18.04.1958
Efri deild: 81. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa sálfræðingar aðferð til að mæla almenna greind manna. Með sérstökum prófum reikna menn út svonefnda greindarvísítölu, og er meðalgreind táknuð með tölunni 100.

Fari vísitalan niður fyrir 75, er greindarskorturinn talinn óeðlilegur eða sjúklegur og nefndur fávitaháttur. Er venjulega greint á milli þriggja stiga hans, þótt skörp takmörk sé þar raunar hvergi að finna. Þannig hafa örvitar greindartölu neðan við 30 og geta svo til ekkert numið, hálfvitar hafa greindarvísitölu á milli 30 og 50 og ná aldrei vitsmunaþroska 13 ára barns, og loks eru fáráðlingarnir með vísitöluna 50–75, og er það stigið langfjölmennast.

Engar öruggar skýrslur eru til um fjölda fávita hér á landi, enda hafa aldrei farið fram neinar víðtækar rannsóknir þess efnis, en í ýmsum nágrannalöndum okkar hafa slíkar athuganir verið gerðar og leitt í ljós, að um 2% íbúanna eru sjúklega vangefnir. Er þá markið sett við greindartöluna 75. Sé hins vegar léttustu tilfellunum sleppt og þeir aðeins taldir, sem hafa greindartölu undir 70, þá lendir þar í flokki aðeins um 1% íbúanna.

Það mun óhætt að gera ráð fyrir því, að hlutfallstala fávita hér sé svipuð og í nágrannalöndunum, og samkvæmt því ættu þá að vera á Íslandi nálægt 1.600 manns svo vangefnir, að greindarvísitala þeirra lægi fyrir neðan 70.

Þótt hér sé um ótvíræða fávita að ræða, fer því fjarri, að allur sá hópur þarfnist vistar á hælum. Hitt er vafalaust, að öllu vangefnu fólki þyrfti að veita betri uppfræðslu og leiðsögn og virkari aðstoð til sjálfsbjargar, en það hingað til hefur átt kost á.

Sérfróðir menn áætla, að tala þeirra fávita, sem nú þarfnast hælisvistar hér á landi, sé um 500. Er þá miðað við þá örvita og hálfvita, sem verulegum og stöðugum erfiðleikum valda í heimahúsum.

Í fávitahælum landsins dveljast nú liðlega 120 vistmenn, svo að mikið vantar á, að þörfinni sé fullnægt í þessu efni.

Fjögur fávitahæli eru í landinu. Að Sólheimum í Grímsnesi eru 32 vistmenn, í Skálatúni 26, á Kleppjárnsreykjum 26 og í Kópavogshæli 39 vistmenn, og öll munu hælin vera yfirfull.

Í Kópavogi hefur ríkið reist fávitahæli, en því miður hefur mikill seinagangur verið á framkvæmdum þar. Fullgerð húsakynni eru ætluð 30 vistmönnum, þótt 39 dveljist þar nú. Ný bygging er í smiðum og langt komin, og á hún að rúma um 45 vistmenn. Gallinn er sá, að rúmafjöldinn í landinu kemur ekki til með að aukast sem þessu nemur, því að ráðgert er að leggja Kleppjárnsreykjahælið niður og flytja þær 26 vangefnu stúlkur, sem þar dveljast, í Kópavogshælið.

Það er fyrirhugað að reisa þriðja húsið í Kópavogshæli, álíka stórt og hvort hinna, sem þegar eru risin af grunni. Enn þá er sú framkvæmd ekki hafin, og enn er starfsmannahús óreist, sem mikil þörf er þó talin fyrir. Það er því óhætt að segja, að mikilla umbóta er ekki að vænta í þessum hælismálum, nema rösklegar verði tekið til hendi, en tíðkazt hefur til þessa.

Á aðalfundi Læknafélags Íslands var fyrir fáum árum rætt um sjúkrahússkortinn í landinu. Gætti þeirrar skoðunar þar mest, að einna brýnust væri þörfin á aukningu húsrýmis fávitahælanna, og var þó þörfin talin brýn víða í þeim efnum.

Landlæknir er, að því er ég bezt veit, sömu skoðunar. Einnig hefur borgarlæknirinn í Reykjavík hvað eftir annað bent á þessa nauðsyn.

En það verður að gera fleira en byggja hæli handa þeim hundruðum fávita, sem verst eru farnir. Það er líka þörf á að koma upp dagheimilum og æfingaskólum handa þeim vangefnu börnum, sem geta dvalizt heima hjá sér. Með slíkum stofnunum má mikið létta byrði raunamæddra foreldra og samtímis kenna þessum ógæfusömu börnum og þjálfa þau. Vangefnu ungu fólki þarf að sjá fyrir starfskennslu og síðan starfmöguleikum, eftir því sem við verður komið. Leiðbeinandi eftirlit ætti að hafa með þessu fólki að staðaldri. Því betra sem slíkt eftirlit er, því færri verða vandræðamennirnir í þjóðfélaginu.

Hér er því um að ræða mikið mannúðar- og menningarmál. Verkefnin eru mörg og flest óleyst. Þess vegna ber að fagna því, að nýlega var stofnað til félagsskapar um þetta mál. Styrktarfélag vangefinna var myndað 23. marz s.l. og hefur þegar lagt hönd á plóginn. Þetta félag hyggst vinna að því í fyrsta lagi, að komið verði upp hælum handa vangefnu fólki, sem nauðsynlega þarf á hælisvist að halda, í öðru lagi, að vangefnu fólki veitist góð skilyrði til að ná þeim þroska, sem hæfileikar þess leyfa, í þriðja lagi, að starfsorka vangefins fólks verði hagnýtt, og loks í fjórða lagi, að einstaklingar, sem vilja afla sér menntunar til þess að annast vangefið fólk, njóti ríflegs styrks í því skyni.

Að sjálfsögðu verður þessum tilgangi félagsins aldrei náð, nema fé komi til. Því verður það að afla fjár til starfsemi sinnar.

Það er sýnt, að félagagjöld og önnur slík fjáröflun hrekkur skammt, ef reisa skal heilar stofnanir, og því hefur félagið nú leitað til löggjafarsamkomunnar um fyrirgreiðslu.

Frv. það, sem hér liggur fyrir og er á þskj. 392, fjallar um aðstoð við vangefið fólk. Er efni þess það, að á hverja öl- og gosdrykkjaflösku, sem framleidd er og seld í landinu, skuli leggja 10 aura gjald, sem síðan renni til Styrktarfélags vangefinna. Skal fyrir það fé, sem þannig er aflað, reisa stofnanir handa vangefnu fólki, en öll ráðstöfun fjárins vera háð samþykki ráðherra. Er félaginu tryggt þetta gjald í næstu fimm ár.

Í frv. felst því, að styrktarfélaginu er ekki heimilt að verja því fé, sem fæst með þessu gjaldi, til annars en að reisa hæli eða aðrar stofnanir fyrir vangefið fólk og að samþykki viðkomandi ráðherra þurfi að koma til hverju sinni.

Með þessu ætti að vera tryggð full samvinna félagsins og ríkisvaldsins og það enn fremur, að ekki verði ráðizt í aðrar framkvæmdir en þær, sem nauðsynlegar og gagnlegar eru taldar á hverjum tíma.

Flm. frv. vænta þess, að hv. alþm. taki á þessu máli af skilningi og velvild og leyfi greiða göngu frv. til samþykktar á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.