28.03.1958
Neðri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Ég hygg, að það sé óhætt að segja það án frekari umhugsunar, að ef þetta eigi að liggja ljóst fyrir, þá geti það ekki orðið nema með því að flytja brtt. um það að undanþiggja þau börn, sem áður eru fædd. Það er auðvitað hv. þm. í lófa lagið að flytja brtt. um það, ef hann telur nauðsyn á því. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel ekki nauðsyn á því og mun hvorki flytja slíka brtt. né verða henni fylgjandi.

Að öðru leyti fer þetta algerlega eftir venjulegum lögskýringarreglum, og dómstólar mundu fylgja þeirri venju, sem þeir hafa fylgt í öðrum hliðstæðum tilfellum, svo að ég skil ekki í, að nokkur hætta sé hér á. En ef menn vilja tryggja það, að lögin taki ekki til þeirra barna, sem þegar eru fædd, þá er hægurinn hjá að breyta því og setja um það beint fyrirmæli. En ég sé ekki, að það sé neitt fyrir nefndina í því að gera frekar, hún hefur lagt sitt frv. fram eins og það er. Ef menn vilja breyta því, þá er rétt að koma með brtt. um það eins og við hvert annað mál, svo að ég vildi leggja til, að málið fengi sína afgreiðslu.

Það gefst auðvitað hverjum færi á því að flytja brtt. eftir sinni vild.