02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

162. mál, útflutningur hrossa

Bjarni Benediktsson:

Ég verð mjög að láta í ljós undrun mína yfir þeim hætti, sem þessi hv. þm. leyfði sér að tala um þetta mál, bregða mér hér um málþóf. Ég gerði mjög stutta athugasemd við málið á fyrra stigi þess, nánast bar fram fyrirspurnir, talaði nú sjálfur mjög stutt og las upp skýrslu til andmæla þeirri skýrslu, sem hv. þm. hafði hér flutt og gaf ekki nema hálfa mynd af því, sem gerzt hafði. Málþófið á þá að vera fólgið í því að koma fram og inn í þingtíðindi fullkominni skýrslu um málið. Málið hefur hins vegar tafizt nú um nokkra daga vegna þess, að það hefur staðið á þessari skýrslu frá ráðuneytinu, — hv. þm. sagðist ekki hafa fengið hana fyrr en í dag, — og af því að forsrh, hefur ekki fengizt til að koma á fund til þess að tala um málið. Það er eingöngu þessum hv. þm. sjálfum að kenna, að hann hefur ekki gengið eftir skýrslunni fyrr og hann hefur ekki hlutazt til um það, að hans forsrh. sýndi deildinni þá virðingu að koma hér og ræða um málið. Og það sýnir sannast sagt veikan málstað, að hv. þm. skuli tala um málið á þann veg, sem hann gerði.

Hann minntist að vísu á orðtakið, að bezt sé batnandi manni að lifa. Það er gott að gleðjast yfir batanum hjá öðrum, en þm. er alveg fjarri því að vilja batna sjálfur. Það er ljóst, að hann vill láta halda áfram lögbrotunum og vernda þau. Það er tilgangslaust að kenna mér um þessi lögbrot. Málið hefur aldrei heyrt undir þá stjórnardeild, sem ég hef farið með, en það sýnir drengskap þessa manns, að hann er að reyna að koma sökinni á látinn flokksbróður sinn, Bjarna heitinn Ásgeirsson, vegna þess að það mun hafa verið hann, sem fyrstur veitti þessar undanþágur. En það er ekki Bjarni Ásgeirsson einn, sem það hefur gert, heldur eftirrennari hans, núv. hæstv. landbrh., sem er í senn landbrh. og dómsmrh., þannig að ef á að ásaka mig fyrir það, að ég hlutaðist ekki til um framkvæmdir í öðru ráðuneyti, meðan ég var dómsmrh., hvað er þá um þann mann, sem bæði þessi ráðuneyti heyra undir, núv. hæstv. forsrh.?

Sannast að segja hefur þetta mál aldrei verið borið undir a.m.k. mig, mér aldrei verið sagt frá því og mér gersamlega ókunnugt um þessi lagabrot þangað til nú. Sá, sem er ákæruverður í þessu máli, er vitanlega ráðherrann, sem undanþágurnar hefur veitt, og ákæruvaldið gegn honum tilheyrir ekki dómsmrh., heldur alþingismönnum, þannig að embættislega heyrði málið ekki á neinn veg undir mig. Hitt er annað mál, að ef mér hefði verið kunnugt um þetta, meðan ég var ráðh., þá hefði ég að sjálfsögðu hreyft því á stjórnarfundi, að það væri bæði ósæmilegt og óheppilegt að viðhafa þessa aðferð. En manndómurinn hjá þessum talsmönnum mannleysisins er ekki meiri en svo, að þeir eru að reyna að velta yfir á ýmist dáinn flokksbróður eða alsaklausan mann sinni eigin skömm. Tilfellið er það, að málið er stórt vegna þess, að það sýnir þann anda, sem ríkir hjá þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, og þann anda, sem kom fram hjá hv. frsm. í hans mjög furðulegu ræðu.

Ég vil svo ítreka það við hæstv. forseta, að hann fresti umr., þannig að hæstv. forsrh, gefist færi á því að gera hér grein fyrir máli sínu. Að öðru leyti ætla ég svo að fá heimild til að bera fram skriflega brtt., ef málinu verður ekki frestað að segja.