13.03.1958
Neðri deild: 65. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

150. mál, atvinna við siglingar

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar till. talaði um, að það væri búið að ganga frá þessu máli, að því er viðvíkur skipstjórnarmönnunum á fiskiskipunum. Það er að vísu rétt, og það var gert í samráði við þá n., sem starfandi er í þessu máli. Sá hluti n., sem hafði með skipstjórnarréttindin að gera, hafði lokið starfi sínu, og þeir féllust á, að það væri tímabært að taka þetta mál upp á hinu háa Alþ. Það var gert, og till. í því máli voru fluttar og samþykktar. En það gegnir öðru máli með vélstjóradeildina. Sá hluti n., sem um það mál fjallar, hefur ekki enn þá alveg lokið störfum, en það er gert ráð fyrir því, að hann ljúki því nú á næstunni og þá muni mega vænta nál. í þessu máli. Það væri því að mínu áliti heppilegra og eðlilegra, að beðið væri eftir úrskurði n. í málinu, áður en tekin væri ákvörðun um það hér á hinu háa Alþingi.

Ég vil geta þess, að það er enn fremur nauðsynlegt í svona málum að senda þau til þeirra fagfélaga, sem um ræðir í þessum tilfellum, og væri þá eðlilegt, að þessi till. yrði send til umsagnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem gegnir þeirri skyldu að sjá um og vera á verði um réttindi og réttindakröfur manna í þessum málum, bæði að því er við kemur fiskimönnum, skipstjórnarmönnum og vélstjórum.

Ég vil enn fremur aðeins benda á, til þess að menn athugi það, að það getur verið vafasamt að gera svo ekki, að það er þegar í 4. gr. þessa frv., þar sem talað er um, að upphaf 84. gr. laganna orðist svo: Sá einn getur öðlazt yfirvélstjóraskírteini á mótorskipum með meira en 100, en ekki yfir 400 hestafla vél, sem hefur siglt sem undirvélstjóri á mótorskipi með yfir 100 hestafla vél í 24 mánuði eða vélstjóri á eigin spýtur á mótorskini með yfir 15 hestafla vél í 24 mánuði, — að þá lítur það þannig út, ef þetta yrði samþ. eins og hér stendur í frv., að maður, sem væri búinn að fá undanþágu í 24 mánuði á 15 hestafla vél, gæti orðið vélstjóri á mótorskipi, sem hefði vél frá 100–400 hestöfl, og það sjá allir menn, að það er ekki gott. Enda þótt í sumum tilfellum megi segja, að einstöku menn, sem hafa verið svo lengi með þessar litlu vélar, geti líka stjórnað þessum stærri vélum um nokkurn tíma, þá er það ekki fullkomin og alls ekki sú þekking, sem til þess nægði að dómi þeirra faglærðu manna, sem við þessi störf hafa verið lengst, að þeir mættu fá þessi réttindi, sem hér um getur. Það væri því fyrir allra hluta sakir eðlilegast að mínum dómi að bíða eftir nál. mþn. um þetta mál og um leið að leita álits fagfélags þess, sem hér um ræðir, eða samtakanna, sem fara með mál þess fagfélags, sem er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands.

Ég vil svo ekki orðlengja meira um þetta, en vænti þess, að hv. þdm. sjái, að hér er um málefni að ræða, sem er nauðsynlegt að taka varlega á, á þessu stigi málsins, með því að n. er um það bil að ljúka störfum.