23.05.1958
Neðri deild: 103. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

56. mál, sjúkrahúsalög

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það liggur hér fyrir, að gerðar verði nokkrar breytingar á framlagi ríkissjóðs til sjúkrahúsarekstrar í landinu. Þessar breytingar fela í sér nokkra hækkun á þessum rekstrarstyrk, auk þess sem grundvellinum fyrir skiptingu styrksins er nokkuð breytt frá því, sem er í gildandi lögum um þetta efni. Ég hef þess vegna flutt hér brtt. viðvíkjandi þeirri skipan, sem hér er lagt til að gerð verði um framlag ríkissjóðs, að þá verði látið sama ganga yfir framlag til fjórðungssjúkrahúsa og sjúkrahúsa bæjar-, sýslu- og sveitarfélaga, sem að dómi landlæknis eru vel búin tækjum og hafa a. m. k. tvo fastráðna lækna, yfirlækni og 1. aðstoðarlækni. Þessi sjúkrahús, sem ég nú lýsti, eiga að fá skv. till. 15 kr. styrk á legudag, en fjórðungssjúkrahúsið aftur á móti 20 kr. á legudag. Og til skýringar á því í þessum brtt., sem hér liggja fyrir frá heilbr.- og félmn., er um skilgreininguna á því, hvað séu fjórðungssjúkrahús, vitnað til 10. gr. laganna um þetta efni, en þar segir svo, að það er talað um fjórðungssjúkrahús, eitt á Vestfjörðum, annað á Norðurlandi og þriðja á Austurlandi.

Nú hef ég fengið um það upplýsingar hjá hæstv. félmrh., að eigi sé viðurkennt fjórðungssjúkrahús nema sjúkrahúsið á Akureyri, eins og sakir standa nú. Hitt hefur ríkisstj. svo á valdi sínu, að ákveða um það, hvert af sjúkrahúsunum á Vesturlandi og Austurlandi skuli teljast fjórðungssjúkrahús. Ríkisstj. hefur heimild til þess að ákveða, að öll þessi sjúkrahús skuli teljast fjórðungssjúkrahús, þó að svo sé ekki gert í frv. Það mundi þess vegna verða nokkur ásókn um það frá viðkomandi sjúkrahúsum, að svo yrði gert, með tilliti til þess, að þeim er ætlaður allmiklu hærri styrkur á hvern legudag, en öðrum sjúkrahúsum. Nú er það vitað, að það eru ýmis sjúkrahús hér á landi, sem eru allmikið stærri en t. d. sjúkrahúsin á Austurlandi a. m. k. Mér er kunnugt um þau sjúkrahús, sem þar eru stærst, á Seyðisfirði og Norðfirði, að þar er ekki rúm nema fyrir 23–25 sjúklinga í hvoru húsi. Aftur eru það ýmis önnur sjúkrahús, sem hafa yfir að ráða miklu fleiri sjúkrarúmum, eins og t. d. á Akranesi, og öðrum útbúnaði í sambandi við það. Mér skilst, að á Akranesi muni verða tiltæk núna á þessu ári allt upp í 40 sjúkrarúm, þegar búið er að flytja yfirlækninn úr spítalanum og hjúkrunarkonurnar, sem þar búa nú, því að það er verið að ljúka við byggingu húss, sem þetta fólk flytur i. Þess vegna virðist mér, með tilliti til þeirrar þýðingar, sem slík sjúkrahús hafa, sem hafa tvo lækna og öll fullkomnustu tæki, að þau ættu að njóta öll þess hæsta styrks, sem ákveðinn er. Það er vitað um þessi sjúkrahús, eins og t. d. sjúkrahúsið á Akranesi, að þangað sækja sjúklingar hvaðanæva af landinu. Það sjúkrahús hefur á að skipa góðum læknum og hjúkrunarfólki, sem vakið hefur mikið traust, og er ásókn um að komast á þetta sjúkrahús og fá aðgerðir þar miklu meiri, en hægt er að sinna.

Nú er það svo almennt um sjúkrahúsareksturinn í landinu, að það hefur ekki frekar en á landsspítalanum tekizt að leggja á eða þótt fært að innheimta þau sjúkragjöld, að ekki verði ávallt meiri og minni halli á rekstri þessara sjúkrahúsa. Það virðist því vera sanngjarnt og eðlilegt um þau sjúkrahús, sem svo eru búin og inna af hendi verk, er snertir fólk í öllum byggðum þessa lands, að þau njóti nokkuð ríflegs styrks til síns rekstrar, þannig að kostnaðinum umfram það, sem hægt er að krefjast af því sjúka fólki eða þeim, sem að því standa, verði sem allra mest dreift. Og við þetta er brtt. mín miðuð.

Það má vel vera, að rétt sé, að sjúkrahúsið á Akureyri sé stærst sjúkrahúsa hér á landi, þegar frá eru tekin sjúkrahúsin í Reykjavík, og að sjálfsögðu innir það af hendi starf, sem snertir margar byggðir í þessu landi. En það eru líka önnur sjúkrahús, sem nokkuð slaga upp í þetta og inna af hendi sams konar eða hliðstærð hlutverk, að mér skilst, og þar ætti ekki að gera upp á milli, auk þess sem ríkisstj. hefur í hendi sér að ákveða, að sjúkrahús á Vesturlandi og Austurlandi komist einnig undir ákvæði fjórðungssjúkrahúsanna. En eins og ég hef áður lýst, þá eru þau, a. m. k. sjúkrahúsin á Austfjörðum, allmiklu minni ,en mörg önnur sjúkrahús, sem búa nú við lægra framlag, en fjórðungssjúkrahúsið, sem nú er, og máske önnur fjórðungssjúkrahús, sem samkv. ákvæðum laganna er hægt að beita þessum ákvæðum við. Ég vildi þess vegna vænta þess, að hv. d. gæti litið á þessi mál líkt því, sem ég hef nú reifað hér, og ég mun að sjálfsögðu eins og hv. 2 þm. Eyf., sem einnig á brtt. við þetta frv., taka aftur mína till. til 3. umr., svo að þeirri nefnd, sem hefur málið með höndum, gefist einnig færi á að athuga hana.