22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Síðan 2. umr. fór fram um frv. þetta hefur landbn. átt tal við hrossaræktarráðunaut, Gunnar Bjarnason, og sömuleiðis átt tal við Þorstein Einarsson, ritara Dýraverndunarfélags Íslands. Eftir að n. kynnti sér þeirra sjónarmið, varð hún á einu máli um það að flytja þær brtt., sem hér liggja fyrir.

Fyrsta breytingin er um það að hafa hámarksaldur útflutningshesta ekki hærri en 10 vetra, enda er miklu þægilegra að þekkja aldur þeirra, eftir því sem þeir eru yngri.

Þá þykir n. rétt að setja skýrari ákvæði varðandi kynbótahross, og fjallar 2. liður brtt. um það, að sérstakt leyfi þurfi einungis til að flytja út 1. verðlauna hross.

Þá er 3. liður brtt. þess efnis að feila niður það ákvæði, að aðeins megi flytja út tamin eldishross að vetrinum. N. fannst ekki ástæða til að gera það að skilyrði fyrir útflutningi, að þau séu tamin, heldur hitt, að hrossin skuli vera vel með farin.

2. brtt. er nánast leiðrétting, þar sem misritazt hefur ártalið, sem lögin voru gefin út, því að eins og hv. þm. sjá, þá er hér talað um breyt. á l. nr. 50 23. júní 1933, um útflutning hrossa, en lögin eru frá 1932, og mun, úr því sem komið er, þurfa samþykkt þingsins fyrir þessari breytingu.

Ég vænti þess, að hv. þm. samþ. þessar brtt., þó að skammur tími sé, síðan þeim var útbýtt, enda ekki um neinar verulegar efnisbreytingar að ræða frá því, sem frv. sjálft var, þegar það var lagt fyrir þingið.