08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

150. mál, atvinna við siglingar

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það, að við erum sammála um að virða lífsreynslu, ég og hv. 2. landsk., en ég álít, að menntunin eigi að koma á undan lífsreynslunni, en ekki á eftir. Það er sá skilsmunur, sem í milli ber hjá okkur í þessu efni og er sennilega kannske meira á orði, en á borði. Og svo segir hann, að ég hafi verið að tala um það, að þeir væru hættulegir öryggi manna á skipunum, sem ekki hefðu neina vélstjóraþekkingu, þegar þeir byrjuðu sem vélstjórar á skipunum. Það liggur nú í hlutarins eðli, að það er ekkert öryggi í því, það sjá allir góðir menn, að það er ekkert öryggi í því að ráða mann til þess að gæta stórrar og dýrrar vélar og margra annarra hjálparvéla, ef hann hefur ekki neina menntun í þessum efnum. En hins vegar er það líka náttúrlega rétt hjá hv. ræðumanni, að það er á stundum erfitt að fá mennina, sem hafa þekkinguna og menntunina. En við viljum einmitt, við, sem erum að mæla á móti frv. hans, mæla með því, að nú séu sett ný lög, þannig að allir gangi glaðir að prófborðinu, áður en þeir fari um borð í skipin, að öryggið sé aukið, og við lýsum því yfir, að það hafi aldrei nokkurn tíma komið fyrir, svo að við vitum, að vantað hafi svo menn á skipin, að þau hafi ekki komizt á sjóinn vegna þessa. Þeir hafa fengið undanþágurnar, eins og ég sagði, á síðustu stundu af illri nauðsyn. En það er verið að gera þessa till. í málinu, til þess að undanþágufarganið hætti, en ekki til þess að auka á það.

Máli sínu til stuðnings sagði hv. flm., að undanþágurnar á síðasta ári hefðu verið 294. Það þýðir það, að 147 menn hafa fengið undanþágur. Það er náttúrlega mjög mikið. Þeir fá þær tvívegis á ári, við vitum það, mér er kunnugt um það, það gengur í gegnum okkar samtök, og við fylgjumst þess vegna með þessu öllu saman. Og ég segi náttúrlega það og undirstrika það með honum, að þetta er mjög leiðinlegt og á ekki að eiga sér stað. En til þess að þetta eigi sér ekki stað, þá þarf ekki og þýðir ekki að vera að bæta nokkrum hestöflum við vélina, sem mennirnir mega vera við, heldur þarf að bæta nokkrum mánuðum við menntun þeirra, svo að þeir geti fengið að starfa við það stórar vélar, að aldrei sé hætta á því, að fiskibátarnir okkar þurfi að stöðvast vegna þess, að menn vantar á þá. Og þegar svo er komið, þá vita mennirnir það í fyrsta lagi, að þeir eru öruggir um að fá stöðu, ef þeir á annað borð eru hæfir, og þá vita þeir hitt um leið, að þeir eiga von um að fá betri stöðu, ef þeir halda námi sínu áfram, eins og gert er ráð fyrir með því fyrirkomulagi, sem við erum að mæla með. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um málið.