08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

150. mál, atvinna við siglingar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér neitt í þá deilu, sem hér stendur og hefur oft áður staðið um réttindi vélstjóra á skipum, eða þá deilu, sem hér er um það, hvort ber að samþykkja þetta frv. eða ekki. En ég get ekki látið hjá líða að segja hér örfá orð út af þeirri till., sem hér hefur verið lögð fram, brtt. á þskj. 476 frá hv. þm. N-Þ., sem er formaður í sjútvn., sem er studd af flm. málsins, hv. 2. landsk. Ég verð að segja það, að þetta er einhver skrýtnasta till., sem ég hef séð lagða fram á Alþingi, og tel varla sæmandi, að slíkt væri látið fara héðan burt, því að það er lagt þar til af mönnum, sem eru að berjast fyrir að fá samþykkt frv., samþykkt lög, að þessi sömu lög skuli endurskoðuð fyrir næsta þing, sem verður aldrei seinna, en eftir fimm mánuði frá því nú, þau skuli endurskoðuð fyrir þann tíma og á þeim tíma skuli haft samráð við hvorki meira né minna en öll þau félög, sem þar er til tekið, Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Mótorvélstjórafélag Íslands og Landssamband íslenzkra útgerðarmanna.

Svona lagaða till. getur Alþ. ekki látið frá sér fara. Annaðhvort er þá að samþykkja þessi lög eða samþykkja þau ekki, en vera ekki að samþykkja það um leið, að þau skuli endurskoðast fyrir næsta þing.

Það hefur stundum verið um það talað af þeim, sem eru óvinveittir störfum Alþingis, að það sé eins og þingmenn séu að leika sér að því að samþykkja lög og samþykkja smávægilegar breytingar á lögum ár eftir ár. En ef það er nokkur tilveruréttur fyrir þessari till., sem virðist vera frá a. m. k. tveimur eða mælt með af tveimur mönnum í sjútvn., — ef er nokkur tilveruréttur fyrir þessari till., þá er það sannarlega betra að samþykkja dagskrártill. hv. 5. þm. Reykv, og fresta þessu máli og láta endurskoðunina fara fram, áður en lögin eru samþykkt hér á þingi.