20.05.1958
Neðri deild: 101. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

172. mál, aðstoð við vangefið fólk

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv., þetta, sem er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum og hlotið hefur meðmæli heilbrmrh., var samþ. í Ed. og var þá þess efnis, að leggja skyldi umræddan skatt á gosdrykki og öl, en tekjur af þessum skatti skyldu renna til framkvæmdasjóðs Styrktarfélags vangefinna.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv.d. hefur fjallað allmikið um þetta mál. N. er fús til þess að mæla með því, að þessi nýi skattur verði lagður á, til þess að standa undir þeim mjög nauðsynlegu verkefnum, sem bíða óleyst í byggingu ýmiss konar stofnana fyrir vangefið fólk í landinu. Hins vegar hefur n. ekki viljað fallast á það, að lagður yrði á nýr skattur og síðan fenginn í heilu lagi félagi einstaklinga til umráða. Það munu vera tvö fordæmi um slíka skattlagningu hér á landi, en þó er í bæði þau skiptin sá munur og á því, sem hér um ræðir, að landsmenn eiga þess kost að velja, hvort þeir vilja kaupa vöruna með umræddum skatti eða ekki.

Heilbr.- og félmn. telur, að þetta sé óeðlileg og óæskileg braut, og hún gerir því till. um, að þetta gjald á gosdrykkja- og ölflöskur renni ekki til umrædds félags, heldur til sérstaks sjóðs, styrktarsjóðs vangefinna, sem skal vera í vörzlu félmrn. og nánar skal kveðið á um í reglugerð, hvað við kemur stjórn og fjárveitingum úr sjóðnum. Þar með er þessum peningum, sem ríkisvaldið á að innheimta, haldið í vörzlu yfirvaldanna og verður þaðan veitt, eftir því sem viðkomandi aðilar telja að þörf sé fyrir það. Ég tel ekki, að það þurfi að gera nánari grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar, en þær brtt., sem n. hefur flutt á þskj, 530, byggjast á þessum höfuðskoðunum, sem ég hef nú skýrt.

Brtt. á þskj. 537 eru fram komnar, eftir að heilbr.- og félmn. hafði gengið frá áliti sínu, og hún hefur því ekki um þær fjallað. En það er augljóst af annarri brtt. þar, að hún gengur einmitt í þá átt, sem heilbr.- og félmn. hefur ekki viljað fara, að leggja á ákveðin gjöld, sem gangi til framkvæmdasjóða ákveðinna félaga einstaklinga.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, nema tilefni gefist til.