. ósk hreppsnefndar Hvammstangahrepps til félmrn. Sú ósk hreppsnefndarinnar kemur fram í bréfi og afriti úr gerðabók nefndarinnar, afritið er útdráttur fundargerðar, svo hljóðandi:

„Ár 1958, þann 4. febr., kom hreppsnefnd Hvammstangahrepps saman á fund. Allir nefndarmenn voru mættir. Fyrir var tekið:

3. Samþ. að fara þess á leit við félmrn., að það hlutist til um, að Alþ. það, sem nú situr, afgreiði lög um eignarnámsheimild fyrir Hvammstangahrepp í erfðafesturéttindum í eignarlandi Hvammstangahrepps.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið.

Helgi Benediktsson, Björn Kr. Guðmundsson, Sigurður Tryggvason, Skúli Magnússon, Ásvaldur Bjarnason.

Rétt endurrit staðfestir.

Hvammstanga, 14. febr. 1958,

Helgi Benediktsson,

oddviti Hvammstangahrepps.“

Grg. frá hreppsnefndinni fylgdi þessari samþykkt, ég hef hana hér í höndum í afriti frá félmrn.:

„Þegar hreppurinn keypti lóðir og lendur í Hvammstangahreppi af ríkissjóði með afsalsbréfi, dags. 18. júlí 1955, kom í ljós, að mestöllu landinu hafði verið ráðstafað af fyrri eigendum þess með erfðafestuleigum til langs tíma og yfirleitt með mjög lágum leigukjörum. Einnig upplýstist, að sumir hverjir þeir, sem land höfðu á erfðafestu, höfðu jafnvel praktíserað að framleigja byggingarlóðir úr leigulóðum sínum og leigur þá margfaldaðar. Slíkt telur hreppsnefndin að nái ekki nokkurri átt og telur því brýna nauðsyn bera til að afla sér sérstakrar lagaheimildar í því efni, enda hefur slíkt torveldað framkvæmdir skipulags í kauptúninu.“

Til þess að kynna mér mál þetta ofur lítið nánar, en hægt er af þessum skjölum, sem ég hef nú lesið, þá átti ég símtal við oddvitann, Helga Benediktsson, og fékk þær upplýsingar, að erfðafestulönd þau, sem mestum erfiðleikum valda, og einmitt vegna þess, að samningarnir torvelda skipulagsframkvæmdir kauptúnsins, eru í erfðafestuleigu hjá manni, sem er fluttur burt úr hreppnum og til Reykjavíkur og hefur framleigt til annarra réttindi sín um langan tíma. Þetta verður auðvitað að teljast ófært fyrir komulag, og heilbr.- og félmn. var á einu máli um að verða við tilmælunum um að flytja þetta frv.

Mín skoðun er sú og byggð á allmikilli reynslu, að bæir og kauptún eigi undantekningarlaust að eiga lendur þær, sem byggð þeirra er á, og ráða leigumála þeirra og hafa hvenær sem er rétt til að ráðstafa þeim eftir þörfum skipulagsins. Annað er óeðlilegt og veldur vandræðum — meiri og minni — á marga vegu. Mér er þess vegna ánægja að því að taka þátt í að flytja þetta frv. og mæla með samþykkt þess.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. Af því að n. flytur frv., sé ég ekki ástæðu til að flytja till. um að vísa því til n., en heilbr.- og félmn. mun að sjálfsögðu fylgjast með því, meðan það er á ferðinni hér í deildinni.