02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég hélt, að það væri ekki ástæða til þess fyrir hv. 1. þm. Reykv. að verða vondan yfir þeim ummælum, sem ég hafði hér áðan, en það sýnir bezt, að eitthvað hafa þau við hann komið, Og mér finnst það hreint ekki sæmandi hv. 1. þm. Reykv. að vera að bendla látinn mann við mál þetta, þó að það hafi verið flokksbróðir minn. Það sýnir bezt, hvernig hans málflutningur er.

Enn fremur sagði hv. þm., að ég vildi halda áfram óleyfilegum útflutningi hrossa í framtíðinni. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. getur sagt slíkt með sanni, því að ég hef viljað hraða þessu máli, til þess að hægt sé að tryggja í framtíðinni, að útflutningur hrossa brjóti ekki í bága við landslög, og ef hv. þm. þarf eitthvað sérstaklega að ræða við fors.- og landbrh. í sambandi við þetta mál, þá sé ég ekki annað en það sé hægt að hafa þann hátt á að bera upp sérstaka fsp. varðandi það. En ég sný ekki frá því, að mér finnst ástæða til þess að hraða þessu frv., svo að það sé tryggt, að þeir, sem ætla að flytja út hesta í framtíðinni, þurfi ekki að sæta þeim lögum, sem verið hafa, og þar af leiðandi kannske neyðast til að brjóta þau, — og það er ástæðan fyrir því, að ég vil hraða þessu máli nú, en engin önnur.