14.05.1958
Efri deild: 97. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

162. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og búið er að ganga í gegnum Nd., hefur verið rætt af okkur í landbn, Ed. allýtarlega, og höfum við í því sambandi bæði talað við yfirdýralækninn og Dýraverndunarfélag Íslands, sem hefur látið málið dálítið til sín taka, og hrossaræktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands, sem má segja að sé höfundur frv.

Þetta frv. gerir nokkrar breytingar á þeim lögum, sem gilt hafa um útflutning hrossa. Sumar af þeim eru eðlileg afleiðing af þeirri þróun, sem orðið hefur, eins og það að fella niður sérstaka eftirlitsmenn með útflutningi á hinum einstöku höfnum, en fela það dýralæknum, sem áður voru ekki til — ja, tveir um tíma og seinna smám saman fleiri, en ekki svo margir, að það væri hægt að láta þá annast þetta, og er það sjálfsagt út af fyrir sig. Hin breyt. er sú að fella niður lágmarksaldur á útfluttum hrossum. Það hefur verið 3 ár, það mátti ekki flytja út yngri hross en þrevetur. En upp hefur verið „agiteraður“ markaður í Þýzkalandi á folöldum, og sá markaður hefur verið nokkuð notaður nú í 2 ár, Það eru mjög skiptar skoðanir um það, hver framtíð sé í þessum markaði. Ég fyrir minn part hef ekki trú á honum, en hins vegar hef ég ekki viljað setja stein í götu hans, og það mun n. yfirleitt öll ekki hafa viljað, og höfum við þess vegna ekki gert við það brtt.

Það, sem ágreiningur var um á milli hrossaræktarráðunautarins og Dýraverndunarfélagsins, var það, að Dýraverndunarfélagið vill ekki láta flytja folöldin út, eftir að von er á verri veðrum, og yfirdýralæknirinn telur, að þau eigi ekki að flytja út, eftir að þau eru farin að leggja af. Hann og Dýraverndunarfélagið eru þess vegna sammála um, að það sé of seint að ákveða, að flytja megi þau út til 15. des., það þurfi að færast fram sá tími, og við höfum lagt til, að hann færist til 1. nóv., eins og fram kemur í brtt. á þskj. 514.

Annað atriði, sem Dýraverndunarfélagið óskar gjarnan eftir að yrði breytt, er viðvíkjandi 7. gr. frv. Þar er nú mælt svo fyrir, að atvmrh. skuli setja reglur að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands, yfirdýralæknis og Dýraverndunarfélags Íslands um útflutning hrossanna, um þann aðbúnað og þær kröfur, sem gera verði til skipanna, sem hrossin eru flutt með. Dýraverndunarfélagið hélt því fram aðallega um breytingu á lögum um dýravernd, sem var gerð hér á Alþ. í fyrra, að mig minnir, kannske í hittiðfyrra, þar sem sett var dýraverndnnarráð, að þá hafi orðið sú breyting á, að verndun dýranna hafi verið tekin út úr hinu hagkvæmnislega kerfi. Nú sé það fyrst og fremst líðan dýranna og aðbúnaður allur, sem skipti máli, en ekki hitt, hvort sá aðbúnaður er dýrari eða ódýrari, eins og áður var, meðan það var látið heyra undir landbrh. og útflutningurinn meira miðaður við hið hagfræðilega. Þeir vildu þess vegna helzt af öllu, að dýraverndunarráð, sem í sitja 5 menn, setti þessar reglur. Í því er einn maður kosinn frá Búnaðarfélagi Íslands, búnaðarmálastjóri núna, einn var kosinn frá Dýraverndunarfélaginu, Sigurður Hlíðar, og svo yfirdýralæknirinn sjálfkjörinn, og svo eru það líka Þór Guðjónsson og hver er nú sá fimmti? — já, það er dottið úr mér í bili, hver er sá fimmti. Ja, þeir eru 5, en þegar litið er á það, að mennirnir, sem þarna eiga að fjalla um, eru núna frá Búnaðarfélagi Íslands, frá Dýraverndunarfélagi Íslands og yfirdýralæknir, það er vist enn sömu mennirnir og eru í dýraverndunarráðinu, þá sáum við ekki ástæðu til að breyta þeirri gr., þó að þeir óskuðu þess.

Það, sem deila má því um í þessu frv., það er, hvort frv. yfirleitt á að samþykkjast eða ekki. Það er trú Gunnars Bjarnasonar, — ég segi trú, því að ég er ekki á sama máli, — að hann í gegnum þennan folaldamarkað geti skapað upp hestamarkað í Þýzkalandi. Ég held þvert á móti, að þegar koma þar bæði merfolöld og hestfolöld, þá sé þeim sköpuð aðstaða til að ala sín hross upp sjálfir og þá muni þess vegna ekki vera nema nokkur ár, sem þessi folaldamarkaður verður, það muni fara alveg eins og þegar Norðmenn fóru að selja ógelta hesta innan um til Danmerkur, þá fóru Danirnir sjálfir að ala upp norska hesta, og nú er enginn hestur keyptur frá Noregi til Danmerkur, þó að nóg sé til af norskum hestum, þeir eru aldir upp þar af Dönum sjálfum. Eins held ég að hér fari. Að öðru leyti hef ég ekki trú á þessum markaði. Það er vitanlegt, að það er markaður, víða um heim meira að segja, fyrir íslenzka úrvalshesta. Góða reiðhesta er hægt að selja fyrir á milli 10 og 20 þús. kr. út úr landinu, ef þeir eru reglulega góðir. En þá þurfa þeir að vera reglulega góðir. En til sölu eru þeir eiginlega ekki til. Ég veit af mönnum, sem hafa verið beðnir að útvega slíka hesta og hefur heppnazt það með fáa, en ekki nálægt því eins marga og þeir hafa verið beðnir um.

Ég er hræddur um, að þessi markaður, — ég segi það ekki fyrir n. hönd, — ég er hræddur um, að þessi markaður, sem hér virðist vera upp kominn, sé dægurfluga, sem hverfi aftur. En þar sem ýmsir aðrir menn, þ. á m. hrossaræktarráðunauturinn, hafa trú á því, að þetta sé framtíðarmarkaður með folöld til Þýzkalands, þá hef ég ekki viljað setja fótinn fyrir það, og enginn vill það af okkur í n., og við leggjum þess vegna til, að frv. sé samþ. með þeirri breytingu, að tímabilið sé fært fram, þannig að það megi ekki flytja út hross eftir 1. nóv. Og þar kemur tvennt til: Annars vegar allra veðra von og hins vegar folöldin farin að leggja af og miklu verr útlitandi en áður. Við leggjum þess vegna til, að frv. sé samþ. með þessari einu breytingu.