14.05.1958
Efri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

160. mál, afstaða til óskilgetinna barna

Frsm. 1. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. þetta, en nm, hafa ekki orðið á eitt sáttir um afgreiðslu þess. Við hv. 1. landsk, þm. (AG) leggjum til, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það kom frá Nd.

Frv. er flutt af allshn. Nd. og samþykkt af þeirri d. einróma og athugasemdalaust. Frv. miðar að því að nema úr gildi 19. gr. laga nr. 87 frá 5. júní 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Af því ákvæði, eins og það er nú í umræddri lagagrein, leiðir, að réttarstaða óskilgetins barns skuli fara eftir ríkisfangi móður. Þetta ákvæði er í ósamræmi við þá meginreglu íslenzkra laga að miða gildi slíkra réttarreglna við heimilisfang aðila. En það er ekki aðeins í ósamræmi við sifjarétt Íslands, heldur einnig andstætt sifjarétti allra hinna Norðurlandanna. Ákvæðið mun þannig til komið í íslenzkri löggjöf, að hinn mæti maður Lárus H. Bjarnason tók það upp í frv. til laga um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, sbr. 41, gr. l. nr. 46 frá 27. júní 1921. Er mér tjáð, að aðdragandi þessa ákvæðis sé sá, að einhver ráðstefna í Haag hafi fjallað um þetta atriði árið 1907, — vitanlega varð sú ráðstefna árangurslaus, — en þar mun því hafa verið haldið fram af fulltrúum Mið-Evrópuríkja, að svipuð regla og nú er í 19. gr. laga þeirra, er ég nefndi, ætti að teljast alþjóðalög, en hins vegar var henni mótmælt þar af fulltrúum Norðurlandanna. Þeim mun einkennilegra er, að hinn mæti maður, er ég áðan nefndi, skyldi taka þessa reglu upp í frv. til laganna frá 1921, þegar þess er gætt, að þau voru í öllum meginatriðum þýdd eftir norrænni löggjöf um sama efni. Umrætt ákvæði mun komið úr þýzkum lögum. Samkvæmt þeim teljast óskilgetin börn ekki skyldmenni föður síns. Þetta ákvæði mun vera að finna í borgaralögbókinni þýzku, Bürgerliches Gesetzbuch, gr. 1589, og hljóðar svo á þýzku: „Ein uneheliches Kind und dessen Vater gelten nicht als verwandt“.

Mjög fer þetta lagaákvæði í bága við íslenzkan hugsunarhátt. Á Íslandi hefur geymzt forn málsháttur: Fár er sem faðir, en enginn sem móðir. Þessi íslenzki hugsunarháttur kemur fram í lögum nr. 95 frá . júní 1947, um lögræði, 22. gr., 4. mgr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú andast ógift kona frá óskilgetnu, ósjálfráða barni sínu eða hún má ekki hafa foreldravald yfir því, og á þá faðir barnsins rétt til að fá umráð þess, ef það hefur erfðarétt eftir hann og hann framfærir það.“

Þegar þess er enn fremur gætt, að nú mun um fjórðungur allra íslenzkra barna vera óskilgetinn, eða nánar tiltekið mun það hafa verið svo, að af öllum börnum, sem fæddust hér á landi árið 1956, voru 25.2% óskilgetin, en frá árinu 1954 var þessi prósenttala jafnvel enn hærri, eða 27,4%, getur maður því séð við fljóta yfirvegun, að sú regla, að óskilgetin börn teljist ekki skyldmenni föður síns, er fjarri því að samrýmast íslenzkri réttarvitund.

Við endurskoðun laganna, sem var gerð fyrir 1947, hefur hins vegar láðst að nema þetta gamla og ósanngjarna ákvæði brott, en það verður áreiðanlega gert fyrr eða síðar. Og þar sem ákvæðið er, eins og ég nú hef sýnt fram á, bæði óeðlilegt og andstætt meginreglum íslenzkrar og norrænnar löggjafar, þá teljum við hv. 1. landsk. sjálfsagt að nema það úr gildi nú þegar.

Þá vil ég aðeins víkja að þeim fyrirvara, sem hv. 2. minni hl. þessarar n. hefur gert og getur að líta í nál. þess minni hl. á þskj. 505. Þar leggja þeir hv. alþm. til, að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Ríkisborgararéttur skiptir þó ekki máli í þessu efni um börn, fædd 1. júlí 1958 eða síðar.“

Ég vil alveg eindregið mótmæla þessum fyrirvara. Hann er óvenjulegur og yrði til þess, að næsta mannsaldur mundu gilda tvenn lög á Íslandi um þetta efni. Það yrði mjög óheppilegt í alla staði. Tel ég alveg sjálfsagt að eftirláta okkar ágætu dómstólum að dæma um það, hvort þessi lög eiga að verka aftur fyrir sig, enda vitum við það, sem á þingi sitjum, að það er óvenjulegt að gera svona fyrirvara í löggjöf. Flest löggjafarmál taka gildi þegar í stað eða eru miðuð við gildistöku við einhvern ákveðinn tíma síðar. En um þetta atriði álít ég alveg sjálfsagt að láta hina íslenzku dómstóla hafa frjálsar hendur.

Ég vil því eindregið mæla gegn þessari breytingu eða þessum viðauka og legg til, að frv. verði samþykkt óbreytt.