02.05.1958
Neðri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. þessarar d. hefur haft til meðferðar nú undanfarnar vikur frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Þetta frv. tekur til réttinda vélstjóra. Málið hefur verið í n. rætt við ýmsa aðila, sem hlut eiga að máli og aðstöðu hafa haft til að bera saman bækur sínar við n. Nefndin hefur sent frv. út til umsagnar til ýmissa aðila og hlotið svör frá flestum þeirra. Það væri alrangt að segja, að þau svör væru efnislega á einn veg, því að því er engan veginn að leyna, að um málið eru skiptar skoðanir.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja það í einstökum atriðum, hvert er álit hvers og eins af þeim aðilum, sem um er að ræða, en ég vil taka það fram, að n. hefur, eftir að henni bárust svör frá þeim aðilum, sem hér um ræðir, farið yfir svörin og metið það, hverjar brtt., sem fram hafa komið, væri eðlilegt og sanngjarnt að taka til greina, og að þeirri athugun lokinni hefur n. flutt brtt. við frv. Eru þær á sérstöku þskj.

Ég skal taka það fram varðandi brtt., sem fram hafa komið, að sú fyrsta þeirra, sem er við 4. gr, frv., varðandi skilyrði þau, sem vélstjórum eru sett fyrir því, að þeir geti fengið réttindi sem vélamenn á skipum, sem hafa vélar stærri en 100 hestöfl, er að því leyti breytt, að tekin eru af tvímæli um það að, að sama gagni skuli koma reynslutími manna, hvort heldur þeir hafa verið undirvélstjórar á skipum með yfir 100 hestafla vélar eða vélstjórar á eigin spýtur á mótorskipum, og að samanlagður reynslutími í þessu þurfi að vera a. m. k. 24 mánuðir, áður en þeir fá yfirvélstjóraskírteini eða réttindi sem vélstjórar á skipum, sem hafa yfir 100 hestafla vélar.

Þetta er að sumu leyti samkvæmt ábendingum, sem fram hafa komið frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og að öðru leyti er þetta í sambandi við ábendingar, sem komið hafa fram frá Mótorvélstjórafélagi Íslands, og þó ekki nákvæmlega farið eftir þeim till., sem þar voru gerðar.

Frv. hefur m. a. verið fundið það til foráttu, eins og það nú er, að sá, sem væri vélstjóri á mjög litlu skipi, þ. e. a. s. skipi, sem hefur vél allt niður að 15 hestafla stærð, geti öðlazt réttindi út á reynslutíma við svo litla vél, og það hefur verið haft við orð, að þetta þýði það, að vélstjóri á trillubát geti fengið út á sinn reynslutíma sem slíkur réttindi til vélstjórnar á vélum milli 100 og 400 hestafla. Þetta er að sjálfsögðu nokkur misskilningur, því að yfirleitt eru alls ekki lögskráðir neinir vélstjórar á trillubáta og þar af leiðandi fá þeir ekki sem slíkir nein réttindi út á það. En það hefur þótt vert að taka ákvæðið um 15 hestafla vélar út úr frv. af þessu tilefni, og á þetta þá við um þau íslenzk fiskiskip, sem vélstjórar eru skráðir á minnst, hvort sem þau hafa svona litlar vélar eða nokkru stærri. Á síðari tímum þýðir þetta í rauninni, að lágmarkið 15, sem þarna er um talað að hestaflafjölda, mundi þoka fyrir því, sem minnst gerist í reynslunni, en það munu nú vera allmiklu stærri vélar, en um ræðir þarna.

Þá hefur samkvæmt ábendingu bæði Landssambands ísl. útvegsmanna og Fiskifélags Íslands verið fallizt á, að ekki sé vert að hafa nein þau ákvæði í lögunum, sem rýra rétt manna frá því, sem nú er, og því gerir nefndin brtt., að aftan við 13, gr. frv. bætist ný ákvæði um það, að enginn vélstjóri skuli missa neins í af þeim réttindum, sem hann nú hefur þegar unnið sér rétt til, við samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt sérstakri ábendingu Fiskifélags Íslands um það, að þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, þurfi einnig að taka til ákvæða 48. gr. laganna, hafa verið gerðar sérstakar brtt., sem koma til móts við það, sem Fiskifélag Íslands hefur bent á.

Það hefur einnig verið samkvæmt till. Landssambands ísl. útvegsmanna gerð brtt. við frv. frá því, sem nú er, þar sem segir í frv.: „Hver sá, sem réttindi hefur til að vera undir- eða yfirvélstjóri á mótorskipi með allt að 400 hestafla vél, skal og hafa sömu réttindi til vélstjórnar við vél, sem stærri kann að vera, ef um er að ræða vélstjórn á fiskiskipi, sem er 100 rúmlestir að stærð eða minna.“ Landssamband ísl. útvegsmanna hefur sýnt fram á með glöggum tölum, að fullt eins eðlilegt muni vera að draga þessi mörk ekki við 100 rúmlesta töluna, heldur við rúmlestatöluna 115 lestir, og hefur n. fallizt á þessi rök og gert brtt., er þetta varðar.

Ég tel þá, að grein hafi verið gerð fyrir þeim brtt., sem hér liggja fyrir. Ég vil einnig geta þess, að sjútvn, hefur kynnt sér það nokkuð, hve mikil brögð séu að því, að undanþágur þurfi að velta til vélstjórnar á skipum, og fengið upp hjá samgmrn., hverjar undanþágur hafa verið veittar í þessu efni tvö undanfarin ár, og kemur þá í ljós um undanþágur við mótorvélar, sem eru minni en 250 hestöfl, að þar hafa verið veittar á árinu 1956 117 undanþágur. Á árinu 1957 voru þær 149. Til vélstjórnar við vélar, sem eru frá 250 til 600 hestöfl, voru veittar á árinu 1956 49 undanþágur, en 65 á árinu 1957. Undanþágur við mótorvélar yfir 600 hestöfl voru 49 árið 1956, en þeim hafði aðeins farið fækkandi á síðasta ári og voru þá 30. Undanþágur til vélstjórnar við gufuvélar voru 48 á árinu 1956, en 50 á árinu 1957. Ráðuneytið hefur tekið fram, um leið og það lét þessar upplýsingar í té, að þeir aðilar, sem undanþágur hafa fengið, séu ekki jafnmargir og undanþágurnar sjálfar, sökum þess að undanþágurnar eru yfirleitt gefnar út til hálfs árs í senn, og verður því sami aðili oft að fá tvær undanþágur á einu og sama árinu.

Ég hygg, að menn séu sammála um það, að svona mikil undanþáguútgáfa sé heldur óæskileg. Hitt eru menn ekki jafnsammála um, með hverjum hætti beri að draga úr þeim. Sjútvn. hefur litið svo á, að varðandi þá menn, sem þegar hafa aflað sér þeirra réttinda, sem ætlazt hefur verið til á sínum tíma að vélstjórar fiskiskipanna hefðu, beri að láta þá fá aukin réttindi til samræmis við það, sem þróunin heimtar, og að aukinn reynslutími í starfi skuli þar koma á móti því, sem síðar kann að verða ákveðið við endurskoðun fræðslukerfisins, að því er vélstjóramenntun varðar með aukinni skólakennslu.

Þeir, sem telja sér óhag að því, að frv, þetta nái fram að ganga, hafa helzt fært þau rök fyrir máli sínu, að breytingar þær, sem frv. gerir ráð fyrir á réttindum, beri ekki að gera nema í beinu samræmi við endurskoðun á skólakerfinu, þeim hluta þess, sem annast vélstjórafræðslu.

Ég get fyrir mitt leyti fallizt á þessi rök, svo langt sem þau ná. En þegar ekki virðist sjást neitt land fram undan í nálægri framtíð í þeirri endurskoðun, þá sé ég ekki, að nein réttlæting sé til fyrir því að halda réttindalausum í starfi mönnum, sem þjóðfélagið má alls ekki við að missa úr starfinu, né heldur að torvelda þeim þeirra eðlilegu störf, störf, sem aðrir menntaðir menn eru líka ófáanlegir til að leysa af hendi, með því að synja þeim um það að færa réttindi þeirra til samræmis við það, sem nútíminn krefst. Sjútvn. er ábyggilega öll sammála um það, að hraða beri endurskoðun á löggjöf um menntun vélstjóra og að það beri að stefna að því sem höfuðmarki í þeirri endurskoðun, að hver sá maður, sem sýnir sig í verki hæfan til vélstjórnar, skuli eiga þess kost sem þröskuldaminnst að auka við menntun sína stig af stigi, og að það, sem hann hefur numið á einu námskeiðinu eða á einum skólanum, skuli koma honum að fullu gagni við framhaldsnám, og ef nauðsynlegt er, að öll vélfræðimenntunin sé sett undir eina og sömu yfirstjórnina, en fyrst og fremst, að ekki séu lagðir steinar í götu þess, að maður, sem er byrjaður í jafnnauðsynlegu starfi í nútímaþjóðfélagi eins og vélstjórn er, geti haldið áfram að auka við þekkingu sína á grundvelli þess, sem hann þegar hefur lært, og öðlazt réttindi í samræmi við það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar, nema sérstök tilefni gefist til, en vil leggja á það ríka áherzlu, að það er í alla staði eðlilegt, að því skrefi, sem frv. leggur til að tekið verði, verði ekki frestað að þessu sinni, enda þótt réttlæting sé til á því, að eðlilegt hefði verið að stíga þau skref samtímis að breyta um fræðslukerfið og að breyta réttindalögunum.