24.05.1958
Efri deild: 106. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

150. mál, atvinna við siglingar

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Það var aðeins örstutt aths. — Eins og hv. þm. Vestm. (JJós) veit eflaust manna bezt, þá var þessum málum þannig fyrir komið, að það má segja, að þessi mál séu nokkuð tvíþætt. Annars vegar er löggjöf um menntun vélstjóra, kennslumál öll, sem lúta undir menntmrh., og það var í tíð fyrrv. ríkisstj., sem sú n., sem hann vitnaði í, var skipuð til þess að endurskoða þá löggjöf, og það er málefni menntmrn. Það er talsvert umfangsmikið og flókið mál að koma sér þar niður á heildarskipulag í öllum kennslumálum í sambandi við vélfræðikennslu. Það er sem sagt mál, sem ekki flokkast undir mig og ég hef ekkert með að gera og hef ekki haft áhrif á, þó að ég hafi m. a. samkvæmt áeggjan hv. þm. Vestm., sem hefur verið sérstakur áhugamaður um það að fá þær leiðréttingar fram, sem í þessu frv. felast, engu síður, en í sambandi við réttindi skipstjórnarmanna, — að þá hef ég innt eftir því, hvort þessi n, á vegum menntmrn, skilaði ekki störfum og hvort ekki væri hægt að taka þetta mál fyrir þannig sem heild. En þetta hefur ekki gengið, vegna þess að þarna hefur verið flókið og umfangsmikið mál og mikill ágreiningur uppi.

En hinn þáttur þessa máls er svo aftur sá, sem snýr beinlínis að atvinnu við siglingar og kemur fram í því og flokkast þar með undir mig, að til skulu þó jafnan vera menn, sem hafa réttindi til þess að stjórna t. d. okkar fiskibátum, bæði vélum þeirra og svo aftur með skipstjórnarréttindum, og það fellur undir mitt rn. að hafa með það að gera að veita undanþágur, þegar það reynist óhjákvæmilegt, af því að það er ekki hægt að manna skipin mönnum með full réttindi, eins og komið er. Það er ekkert launungarmál, að það hefur ekki aðeins komið frá Vélstjórafélagi Vestmannaeyja bréf til rn. varðandi þetta öngþveitisástand, sem hefur lengi verið ríkjandi varðandi réttindi vélstjóra á fiskibátum. Það hafa komið bréf frá mörgum fleiri aðilum víða á landinu, sem hafa fundið, í hvers konar óefni þetta er komið, og það, sem ég legg því áherzlu á í þessu efni, er það sama og var í sambandi við skipstjórnarréttindin, að eins fljótt og kostur er á verði gerð breyting varðandi réttindi vélstjóranna, einkum fyrir fiskiskipin, svo að hægt sé að hafa þar eitthvað eðlilegt eftirlit á, en það er ekki eins og nú er.

Auk þess verður maður að segja það, að þetta undanþágufargan, eins og það er, getur í mörgum tilfellum komið mjög óréttilega út. Það hefur verið sá háttur á að veita mönnum undanþágu til þess að mega vera vélstjórar á fiskibát í tiltekinn tíma, 3 eða 4 mánuði. Þannig hefur þetta oft verið veitt fyrir viðkomandi vertíð, en svo allt í einu býðst einhver maður með meiri réttindi eftir þann tíma, og þá verður að flæma þann mann frá starfinu, t. d. að aflokinni vetrarvertíð, sem mátti vera á bátnum með leyfi stjórnvalda yfir háveturinn, þegar mest á reyndi, en er svo aftur flæmdur af sama báti rétt á eftir eða í lok vetrarvertíðar, þegar einhver annar kemur. Hið eðlilega er vitanlega að breyta gildandi ákvæðum í þessum efnum, eftir því sem reynslan hefur sannað og sýnt að er þörf á og eðlilegt, og af því held ég, að ekki sé eftir neinu að bíða með að lögfesta þessi ákvæði, sem þetta frv. felur í sér. Hitt er svo aftur að vinna að því áfram, eins og líka bráðabirgðaákvæði í þessu frv. gerir ráð fyrir, að reynt verði að hraða þeim undirbúningi, sem í gangi hefur verið, að lagt verði hér fram frv, á Alþ. um kennslumál vélstjóra almennt og það þá tekið til afgreiðslu, en samþykkja eigi að síður þá brtt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sem leysir þar með hjá okkur allverulega mikinn vanda.