28.05.1958
Efri deild: 109. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

150. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. flytur á þskj. 564 þrjár brtt. til viðbótar þeim, sem hún hefur áður flutt við frv. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Þessar brtt. eru ekki stórvægilegar og raska ekki í neinu þeim tilgangi, sem frv. er ætlaður. Tvær fyrri brtt. eru nánast leiðréttingar, sem er nauðsynlegt að gera, til þess að fullt samræmi verði í frv., og þriðja till. er það raunar líka, en auk þess er í henni að finna nánari skýringar, sem n. hefur talið nauðsynlegt að væru gerðar til samræmis við aðrar breytingar frv.

Allar þessar brtt. eru fluttar í samráði við Vélstjórafélag Íslands og með fullu samþykki þess. Því miður náðist ekki til allra nm. í sjútvn., tveir voru fjarstaddir, þegar gengið var frá þessum brtt., en ég hygg þó, að allir nm. muni fallast á þær og standa að þeim.