02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

162. mál, útflutningur hrossa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka að vísu þá skýrslu, sem hér var lesin upp, en hún haggar ekki því, sem mestu máli skiptir, að þessi útflutningur var gersamlega heimildarlaus. Eins og lögin enn eru, þá er ekki nein heimild til undanþágu með þeim hætti, sem hér var veitt. Og það eru engin rök færð að því í þessari skýrslu, hvaða heimild var fyrir til þess að taka þessar ákvarðanir. Það er að vísu sagt, — ég hjó í það, — að forsrh. hafi lagt málið í hendur eða á vald einhverra sinna undirmanna. Þarna var forsrh. að úthluta eða framselja vald, sem hann alls ekki hefur. Enn er í gildi sú regla á Íslandi, að ráðherra jafnt sem aðrir landsmenn verða að hlýða landsins lögum. Og hann varð að afla sér heimildarinnar, áður en hann fór að framselja öðrum vald til þess að beita henni.

Ég óskaði þess síðast, að hæstv. forsrh, yrði við, framhald þessara umræðna. Það hefur ekki orðið. En ég vil mjög eindregið fara þess á leit, að umr. verði frestað, þannig að það gefist færi á því að ræða þetta mál við ráðherrann sjálfan. Mér er að vísu sagt, að það séu fordæmi fyrir því úr fyrri ríkisstjórnum, að þetta hafi verið leyft. En það er jafnheimildarlaust fyrir því, og málið er þess eðlis, að það hefur þýðingu út fyrir þetta tiltekna mál, sem fordæmi um það, hvort ríkisstj. eigi að fara að landslögum eða ekki. En úr því að hér var lesin upp þessi langa skýrsla, þá vil ég nota tækifærið til þess að lesa upp grg. í Dýraverndaranum frá því í febrúar í ár um þetta mál, í grein, sem heitir: „Ef stjórnarvöld virða lög að vettugi, hvað þá um aðra?" Með leyfi hæstv. forseta, þá mun ég lesa kafla úr greininni:

„Þá er sett voru heildarlög um dýravernd á árinu 1956, voru ekki inn í þau felld lög nr. 50 frá 23. júní 1932, um útflutning hrossa, og þótti ekki einu sinni ástæða til að breyta þeim lögum að neinu leyti.

Í þessum lögum er með öllu bannað að flytja út mögur hross og hesta, sem á eru ýmis áberandi lýti. Þá er og óheimilt samkvæmt lögunum að flytja út yngri hross, en þriggja vetra og eldri en tíu. Þó getur ráðherra veitt leyfi til að flytja út einstök hross á öðrum aldri, og er þetta einasta undanþágan, sem lögin heimila.

Á tímabilinu frá 15. okt. til 1. marz er útflutningur hrossa með öllu bannaður, enda veður þá yfirleitt verst og hörðust, straumar harðastir og sjóar stærstir, og frá 1. marz til 1. júní má ekki flytja út yngri hross, en fjögurra vetra. Er sérstaklega tekið fram, að séu hross flutt til útlanda á því tímabili, verði þau að vera alin inni a.m.k. mánuð, áður en útflutningur fer fram.

Í lögunum eru mjög ströng ákvæði um, að allur útbúnaður í lestum skipa, sem flytja út hesta, sé sem vandaðastur og rammlegastur og miðaður við það, að ekki sé hætta á því, að hrossin limlestist eða meiðist á annan hátt þrátt fyrir veltur skipanna, og rík áherzla lögð á loftræstingu, hirðingu, fóðrun og aðstöðu til brynningar. Skal dýralæknir sjá um, að ákvæðum laganna sé hlýtt í hvívetna, en náist ekki til hans vegna fjarlægðar, skal annar hæfur maður til þess valinn.

Fyrsta brot. — Ekki hefur annað heyrzt, en að lögin um útflutning hrossa hafi verið í heiðri höfð og ákvæði þeirra þótt góð og nauðsynleg, unz þau hafa nú á minna en hálfu ári verið þríbrotin, án þess að séð verði, að til þess beri nokkra þjóðarnauðsyn.

Maður er nefndur Stefán Jónsson. Hann býr búi sínu í Kirkjubæ á Rangárvöllum. Hann mun í sumar hafa sótt um að fá að flytja hross í septembermánuði til Hamborgar í skipum Eimskipafélags Íslands, en ekki reynzt rúm í skipum félagsins. Stefán sótti svo til landbrn. um undanþágu frá lögunum um útflutning hrossa, í fyrsta lagi um það, að rn. leyfði, að send væru hross til Hamborgar með skipi 22. okt., og í öðru lagi, að ekki væru aðeins sendir hestar á útflutningshæfum aldri, heldur líka nokkur folöld. Ráðuneytið veitti undanþáguna og tvíbraut þannig lögin. Fór hrossahópurinn í hreyfilskipinu Reykjafossi.

Annað brot. — Næst reri Stefán á sömu mið í nóvember, og nú bað hann um að fá að senda hrossahóp, sem í voru eingöngu folöld. Folöldin áttu að fara til Hamborgar eins og fyrri hópurinn.

Nú frétti Dýraverndunarfélag Íslands um málið, og stjórn þess mótmælti því við ráðuneytið, að undanþága væri veitt, enda engin heimild til að veita slíka undanþágu. Hafði stjórnin um þessi mál samráð við Pál A. Pálsson yfirdýralækni og vissi, að hann var andstæður útflutningi hrossanna. En ráðuneytið, sem ekki greip þó til þess ráðs að nema úr gildi lögin um útflutning hrossa með bráðabirgðalögum, sem síðar væru lögð fyrir Alþingi, virti að vettugi jafnt mótmæli félagsstjórnarinnar sem vilja yfirdýralæknis. Rökin fyrir lagabrotinu voru þau, að folöldin ætti að senda í Reykjafossi, 2.700 lesta skipi, en þegar lögin hefðu verið samin, hefðu ekki slík stórskip verið tiltæk. Og hinn 16. nóv. voru folöldin send.

Kært til sakadómara. — Stjórn Dýraverndunarfélagsins tók nú þá ákvörðun að senda sakadómara eftirfarandi kæru:“

„Reykjavík, 2. des. 1957.

Fyrir hönd Dýraverndunarfélags Íslands leyfum vér oss að kæra Stefán Jónsson bónda á Kirkjubæ í Rangárvallahreppi, Rangárvallasýslu, fyrir brot á lögum um útflutning hrossa (lög nr. 50 23. júní 1932). Nefndur Stefán Jónsson hefur tvívegis eftir 15. okt. í ár flutt út hross, þótt slíkt sé bannað samkvæmt fyrrnefndum lögum og engin undanþága heimiluð. Hrossaútflutningar þessir áttu sér stað 22. okt. og 16. nóv. í ár og í bæði skiptin með mótorskipinu Reykjafossi, sem er í eign Eimskipafélagsins.“

Þriðja brot. — „Þetta gekk vel, þetta skal ég gera aftur,“ er haft eftir strák, sem slegið hafði föður sinn í rot. Ekki fara neinar sögur af því, hvort hann endurtók verknaðinn, en hinn sigursæli hrossasölumaður sótti nú í þriðja sinn um leyfi til lagabrots vegna útflutnings hrossa. Vildi hann að þessu sinni fá að flytja út í Reykjafossi 60 folöld og 25 fullorðna hesta. Og ráðuneytinu þótti alveg sjálfsagt að leyfa honum að brjóta lögin, þrátt fyrir mótmæli stjórnar Dýraverndunarfélags Íslands og jafnskýlaust bréf frá yfirdýralækni og það, sem fer hér á eftir:“

„Yfirdýralæknirinn í Reykjavík,

21. des. 1957.

Ég hef móttekið bréf hins háa landbrn., dags, 18. þ. m. Er þar óskað eftir umsögn minni um erindi herra Stefáns Jónssonar, Kirkjubæ á Rangárvöllum, þar sem hann fer fram á að fá leyfi til þess að flytja út 60 folöld og 25 fullorðin hross til viðbótar þeim hrossum, sem ráðuneytið hefur áður veitt útflutningsleyfi fyrir.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að leyfi þetta verði eigi veitt að svo stöddu. Fyrr á þessu hausti hafa tvívegis verið send út hross til Þýzkalands með m/s Reykjafossi. Fyrri sendingin mun hafa tekizt vel, enda var þar um fullorðin hross og fá folöld að ræða, Í seinni sendingunni voru eingöngu folöld. Voru þau greinilega ekki eins valin og í fyrri sendingunni, mörg með holdhnjóska, sem ekki voru neitt fagrir, farnir að losna, og einstök folöld í magrara lagi. Á leiðinni mun eitt þessara folalda hafa drepizt, og samkvæmt upplýsingum Ásgeirs Sigurðssonar stýrimanns þreyttust þau mjög á leiðinni. Útflytjendum var gert að skilyrði að afla umsagnar dýralæknis þess í Hamborg, er folöldin skoðaði við komu skipsins. Sú umsögn er enn ókomin, enda þótt nokkuð sé um liðið.

Að fenginni þessari reynslu tel ég ekki ráðlegt að ráðast í hrossaútflutning, sér í lagi ekki folaldaútflutning í stórum stíl, í svartasta skammdeginu, enda enn í gildi lög, er banna slíkan útflutning.

Virðingarfyllst,

Páll A. Pálsson.

Landbúnaðarráðuneytið, Reykjavík.“

Athugi nú þetta bréf dýravinir og aðrir mannúðarmenn og löghlýðnir borgarar íslenzka ríkisins.

Í fyrsta lagi brýtur ráðuneytið það lagaákvæði, að alls ekki megi flytja út hesta á þeim tíma árs, sem allra veðra er von, straumar stærstir og sjóar verstir, í öðru lagi það, að ekki skuli fluttir út yngri hestar en þriggja ára, og í þriðja lagi, að eigi séu flutt út mögur hross eða á neinn hátt illa útlítandi. Og þetta lætur ráðuneytið sér sæma, þvert á móti ráði yfirdýralæknis, þrátt fyrir það, þótt hann bendi á, að drepizt hafi eitt hross af þeim, sem flutt voru út í nóvember, og hrossunum hafi yfirleitt liðið illa á leiðinni út, — þrátt fyrir það, þótt yfirdýralæknir upplýsi, að útflytjandi hafi ekki uppfyllt sjálfsagt skilyrði um dýralæknisvottorð, — þrátt fyrir það, þótt yfirdýralæknir bendi ráðuneytinu kurteislega, en mjög ótvírætt á í lok bréfs síns, að hið háa ráðuneyti brjóti lög, ef það veitir umbeðið leyfi.

Keyrir um þverbak. — En ófremdarsaga ráðuneytisins í þessu máli er enn ekki fullsögð.

Það veitti leyfi til útflutnings bundið 2.700 lesta skipinu Reykjafossi eða öðru af svipaðri stærð. Nú reyndist ekki fært að fá rúm handa hrossunum í slíku skipi eins fljótt og hinum volduga útflytjanda þótti henta. En hann reyndist engan veginn af baki dottinn.

Upp úr áramótunum var statt í Reykjavík þýzkt 1.200 lesta flutningaskip eða engu stærra en þeir farkostir, sem völ var á hér við land árið 1932, þegar lögin voru sett um útflutning hrossa. Dag einn frétti stjórn Dýraverndunarfélags Íslands, að tekið væri að skipa út hrossum í þennan þýzka farkost. Hún fór á vettvang, komst að raun um, að fregnin var rétt og að umbúnaður var alls ekki sambærilegur við það, sem hann hafði verið í Reykjafossi fyrir tilstilli yfirdýralæknis. Þarna lá fyrir þrefalt brot. Brot á lögum um útflutning hrossa, brot á undanþágu ríkisstjórnarinnar, sem raunar felur í sér lagabrot, og á fyrirmælum yfirdýralæknis. Kærði stjórn félagsins þetta athæfi til lögreglustjóra og krafðist þess, að útskipun væri stöðvuð með lögregluvaldi. Lögreglustjóri taldi ótvíræða skyldu sína að sinna kröfunni, og útskipunin var stöðvuð.

En útflytjandi átti sér hauk í horni, þar sem var „hið háa ráðuneyti“. Það var ekki alveg á að láta lögreglustjóra haldast uppi slíkt framferði. Nú var ekki lengur því til að dreifa, að lögin frá 1932 væru eins og þau eru vegna þess, að þá voru ekki til eins stór skip og nú. Nú hafði ráðuneytið fengið fregnir af því, að skepnur væru engu betur farnar í stórum skipum en smáum. Það tók ekki í mál að taka fyrir hinn ólöglega útflutning, en hins vegar lagði það hart að stjórn Dýraverndunarfélagsins um að standa á verði um það með yfirdýralækni, að umbúnaður í þýzka farkostinum yrði tryggilegur. Auðvitað neitaði stjórn félagsins að veita ráðuneytinu nokkurn stuðning til hins ótvíræða lagabrots.

Svo var þá umbúnaðurinn bættur undir eftirliti yfirdýralæknis, sem þjóna varð sínum herra, og 60 folöldum og hálfum þriðja tug fullorðinna hesta skipað út í þýzka skipið, sem lagði síðan úr höfn hinn 8. jan.

Frekari furður. — Stjórn Dýraverndunarfélags Íslands hafði nú mikinn hug á að fá fréttir af því, hvernig hrossafarminum reiddi af, en hún vissi af reynslunni, að biðin eftir tilskildu vottorði, sem hinn áhrifamikli útflytjandi skyldi útvega frá dýralækni í Hamborg og senda heim, kynni að verða nokkuð löng. Þá lék stjórn félagsins hugur á að fá upplýsingar um það verð, sem gerði hinn furðulega og fráleita útflutning folalda og fullorðinna hrossa svo eftirsóknarverðan, að sjálft hið háa ráðuneyti léti sér ekki fyrir brjósti brenna að margbrjóta landslög.

Hún sendi því skeyti til Dýraverndunarsambands Hamborgar og nágrennis, bað það grennslast eftir líðan hrossanna og verði á þeim. Félagið fékk fljótlega skeyti frá sambandinu. Þar var sagt, að tvö hross hefðu drepizt á leiðinni. Þá var í skeytinu spurt, hver nauðsyn væri á slíkum útflutningi og hvaða verð væri greitt hér fyrir hrossin. Verðið í Hamborg væri frá 350–10.000 ríkismörk eða um það bil frá 1.400 upp í 40.000 kr. Stjórn Dýraverndunarfélagsins þótti síðari talan furðuleg, en hún var tvítekin í skeytinu. Verð greitt til hrossaeigenda hér heima reyndist frálagsverð í sláturhúsum að viðbættum fimm af hundraði — eða á folöldum 840–1.050 kr. og á fullorðnum hestum 2.520–2.835 krónur. Bændur hafa þá fengið 40–50 kr. meira fyrir hvert folald og 120–135 kr. hærra verð fyrir hvern fullorðinn hest heldur en fengizt hefði í sláturhúsunum hér. Fyrir þennan verðmismun þykir þá eigendum útflutningshrossanna tilvinnandi að leggja á þau þá píningu, að þau séu flutt til útlanda í svartasta skammdeginu, eins og yfirdýralæknir kemst að orði í bréfi sínu til hins háa ráðuneytis.

Sérstæð landkynning. — Hér á landi er oft og mikið rætt um nauðsyn á landkynningu. Sannarlega hafa hið háa landbrn. og útflytjandi hrossanna, sem hér hefur verið um fjallað, stofnað til mjög áhrifaríkrar landkynningar.

Þegar leið undir lok janúarmánaðar, tóku Dýraverndunarfélagi Íslands að berast ærið óskemmtilegar og furðulegar fyrirspurnir. Það fékk bréf frá sænskri konu, sem er ritari dýraverndunarfélags í Gautaborg og enn fremur ritari í alþjóðlegu dýraverndunarsambandi, þar sem hún sagði, að sænsk blöð og blöð í Mið-Evrópu flyttu þær hryggilegu fréttir, að 50 þúsund hrossa á Íslandi biði ekki annað en slátrun eða horfellir, ef ekki yrði brugðið mannlega við af erlendum dýravinum, en á Íslandi er tala hrossa rúm 35 þús. Þá kom bréf frá svissneskum blaðamanni, sem bauðst til að kaupa, ásamt vinum sínum, 1.000 íslenzk hross, og tók hann fram, að fyrir þeim vekti ekki hagnaðarvon, heldur væri tilboðið eingöngu meint sem dýravernd, sakir hinna hörmulegu fregna frá Íslandi um væntanlegan felli 50 þús. hrossa. Enn fremur barst fyrirspurn um yfirvofandi hrossafell frá ræðismanni Austurríkis í Reykjavík, en honum höfðu úr því menningarríki, sem hann er fulltrúi fyrir, borizt beiðnir um upplýsingar sakir fregna í austurrískum blöðum.“

Ég skal ekki lesa meira af því, sem í þessari grein stendur. Það eru hugleiðingar, sem óþarft er að rekja frekar. En mér þótti rétt að láta þann hluta greinarinnar, þar sem gefnar eru upplýsingar um tilteknar staðreyndir, koma fram, úr því að hv. frsm. n. las þá skýrslu, sem hann gerði. En ég tel málið vera með þeim hætti, að það sé óhjákvæmilegt, að forsrh. svari hér sjálfur og geri grein fyrir, af hverju hann hefur þverbrotið lög, svo sem í þessari grg. kemur fram, og vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að ráðh. komi hingað á fund og taki þátt í umræðum.