14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

35. mál, útsvör

Forseti (BSt):

Mér hefur borist svo hljóðandi skrifl. brtt. við frv., sem fyrir liggur, frá Páll Zóphóníassyni, að 1. gr. orðist svo: „Í stað „10%“ í 2. málslið 26. gr. laganna komi: 3%.“ Ég býst við, að það sé rétt, sem hv. þm, sagði, að þingsköpin heimili að bera þessa till. upp, þar sem till. um þetta hefur aldrei verið felld, þótt sama greinarákvæði hafi verið tekið út úr frv. og annað sett í staðinn. En á hinn bóginn verð ég að segja það, að mér finnst það mjög óviðkunnanlegt að bera upp till. nákvæmlega sama efnis og það, sem deildin hefur samþ. áður að breyta. Ég náttúrlega leita afbrigða fyrir þessari till., en mér fyndist það væri þinglegra að hafa einhverja aðra tölu en nákvæmlega 3%. — Hv. þm, V-Sk, talar um þingsköp.