02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þegar þetta mál var rætt hér síðast, gerði hv. 1. þm. Reykv. nokkrar fsp. varðandi þann útflutning hrossa, sem fram hefur farið núna í vetur og á árinu sem leið, og í dag hefur mér borizt bréf eða skýrsla um þennan útflutning frá landbrn., og ætla ég hér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana upp:

„Í lögum um útflutning hrossa, nr. 50 23. júní 1932, segir svo m.a.:

1. gr. Á erlendan markað má ekki flytja eldri hross en 10 vetra og ekki yngri hross en þriggja vetra. Atvmrh. getur þó leyft útflutning á einstökum hrossum, sem eru eldri en 10 vetra og yngri en þriggja vetra, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, sem mæla með því.

2. gr. Á tímabilinu 15. okt. til 1. júní er óheimilt að flytja hross á erlendan markað. Frá 1. marz til 1. júní má þó flytja út hross á aldrinum 4–10 vetra, enda séu þau feit og hafi notið innifóðurs ekki skemur en einn mánuð. Þó þarf leyfi atvmrh. til slíks útflutnings í hvert sinn, enda hafi hann áður sett reglur um meðferð hrossanna, frá því að þau eru keypt og þar til þau eru látin í skip.

Bent skal á, að í lögum nr. 18 1935, um breyt. á framangreindum lögum, nr. 50 1932, um útflutning hrossa, var ákveðið, að til ársloka 1935 gæti ráðherra á sama hátt veitt leyfi til þess, að hross væru flutt út á tímabilinu frá 15. okt. til febrúarloka.

Með bréfi, dags. 11. okt. 1957, leyfði ráðuneytið Stefáni Jónssyni bónda, Kirkjubæ áRangárvöllum, að flytja út með Gullfossi 15. okt. 1957 til Þýzkalands 11 hross á aldrinum 3–12 vetra og eitt folald. Enn fremur var Stefáni leyft að flytja út til Þýzkalands í tilraunaskyni með Reykjafossi 28. okt. 1957 10 hross 3–12 vetra og 15 folöld. Það skilyrði var sett fyrir síðari útflutningnum, að hrossin skyldu hafa haft minnst 10 daga innistöðu, áður en þau yrðu flutt um borð í skip, og að hrossunum skyldi fylgja hrossaræktarsérfræðingur, er sæi um meðferð þeirra á leiðinni. Með skipinu fóru til eftirlits Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðurautur og

Stefán Jónsson bóndi í Kirkjubæ. Með sama skipi var Sambandi íslenzkra samvinnufélaga leyft að flytja eitt hross, 7 vetra, til Þýzkalands.

Með bréfi, dags. 16. nóv. 1957, var Stefáni Jónssyni leyft að flytja út til Þýzkalands 44 folöld með skipinu Reykjafossi með eftirgreindum skilyrðum:

1. Að folöldin hafi verið vanin undan og höfð í húsi á heyfóðri a.m.k. 10 daga.

2. Að folöldin fái hvíld á útskipunarhöfn í sólarhring a.m.k. að loknum flutningi úr heimkynnum sínum.

3. Að eigi verði höfð fleiri folöld en 10 í stíu,

4. Að sérstakir gæzlumenn fylgist stöðugt með folöldunum á leiðinni.

5. Að útflytjendur útvegi og afhendi að loknum flutningi skýrslu dýralæknis þess, er hrossin skoðar í Hamborg, um útlit þeirra og ástand við komu þangað.

Með bréfi, dags. 26. nóv. 1957, var Stefáni leyft að flytja út til Þýzkalands með Reykjafossi 60 folöld og 25 fullorðin hross með sömu skilyrðum og sett voru um útflutninginn í nóv.

Í desember sótti Stefán Jónsson um leyfi til útflutnings á 60 folöldum og 25 fullorðnum hrossum, en þeirri umsókn var synjað.

Með bréfi, dags. 27. febr. 1958, var Stefáni Jónssyni leyft að flytja út til Þýzkalands með m/s Gullfossi 25 fullorðin hross, og með bréfi 24, marz sama ár var honum leyft að flytja út 50 fullorðin hross með m/s Hvassafelli með eftirfarandi skilyrðum:

1) Hrossin fái að njóta hvíldar í sólarhring a.m.k. á útskipunarhöfn, áður en þau verði flutt um borð í skipið.

2) Hrossin séu á aldrinum 4–10 vetra og hafi öll notið innifóðurs eigi skemur en einn mánuð.

3) Um skoðun hrossanna og umbúnað í skipinu sé fylgt fyrirmælum yfirdýralæknis.

4) Að útflytjandi afli upplýsinga um líðan hrossanna á leiðinni hjá skipstjórnarmönnum og láti yfirdýralækni í té.

Leyfin til þessa hrossaútflutnings hafa verið veitt skv. eindregnum meðmælum hrossaræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands, Gunnars Bjarnasonar, og með samþykki yfirdýralæknis, Hvað snertir leyfi til Stefáns Jónssonar til útflutnings á folöldum, þá var það veitt í tilraunaskyni og til þess að firra hann vandræðum, er hann hafði stofnað til, að því er virtist, af vöntun á kunnugleika á gildandi ákvæðum um útflutning á hrossum.

Yfirdýralæknirinn hefur skýrt ráðuneytinu frá því, að hann hafi fengið vottorð frá embættisdýralækni í Hamborg, er sýni, að folöldin hafi litið vel út og verið vel frísk, er þau komu til Hamborgar. Enn fremur upplýsti hann, að í flutningnum hafi drepizt eitt folald af ókunnum ástæðum, en varð þó ekki fyrir slysi, og tvö fullorðin hross, að því er talið er úr hrossasótt.

Lögin um útflutning hrossa eru 26 ára gömul, og hafa aðstæður allar til útflutnings hrossa breytzt verulega á þessu tímabili. Flutningaskipin hafa stækkað, útbúnaður þeirra orðið öruggari, og þau eru miklu fljótari í förum en áður. Segja má, að með umræddum útflutningi folalda að vetri til hafi verið um tilraun að ræða, og voru í því sambandi gerðar sérstakar öryggisráðstafanir. Lögin voru í endurskoðun og ákveðið var, að búnaðarþing fjallaði um málið. Það samdi frv. til l. um breyt, á lögunum um útflutning hrossa, sem nú er til meðferðar á Alþingi. Í frv. var gert ráð fyrir, að útflutningur yrði leyfður til 15. des. og ekki bannað að flytja út folöld til þess tíma.

Út af leyfi til Stefáns Jónssonar í bréfi ráðuneytisins, dags. 26 nóv. 1957, var gerð í ráðuneytinu svofelld bókun:

„Í bréfi ráðuneytisins, dags. 26. nóv. 1957, til Stefáns Jónssonar í Kirkjubæ um útflutning á hrossum er sett m.a. það skilyrði, að hrossin verði send til Þýzkalands með skipinu Reykjafossi eða öðru álíka stóru skipi í desembermánuði.“

Hinn 4. jan. kom á ljós, að Stefán Jónsson hafði samið um flutning hrossanna með þýzku skipi, sem er 1.000 rúmlestir að stærð, en Reykjafoss er 2.553 rúmlestir. Dýraverndunarfélagið hefur mótmælt við lögreglustjórann flutningi hrossanna með þessu skipi. Páll Pálsson yfirdýralæknir hefur rætt við skipstjóra og stýrimenn skipsins, og telja þessir skipstjórnarmenn, að þeir muni hafa nægan mannafla til þess að gæta hrossanna og haga siglingu skipsins þannig, ef þörf krefur, að hrossin verði fyrir sem minnstu hnjaski. Gunnlaugur Briem hefur rætt við yfirhafnsögumann, Þorvarð Björnsson, um sjóhæfni þýzka skipsins. Þorvarður taldi, að ef vel væri búið um hestana í þýzka skipinu, þá þurfi ekki að fara verr um þá í þessu skipi, en til dæmis í Reykjafossi. Páll og Gunnlaugur hafa skýrt forsætisráðherra frá öllum aðstæðum, þ. á m. skilyrðum bréfsins og mótmælum Dýraverndunarfélagsins, Forsrh. leggur afgreiðslu málsins á vald Gunnlaugs og Páls.

Eftir viðtalið við forsrh. 7. jan. var fundur haldinn í ráðuneytinu um málið. Viðstaddir voru auk Gunnlaugs og Páls þeir Árni Eylands og stjórnarmenn Dýraverndunarfélagsins, þeir Þorbjörn Jóhannesson og Þorsteinn Einarsson. Að loknum umræðum fóru fundarmenn nema Gunnlaugur um borð í skipið til þess að kynna sér betur allar aðstæður. Það er skoðun Páls, Gunnlaugs og Árna, að eins og atvikum sé háttað, sé ekki fært að banna útflutning hrossanna. Það ófrávíkjanlega skilyrði skal sett, að eins tryggilega verði búið um þau í skipinu eins og aðstæður frekast leyfa samkvæmt fyrirlagi og undir umsjón yfirdýralæknis, Enn fremur er það skilyrði sett, að dýralæknanemi, Árni Pálmason, verði eftirlitsmaður með hrossunum á leiðinni til Þýzkalands, og loks, að skipstjórnarmenn heiti því, að við siglinguna verði, eins og aðstæður frekast leyfa, fyllsta tillit tekið til líðanar hrossanna. Þetta tilkynnt lögreglustjóra í símtali 6. janúar.

7. janúar 1958,

Gunnlaugur E. Briem.“

Þannig hljóðar skýrslan um útflutning hrossa frá landbrn.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið næg svör við sínum fsp. í því bréfi, sem hér hefur verið lesið, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það meira að sinni.