16.05.1958
Neðri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

189. mál, bráðabirgðastöðvun á tollafgreiðslu

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. þurfi að fá heimildina framlengda um það að stöðva afgreiðslu á tolli, en eins og frv. liggur fyrir, kann ég ekki vel við það, þar sem 1. gr. frv. er orðuð eins og kunnugt er: „Ríkisstjórninni er heimilt að stöðva tollafgreiðslu á aðfluttum vörum, þar til fram komið frv. um útflutningssjóð o.fl. hefur hlotið fullnaðarafgreiðslu á Alþ.“

Ég fyrir mitt leyti tel eðlilegt, að ríkisstj. hefði heimild í lögum til þess að stöðva tollafgreiðslu, hver sem í stjórn er, og vildi því leggja til og flytja brtt. þar um, að 1. gr. frv. orðaðist svo: „Ríkisstjórninni er heimilt að stöðva tollafgreiðslu á aðfluttum vörum,“ en að seinni partur gr. verði tekinn burt, m.a. vegna þess, að það er engan veginn víst, að það frv., sem nú liggur fyrir þinginu um útflutningssjóð o.fl., fái fullnaðarafgreiðslu á þinginu. Það er vitað, að þessu máli verður vísað til hv. fjhn. Það er einnig vitað, að það er minni hl. hv. fjhn., sem fylgir þessu frv., og þótt útflutningssjóð og ríkissjóð vanti tekjur, þá má vel vera, að það verði borið fram nýtt mál til fjáröflunar í því skyni í staðinn fyrir þann óskapnað, sem við höfum verið að ræða um hér í d. í dag og fyrr.