27.02.1958
Efri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 266 frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81/1936, um sveitarstjórnarkosningar. Aðalbreytingin, sem í frv. felst, er um kjördag bæjar- og sveitarstjórnarkosninga. Gert er ráð fyrir, að kosið verði um land allt til bæjar- og sveitarstjórna á einum og sama degi, síðasta sunnudag maímánaðar, í stað þess að nú fara fram bæjarstjórnarkosningar síðasta sunnudag janúarmánaðar og enn fremur sama dag sveitarstjórnarkosningar í svokölluðum kauptúnahreppum, en í sveitahreppum fara hreppsnefndarkosningar fram síðasta sunnudag júnímánaðar.

Einnig er í frv. lagt til, að sá háttur verði upp tekinn, að kjörskrár verði samdar í marzmánuði, í stað þess að þær eru nú samdar í febrúar, eða a.m.k. ber nú að semja þær í febrúar samkvæmt gildandi lögum, þótt misbrestur muni vera á, að svo sé gert.

Þá er og lagt til, að kjörskrár verði aðeins samdar það ár, sem sveitarstjórnarkosningar fara fram.

Gert er ráð fyrir, að lögin öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí n.k., og mundu þau því í engu breyta um þær sveitarstjórnarkosningar, sem fram munu fara síðasta sunnudag júnímánaðar n.k.

Það er margra skoðun, að fyrirkomulag það, sem nú gildir um kjördag og samningu kjörskrár, sé óheppilegt. Alveg sérstaklega tel ég þó, að fyrirkomulag það um samningu kjörskráa, sem nú er lögákveðið, sé óheppilegt. Er langt síðan ég kom auga á það. Í grein, sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum um kjörskrár og kjörskrármál og birt var í Tímariti lögfræðinga 1954 og prentuð var síðan upp í Sveitarstjórnarmálum, benti ég á ókosti þessa fyrirkomulags og jafnframt, að nauðsynlegt væri að bæta úr því með þeim hætti, að kosið væri í bæjum og sveitum eftir kjörskrám, sem samdar væru samtímis.

Eins og skýrt er frá í grg. frv., eru ókostir þessa fyrirkomulags um kjörskrárnar í því fólgnir, að við kosningar í janúar er kosið eftir ellefu mánaða gamalli kjörskrá, og ávallt eru nokkrir kjósendur, sem fullnægja almennum kosningarréttarskilyrðum, en eiga þó hvergi rétt á að vera á kjörskrá, og hins vegar aðrir, sem skv. gildandi lögum eiga rétt á að vera á kjörskrá á tveimur stöðum, eða ber að taka á kjörskrá á tveimur stöðum. Þannig áttu þeir, sem fluttust úr sveitarhreppi í kaupstað eða kauptúnahrepp frá því 1. marz 1957 til loka þess árs ekki rétt á að vera á kjörskrá við janúarkosningarnar 1958 í þeim kaupstað eða kauptúnahreppi, sem þeir fluttust til, því að þá eina mátti á kjörskrá taka, sem þar voru búsettir, er kjörskrá var samin, en Kjörskrá á þessum stöðum, í kaupstöðum og kauptúnahreppum, var samin í febrúarmánuði 1957 eða átti að semjast á þeim tíma. Enn síður eiga þeir rétt á að vera á kjörskrá við kosningar í júlímánuði n.k. í þeim sveitarhreppi, sem þeir fluttust frá, því að kjörskrá sú, sem kosið verður eftir þar, er samin í febrúar 1958.

Hafi maður hins vegar flutzt úr kaupstað eða kauptúnahreppi í sveitarhrepp á tímabilinu marz 1957 til febrúar 1958, ber að taka hann á kjörskrá í kaupstaðnum eða kauptúnahreppnum, sem hann fluttist frá, þannig að hann var þar á kjörskrá við kosningarnar í janúar. En samkvæmt núgildandi lagaákvæðum á hann einnig að vera á kjörskrá í sveitarhreppi, sem hann fluttist til, því að þar er hann búsettur í febr. 1958 og verður því á kjörskrá þar, sem kosið verður eftir síðasta sunnudag í júnímánuði n.k.

Nú kann einhver að segja, að auðvelt sé að lagfæra þetta með því einu að lögákveða, að kjörskrár séu samdar samtímis, þó að ekki sé breytt til um kosningartímann. Í frv., sem fram kom í hv. Nd. snemma í vetur og hv. þm. A-Húnv. (JPálm) flutti, er lagt til, að kjörskrár skuli samdar í des. ár hvert og gilda frá 1. jan. til ársloka. Málið er þó ekki svo einfalt, eins og þessi hv. þm. hefur haldið. Það liggur t.d. í augum uppi, að kjörskrár, sem samdar eru í des., er ekki unnt að leggja fram tveim mánuðum fyrir kjördag, þegar kjördagur er síðasti sunnudagur janúarmánaðar, en samkvæmt kosningalögunum ber að leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis tveim mánuðum fyrir kjördag.

Að hinu leytinu er sá háttur hafður um samningu kjörskráa, að Hagstofa Íslands tekur kjörskrárnar saman eftir manntali, sem miðað er við 1. des. hinn næsta, áður en kjörskrá er samin, en bæjar- og sveitarstjórnir leiðrétta þær síðan, þannig að menn verði teknir á kjörskrá, sem þar eru búsettir í þeim mánuði, sem kjörskráin er samin, þ.e. í febrúarmánuði. Hagstofan getur ekki, — eða svo hefur hagstofustjóri tjáð mér, — lokið sínum þætti verksins, fyrr en í lok febrúar eða byrjun marz. Hagstofan fær ekki allar flutningstilkynningar og önnur gögn um búsetu manna og flutninga milli héraða fyrr en einum til tveimur mánuðum síðar og getur því ekki hafið samningu kjörskránna fyrr en alllöngu eftir 1. des.

Af báðum þessum ástæðum, framlagningarskyldunni tveim mánuðum fyrir kjördag og vegna fyrirkomulags um manntal hagstofunnar 1. des., tel ég sýnt, að ekki sé hægt að nýta till. þá, sem felst í frv. hv. þm. A-Húnv.

Ég hef ekki komið auga á aðra skynsamlegri lausn á þessu máli, en að einn kjördagur verði um land allt. Hægt er að leiða rök að því, að óheppilegt er, að kosning fari fram í jan., af öðrum ástæðum, en ég hef nú rakið. Veðráttu er þannig háttað hér á landi í jan., einkum norðanlands, að jafnan má vænta þess, að veður og færð hamli kjörsókn eða kosningar farist fyrir með öllu af þeim sökum. Væri því æskilegt, að kjördagur væri á öðrum árstíma. Í mínum augum er það ekkert aðalatriði, að kjördagur verði í maímánuði eða síðasti sunnudagur maímánaðar, sem ekki ber upp á hvítasunnu, heldur hitt, að kjördagur verði einn og hinn sami um allt land og að kosið verði eftir kjörskrám, sem samdar eru samtímis.

Ef hægt er að benda á annan tíma heppilegri, mundi ég hiklaust fallast á það. Hins vegar hef ég að svo komnu ekki komið auga á annan tíma betri. Í júnímánuði eru alþingiskosningar, og mundu því tvennar kosningar geta fallið á einn mánuð, ef lögákveðið yrði, að bæjar- og sveitarstjórnarkosningar skyldu fara fram í júnímánuði. Það tel ég of mikið álag á einn mánuð eða e.t.v. einn dag, að þá færu fram bæði kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna. Júlí og ágúst eru ekki heppilegir, vegna þess að þá er orlofstími vinnandi manna margra og auk þess síldarvertíð og heyöflunartími í sveitum. Þetta á að nokkru leyti við um sept. líka og þar við bætist, að þá eru göngur og réttir. Í okt. er komin haustveðrátta. Þó sýnist mér e.t.v., að sá mánuður gæti komið til greina sem kosningamánuður. Nóv. til apríl eru hins vegar vetrarmánuðir og óheppilegir af þeim sökum.

Ef hv. Alþingi telur ástæðu til að breyta gildandi lagaákvæðum um efni það, sem frv. fjallar um, sem ég raunar vona að það telji ríka ástæðu til, þá er það skoðun mín, að heppilegra sé að breyta þessum ákvæðum skömmu eftir kosningar heldur, en að svo yrði gert skömmu fyrir kosningar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.