17.12.1957
Efri deild: 44. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

35. mál, útsvör

Forseti (BSt):

Við fyrri hl. þessarar umr. var krafizt úrskurðar forseta um brtt., sem er samhljóða brtt. á þskj. 173, þ.e. ef hún yrði samþ., yrði brtt. á þskj, 169 samhljóða þeirri brtt., sem krafizt var úrskurðar um, hvort mætti bera undir atkvæði. Ég kvað þá upp úrskurð um þetta, að tillagan mætti berast undir atkvæði, þar sem slík till. hefur ekki verið felld í hv. d. En til áréttingar þessu skal ég taka fram, vegna þess að úrskurðinn kvað ég upp án þess að hafa á nokkurn hátt búið mig undir það eða athugað málið sérstaklega, — mér virtist bara þingskapaákvæðið, sem vitnað var til, vera ótvírætt, — en ég skal bæta við, að árið 1917 féll úrskurður forseta í Nd., sem þá var Ólafur Briem, um svipað efni. Árið 1950 úrskurðaði forseti Nd. þáverandi, Sigurður Bjarnason, hv. þm. N- Ísf. um sama efni. Var þar að ræða um brtt. við frv. til jarðræktarlaga. Árið 1954 kvað forseti efri deildar, sem þá var Gísli Jónsson, upp úrskurð um þetta atriði. Var það varðandi brtt. við frv, til áfengislaga. Í öllum þessum tilfellum er niðurstaðan sú, að þótt frv. sé breytt í d., má bera fram brtt. í sömu d. um að færa frv. í fyrri búning.

Þessum úrskurðum hef ég fylgt og því fordæmi, sem þeir hafa gefið um 40 ár.

Í 32. gr. þingskapa stendur: „Breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella í deild, má ekki bera upp aftur í sömu deild á sama þingi.“ Hér er ekki þessu til að dreifa. Brtt. um þetta atriði hafa ekki áður verið felldar hér í hv. d. Það er sérstaklega greinilegt um úrskurð fyrrverandi forseta þessarar d., Gísla Jónssonar, að það er algerlega hliðstætt því, sem hér er um að ræða. Það var um, hvaða áfengismagn mætti vera í drykk. (Gripið fram í: Mun veigameiri atriði, en hér er um að ræða.) Já, að vísu það. Það var gerð tilraun til þess að gera það að engu, sem við hv. þm. Seyðf. höfðum þá komið áleiðis, en tókst ekki, og var það ekki forseta að kenna, því að hann úrskurðaði, að till. mætti berast upp.

Málið liggur þá hér fyrir til framhalds 3. umr.