24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

150. mál, atvinna við siglingar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef fallizt á í sjútvn. að fylgja fram þessu máli, vegna þess að aðkallandi þörf er á ýmsum breytingum varðandi vélstjórana, sem eru taldar í frv. Hins vegar verð ég að játa það, að hér liggur fyrir nokkurs konar bráðabirgðaúrlausn, þar sem í Nd. var samþ. ákvæði til bráðabirgða, þar sem óskað er, að ríkisstj. endurskoði ákvæði laga um menntunarréttindi vélstjóra og sé þeirri endurskoðun lokið fyrir næsta reglulegt Alþ. Svo eru taldir upp aðilar, sem á að hafa samráð við, þessir venjulegu, að ég held, Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Mótorvélstjórafélagið og Landssambandið.

Hæstv. sjútvmrh. var hér að lýsa sínu áliti á þessari löggjöf og sinni andúð á, að frv. væri vísað til stjórnarinnar, og taldi, að brýn nauðsyn væri á þeim breytingum, sem hér er um að ræða. Ég vil nú ekki mótmæla því, sem hæstv. ráðh. segir í þessu efni, en ég vil minna hann á það, að 16. jan. þ. á. fékk hann mjög vel rökstutt bréf frá Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, þar sem það leyfði sér að fara þess á leit við sjútvmrh., að hann hlutaðist til um, að lögum um atvinnu við siglingar yrði breytt hvað snertir réttindi á fiskiskipum. Svo leið og beið, og það varð enginn var við, að hæstv. ráðh, tæki neitt tillit til þessa bréfs, sem á sínum tíma var í afriti sent til mín og hv. 2. landsk.

Við fengum svo þetta til meðferðar. Ég valdi þá leið að fara hinar troðnu götur, sem farnar voru, þegar hafizt var handa um að endurbæta og lagfæra réttindi siglingarfróðra manna á fiskiskipaflotanum, og flutti till. til þál. hér á þessu þingi á þskj. 245, þar sem ég fór fram á endurskoðun gildandi lagaákvæða um réttindi vélstjóra á fiskiskipum. Þessari till, var þegar mætt við 1. umr., ekki af hæstv. sjútvmrh., heldur af hæstv. menntmrh., þann veg, að það væri næsta óþarft að flytja till. til þál. um endurskoðun, af því að hún stæði yfir og mundu bráðlega verða lögð þess háttar ákvæði fyrir Alþ. Nú hefur liðið og beðið mánuðum saman, og frá hæstv. ríkisstj. hefur ekkert heyrzt í þessu efni. Svo tók hv. landsk. þm. sig til, Karl Guðjónsson, og flutti það frv., sem hér um ræðir.

Ég vissi það af undangenginni reynslu, að það er alltaf dálítið hæpið fyrir einstaka þm. að fara að hafa þá aðferð að flytja beinlínis frv. um réttindi fagmanna, hvort sem er til sjós eða lands. Það rísa þar ýmsir á móti, eins og vant er og hefur orðið líka núna raunin á, og ég hafði reynsluna t. d. fyrir mér, hversu affarasælt það reyndist með lagfæringu réttinda siglingafræðinga eða skipstjóra og stýrimanna á bátunum, sem fyrst var þannig á haldið af minni hálfu, að ég hafði í hyggju að leggja fram frv., og bar mig saman við ýmsa góða menn í þessari hv. d. um það, hversu þeir tækju því, en með ráðum þeirra beztu manna í hv. Ed, hallaðist ég að því og gerði það raunar með þeirra tilstyrk að flytja þáltill. í þessu tilfelli, þegar um var að ræða stýrimenn og skipstjóra, með mjög góðum árangri og hafði hugsað mér að halda þeirri aðferð áfram hvað snertir réttindi vélstjóranna í þetta sinn. En ég fékk sem sagt það í fangið hjá hæstv, ríkisstj., þegar ég flutti það mál, að það væri alveg óþarfi fyrir mig að vera að flytja þessa þáltill., vegna þess að hæstv. ríkisstj. væri að koma með þetta nál. og erindi inn á þingið, sem síðan hefur ekki komið.

Mér þykir það eiginlega hafa verið furðuleg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. eftir orðum hæstv. sjútvmrh. núna að dæma, eftir því, hvað hann leggur mikla áherzlu á, að nauðsynlegar lagfæringar fáist í þessu efni, sem ég ekki vefengi, heldur hefði viljað gera mig að talsmanni fyrir. Mér virðist þess vegna, að hæstv. sjútvmrh. hefði átt að sjá um það, að niðurstaða þeirrar n., sem sett var til að rannsaka þetta mál á sínum tíma, hefði legið fyrir eða þá skipuð hefði verið önnur n., þegar búið væri að hreyfa því með till. til þál. hér á hv. Alþ. En vinnubrögðin gagnvart henni voru þau, að henni var af hv. allshn. Sþ. vísað til ríkisstj, með rökstuddri dagskrá, sem segir þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem sérstök n. hefur fjallað um endurskoðun laga um réttindi vélstjóra og hefur lokið störfum og í trausti þess, að ríkisstj. leggi fljótlega fyrir Alþ. frv. um málið, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Henni er sem sagt vísað til ríkisstj. á þessum forsendum.

Mér virðist, að ríkisstj. hafi að sínu leyti ekki gefið málefnum vélstjóranna né þeirra þörfum nægilegan gaum, þar sem í þessu tilfelli, sem ég nefndi, rökstudd till. og bænarskrá frá Vélstjórafélagi Vestmannaeyja var í höndum hæstv. sjútvmrh. í miðjum janúar þessa árs.

Hæstv. ríkisstj. hefur svo hallazt að hinu að styðja þetta frv., sem fyrir liggur, og skal ég ekki lasta það, en þykir þó leitt, að í það hefur verið settur sá kafli í Nd., að það má segja, að þó að það sé samþ., sem í því stendur núna, er þar ekki tjaldað nema til einnar nætur, ef sá kafli verður virtur af ríkisstj., sem ekki ber að efast um, þar sem heitið er endurskoðun á ákvæðum þessara laga núna á næstunni, á að verða lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi, og má þá ætla, að taka verði tillit til þeirra mótmæla að einhverju leyti, sem komið hafa fram frá Vélstjórafélagi Íslands og fleiri aðilum við meðferð þessa máls. Ég vil benda á, að það getur haft þær afleiðingar í för með sér, að þessi réttindi verði kannske ekki að gagni, og er þar eingöngu um að kenna hæstv. ríkisstj., sem ekki hefur sinnt þessu máli á réttan þinglegan hátt, eins og það hefur verið fram borið og fram lagt, og hvergi nærri í samræmi við yfirlýsingar hæstv. menntmrh. og viðbrögð hans, þegar till. mín til þál. var lögð fram í fyrsta sinn hér á þingi, og verður þetta enn þá undarlegra, þegar hæstv. sjútvmrh. lýsir yfir sinni sannfæringu um endurbætur á þessu máli, sem kom fram í hans ræðu hér áðan.

Ég vildi láta þessar athugasemdir koma fram, um leið og ég bendi á það, að ég er einn af þeim, sem mæla með, að frv. verði samþ. með breytingum. Ég vildi láta þessar aths. koma fram til skýringar þessu máli og þeim vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft til að koma málinu í rétta átt.