08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

150. mál, atvinna við siglingar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. þm. N-Þ. lét svo ummælt, að mín aths. út af hans brtt. sýndi það, að ég hefði ekki þekkingu á þessu máli. Það má út af fyrir sig til sanns vegar færa, að ég hef ekki þekkingu á því, hvað réttast er að gera í því að veita þessum eða hinum, meira og minna lærðum vélstjórum, full réttindi. En það er ekki það, sem ég gerði hér aths. um, heldur hitt, að ég tel þessa till. frá hv. þm. N-Þ. þannig, að Alþingi geti ekki verið þekkt fyrir að láta hana sjást, að hún hafi verið samþykkt, og mig undrar það mjög, að svo greindur maður eins og hv. þm. N-Þ. skuli koma með svona till., því að um hvað er þetta frv., sem hér er til umr.? Ég sé ekki, að það sé um annað, en um réttindi og menntun vélstjóra, og í þessari till. segir: „Ríkisstj. lætur endurskoða ákvæði laga um menntun og réttindi vélstjóra og sé þeirri endurskoðun lokið fyrir næsta reglulegt þing“ og svo í samráði við öll þau félagssamtök, sem þarna eru talin upp. Ég get ekki hugsað mér, að það sé hægt að fá gleggri meðmæli með þeirri dagskrártill., sem hv. 5. þm. Reykv. hefur hér lagt fram, heldur en þessi brtt, er, því að ef fyrir henni er nokkur grundvöllur, þá er þó að sjálfsögðu réttara að fresta þessu máli til næsta þings og láta þessa endurskoðun beggja þeirra laga, sem um er að ræða, bíða og fara fram, áður en lögin eru samþykkt, þau sem hér eru til meðferðar.