23.05.1958
Neðri deild: 103. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

56. mál, sjúkrahúsalög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þá brtt., sem hv. heilbr.- og félmn. gerir við frv. sjálft, en brtt. n. er á þskj. 503. Till. mín er þess efnis, að nokkur hækkun verði gerð á rekstrarstyrk fjórðungssjúkrahúsa, svo sem lagt er til af nefndinni að gert verði varðandi styrk til annarra sjúkrahúsa. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. gerði grein fyrir því við upphaf þessarar umr., að talin hefði verið brýn nauðsyn að hækka þennan rekstrarstyrk nokkuð, en till. n. er um það, að hann verði hækkaður sem svarar 5 kr. á legudag fyrir þær tvær tegundir sjúkrahúsa, sem þar eru tilgreindar, eða tvo sjúkrahúsaflokka. En aftur á móti hefur n. ekki séð sér fært að gera ráð fyrir nokkurri hækkun á styrk til fjórðungssjúkrahúsa.

Þetta virðist mér næsta einkennilegt. Þvi er að vísu haldið fram, að rekstrarafkoma þess fjórðungssjúkrahúss, sem hér er að svo stöddu eitt um að ræða undir þessum flokki, fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, hafi verið það sæmileg, að ekki þyki ástæða til þess að hækka styrkinn af þeim sökum.

Ég hygg nú, að við nánari athugun á rekstrarhag og afkomu þess sjúkrahúss muni það fljótt koma í ljós og geti naumast hafa dulizt fyrir nm., að því fer fjarri, að hagur þess sjúkrahúss sé sérstaklega góður, og miðað við þann stórvaxandi kostnað, sem er við allan slíkan rekstur, þá er það augljóst mál og enda vitað eftir upplýsingum, sem fyrir liggja frá forráðamönnum þess sjúkrahúss, að þar er um að væri að gera ráð fyrir, að tilkostnaður á fjórðungssjúkrahúsum væri mun meiri en á öðrum sjúkrahúsum.

Till. sú, sem ég flyt hér um þetta efni, er mjög hófsamleg að minni hyggju, því að miðað við það hlutfall, sem áður var talið eðlilegt á milli sjúkrahúsanna, fjórðungssjúkrahúsa annars vegar og annarra sjúkrahúsa hins vegar, þá hefði hækkunin átt að verða mun meiri, ef sama hlutfall hefði átt að ráða. Ég hef hins vegar í till. minni miðað við þá mjög hófsamlegu hækkun, að hér yrði aðeins um að ræða 5 kr. hækkun á legudag eins og hjá öðrum sjúkrahúsum, þó að viðurkennt hafi verið upphaflega, að eðlilegt væri og að gera ráð fyrir, að tilkostnaður á fjórðungssjúkrahúsum væri mun meiri, en á öðrum sjúkrahúsum,

Það var tekið fram af hv. frsm. n., að kostnaður á legudag í landsspítalanum eða halli af rekstri hans væri á annað hundrað kr. á legudag, sem ríkið yrði að greiða. Það getur því naumast neinum manni dulizt, að þess er ekki að vænta, að fjórðungssjúkrahús og það fjórðungssjúkrahús, sem hér er um að ræða á Akureyri, er mjög fullkomið sjúkrahús í fleiri deildum, að það geti búið við aðeins 20 kr. á legudag, þannig að auðið sé að reka sjúkrahúsið á þeim grundvelli. Ég vildi því mjög eindregið fara þess á leit og treysta á stuðning hv. n. til þess að fá því framgengt, að þessi smávægilega hækkun yrði gerð á fjórðungssjúkrahúsum. Það getur ekki munað nema hverfandi lítilli upphæð fyrir ríkissjóðinn, þó að þetta yrði samþykkt, þar sem hér er aðeins um eitt sjúkrahús að ræða. Það er að vísu gert ráð fyrir fleiri slíkum sjúkrahúsum, en ég held, að þessi ósk verði að teljast fullkomlega sanngjörn. Hugsunin með því að koma upp fjórðungssjúkrahúsum byggist einmitt á því, að í hverjum fjórðungi verði komið upp fullkomnu sjúkrahúsi, sem geti leyst þann vanda, sem hin smærri sjúkrahús í fjórðungnum ekki geta leyst, af því að þau eru ekki jafnfullkomin, og þannig hægt að koma í veg fyrir það, að þurfi með alla sjúklinga að leita til landsspítalans hér í Reykjavík.

Ég hygg, að öllum hv. þm. sé kunnugt um, að þetta fjórðungssjúkrahús á Akureyri er mjög fullkomið og vandað sjúkrahús, búið fullkomnustu tækjum, Það ber vissulega að fagna því, að það hefur tekizt eftir öllum atvikum að reka það á hagkvæman hátt. En ég þori að fullyrða, að þess er engin von, að það sé hægt að fleyta því áfram með óbreyttum rekstrarstyrk, svo sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Ég get vel fallizt á að taka þessa till. mína aftur til 3. umr., svo sem hv. frsm. n. benti á, þó að það væru að vísu ekki hans tilmæli í nafni nefndarinnar, í trausti þess, að hv. n, sæi sér fært að kanna til hlítar, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi um það við hæstv. ráðh., að einnig yrði gengið að þessu leyti á þennan hátt til móts við nauðsyn fjórðungssjúkrahúsanna eða í þessu tilfelli fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. — Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, það liggur ljóst og einfaldlega fyrir, en mun við atkvgr. við þessa umr. taka till. aftur til 3. umr.