20.05.1958
Neðri deild: 101. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

134. mál, sveitastjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls benti ég á nokkur atriði, sem mér þættu mjög vafasöm í þessu frv., og það er þá í fyrsta lagi það, að úr því að breyta á kjördegi í kauptúnum og kaupstöðum, sem er vitanlega til bóta, að færa hann fram á vorið frá vetrinum, þá þykir mér það einkennilegt og dálitið hjákátlegt að hafa þá ekki sama kjördag yfir land allt. Í öðru lagi er að því að víkja, sem hv. síðasti ræðumaður hefur nefnt, að það geta margvíslegir árekstrar orðið í sambandi við kosningar, sérstaklega í sveitum, þegar margar kosningar eiga að fara fram e.t.v. á sama ári. Til þess að koma að nokkru leyti í veg fyrir þetta, þá stakk ég upp á því, en það mun nú ekki fá góðan jarðveg hér hjá sumum mönnum, að kjörtímabilið í sveitar- og bæjarstjórnarkosningum væri lengt og haft eins og það var og væri sex ár. Með því móti væri miklu minni hætta á árekstrum á milli kosninga að þessu leyti. Enn fremur benti ég á, að það væri þá nauðsynlegt, ef það væri ætlunin að samþykkja þetta frv. í aðalatriðum eins og það er, að það væri þá tekið fram í bráðabirgðaákvæði, að næstu bæjarstjórnarkosningar og kosningar í kauptúnum öllum skyldu þó ekki fara fram, fyrr en í maí að fjórum árum liðnum, því að annars gæti orðið um það deila, hvort þær ættu ekki að fara fram að þrem árum liðnum hér frá.

Nú sé ég, að hv. n, hefur mælt með því að samþykkja þetta frv. óbreytt, og bendir það til þess, að hún hafi lítið athugað þetta vandamál. En aðalatriðið, sem er til umbóta í þessu frv., er það eitt frá mínu sjónarmiði, að kosningadagurinn í kaupstöðum og kauptúnum er færður frá vetrinum og yfir á vorið. Þar sem nú er þetta langur tími til stefnu með þær kosningar, þá er ekki eins aðkallandi að fá þetta frv. samþykkt eins og ella mundi, og ef mætti treysta því, að þeirri endurskoðun, sem yfir stendur á kosningalögunum í heild og er mjög aðkallandi að gera um fleiri atriði en þetta, yrði bráðlega lokið, þá sýnist mér, að það væri óhætt að fresta þessu máli alveg til næsta þings í trausti þess, að sú athugun yrði þá afgerð.

Ég ætla nú samt ekki, þrátt fyrir þessar aths., sem ég hef gert, bæði nú og við 1. umr., að fara neitt að bera fram brtt. við þetta frv., læt hv. n. bera sína ábyrgð á því, úr því að hún er sammála um að knýja það í gegn núna. En ég trúi ekki öðru, en það verði tekið til verulegra breytinga, þegar endurskoðun fer fram á kosningalögum til sveitarstjórna yfirleitt.