17.12.1957
Efri deild: 44. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

35. mál, útsvör

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. forseti kvað við 2. umr. upp úrskurð um það, að leyfilegt væri að bera upp aftur till. um 3% hækkun. Að vísu fór hann að gera tilraun til að bæta upp á þann úrskurð hér nú, bæta um forsendur. Ég sé ekkert við það að athuga. En rökstuðningurinn er sá sami, að vegna þess að upphaflega till. hefði ekki verið felld, þá megi bera hana upp aftur. Ég benti á, að við 2. umr. málsins, var samþ. brtt. frá mér, sem vísaði þessari till. frá og var því sama sem að fella hana; hún var úr sögunni. Þar með var 3% fallið burt. Ég lít svo á enn, að úrskurður hæstv. forseta fái ekki staðizt samkv, 32. gr. þingskapa. En þetta verður að standa, við verðum að lúta þessum úrskurði. Ég hef því ekki aðra till. að gera nú, en óska eftir því, að báðar þessar brtt. á þskj. 169 og 173 verði felldar. Það er það eina, sem ég teldi samboðið þessari deild, úr því sem komið er.