10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

35. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var til þess að andmæla þeirri brtt., sem komin er fram frá hv. þm. V-Sk. (JK). Ég tel, að hún sé ekki rétt og að það eigi ekki að samþykkja hana.

Það er svo, að þetta mark, sem sett er í lögin, sem var 10% og nú er 3% eftir brbl., bremsar dálítið kærurnar, sem koma. Það var og er engin bremsun á, hvað kæmi til niðurjöfnunarnefndar af kærum. Það er heima í héraði, þar sem menn eru kunnugir og þar sem menn gjarnan mæta hjá niðurjöfnunarnefndinni, í hreppunum til dæmis, og það er eðlilegt, að það sé ekki höfð nein bremsa á, ekki sett neitt, sem takmarki, hvað margir kæra. En þegar kemur til yfirskattanefndanna, sem eru fyrir heilar sýslur, eða ríkisskattanefndar, sem er fyrir allt landið, þá er sjálfsagt að hafa einhverja bremsu, svo að menn séu ekki að leika sér að því að kæra fyrir sama sem ekki neitt. Það koma núna árlega til ríkisskattanefndar eitthvað rúmlega 3.000 kærur af öllu landinu, og það er iðulega, sem maður verður að láta vera að breyta, eða hefur verið, vegna þess að yfirskattanefndirnar hafa ekkert gáð að þessu ákvæði og breytt minna en 10%, og verður þess vegna að fella þeirra úrskurð úr gildi og staðfesta útsvar óbreytt. Þannig man ég eftir bændum tveimur norður í landi, sem kærðu annar yfir 6.000 og hinn yfir 5.500 kr. útsvari, og hjá öðrum var lækkað af yfirskattanefnd um 300 og hinum um 400, og það var ekki hægt að láta þetta standa. Það var breytt minna en 10%. Og yfirskattanefndirnar höfðu ekki leyfi til að hreyfa það svo lítið.

Ég held þess vegna, að ef þessi 3% standa ekki, heldur eru tekin alveg burt, verði það til þess að kalla enn þá fleiri kærur fram og kærur, sem þá venjulega eru ósköp ástæðulitlar og þá liggja þrátt fyrir alla skala á mörkunum um það, að menn, sem ekki eru nauðakunnugir á staðnum, eins og hvorki yfirskattanefndirnar né ríkisskattanefnd geta verið, geti þá skorið úr um það. Þess vegna held ég, að 3% ákvæðið eigi að standa.

Þetta frv. mun hafa verið í fjhn. Nd, og ætti þess vegna að fara þangað, en ekki, eins og hæstv. ráðh. talaði um, í félmn.