10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

35. mál, útsvör

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir góðar undirtektir hans undir mína till. Hann taldi, að hún eigi fyllilega rétt á sér, — En í sambandi við það, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði, að hann vildi halda þessari takmörkun til þess að draga úr kærum, tel ég, að þegar takmörkin eru orðin svona lítil, þá segir það ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég hygg, að fyrirhöfn bæði yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar sé sú sama, eftir að takmörkin eru orðin svona lág. Ég hefði kosið, að hv. 1. þm. N-M., sem er í ríkisskattanefnd, vildi leiðbeina okkur, sem erum í yfirskattanefndum, betur en þeir háu herrar í ríkisskattanefnd hafa til þessa gert. Þeir setja aldrei forsendur fyrir sínum úrskurðum. Það veit enginn, á hverju þeir byggja sína úrskurði, aðeins breyta tölum, ýmist til lækkunar eða hækkunar. Þetta tel ég alveg óhæfu, að yfirskattanefndir geti ekki séð, hvað það er, sem ríkisskattanefnd finnur að. Þetta segi ég að gefnu tilefni, fyrst hv. þm. kom hér fram og hann á sjálfur sæti í ríkisskattanefnd. Þetta finnst mér ákaflega mikill galli hjá ríkisskattanefnd.