14.03.1958
Efri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1642)

138. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á það, að breytt sé umdæmum dýralæknanna, þess, sem nú hefur Dali, og hins, sem hefur Vestfirðina.

Þetta frv. er fram komið vegna þess, að síðan dýralæknisumdæmaskipunin var síðast gerð, hafa samgöngur breytzt, svo að líti maður á heild búfjáreigenda á þessum tveimur svæðum, þá er þeim betur séð fyrir dýralæknisþjónustu með þeirri breyt., sem frv. fer fram á.

Frv. fer fram á það, að Vestur-Barðastrandarsýslan, sem að lögum nú heyrir til Vestfjarðaumdæminu, verði tekin af því og sett undir Dalaumdæmið. Þróunin í dýralæknismálunum í landinu hefur verið sú, að þeim hefur verið að fjölga smám saman. Þegar við, sem orðnir erum gamlir, eins og ég, munum fyrst eftir okkur, var einn dýralæknir í landinu, sem sat í Reykjavík, og umdæmi hans allt landið. Síðan urðu þeir tveir: annar sunnanlands og hinn fyrir norðan, og svo fjórir: einn í hvoru amti, og svo hefur þeim verið að smáfjölga, og eftir síðustu breytinguna eru þeir orðnir tólf.

Þó er enn svo, að stórir hlutar af landinu eru í raun og veru dýralæknislausir, þó að þeir heyri undir eitthvert dýralæknisumdæmi. Í þeim hluta hefur verið Vestur-Barðastrandarsýslan, sem átti að sækja dýralækni til Ísafjarðar, þar sem reyndar enginn hefur verið. En þó að það hefði verið maður þar, er það sama, því að samgöngum þar á milli er þannig háttað, að þær eru engar á landi og á sjó með strandferðaskipunum, og dýralæknir til Ísafjarðar mundi yfirleitt ekki vera sóttur þaðan.

En þó að ekki séu mörg ár síðan 1955, að dýralæknislögunum var síðast breytt, hefur þó síðan orðið sú breyting á, að nú er kominn bílvegur eftir endilangri Barðastrandarsýslu, að vísu ekki góður enn alls staðar, en fær samt, og þess vegna hægt að nota dýralækni, sem þjónar Dalaumdæminu, í þeirri sýslu. Að vetrinum kemur þarna að vísu snjór á þá hálsa og heiðar, sem þessi vegur liggur yfir, og teppir venjulegar bílferðir. En nú er líka á því orðin sú breyting, að þarna er kominn snjóbíll, sem fer reglulega hálfsmánaðarlega eftir sýslunni, og er því ólíku saman að jafna eða var, þegar Vestur-Barðastrandarsýsla var látin heyra undir Ísafjarðarumdæmi og var eiginlega þar með afskorin frá að ná sér í dýralækni.

Það sést að nokkru leyti, hvernig dýralæknarnir sjálfir líta á þetta. Þegar dýralæknisumdæmunum, sem laus voru og hafa verið árum saman, var slegið upp í vetur, voru þau fimm dýralæknisumdæmin, sem slegið var upp. Það var Dalasýsluumdæmið, Vestfjarðaumdæmið, Skagafjarðarumdæmið, Þingeyjarsýsluumdæmið og Laugarásumdæmið. Þá voru til nýkomnir frá prófi allmargir dýralæknar, og þá sóttu þeir þannig, að þrír sóttu um Laugaráshéraðið, óskuðu helzt eftir að vera þar, tveir sóttu um Skagafjörðinn, einn um Suður-Þingeyjarsýsluna og enginn hvorki um Dali né Vestfirði.

Þessi þrjú dýralæknisumdæmi, sem um hafði verið sótt, voru síðan veitt, og slegið upp hinum tveimur, sem enginn sótti um, Dalasýslu og Vestfjarðaumdæmi, ásamt Egilsstaðaumdæmi, sem losnaði, er læknirinn þar fékk Laugarásumdæmi. Þá sótti einn af þeim, sem enn var laus og ekki hafði fengið stöðu, um Dalaumdæmið og enginn um Vestfirðina. Einn settist að erlendis, annar er hér enn ekki kominn í neina atvinnu og kýs það frekar, en að fara á Vestfirðina.

En ég hygg, eftir að hafa hlustað á þá ofur lítið um þetta, að aðalatriðin, sem þeir setja fyrir sig á Vestfjörðunum, eru samgöngur um Vestfirðina og hins vegar, að þeim þyki svæðið of stórt og erfitt. Ég hygg þess vegna, að með því að taka af Vestfjarðaumdæminu Vestur-Barðastrandarsýsluna, sem núna á mun hægara með að ná í dýralækni, sem situr í Dalasýsluumdæmi, muni menn frekar sækja um Vestfjarðaumdæmið.

Þetta út af fyrir sig mælir með því frá mínu sjónarmiði, að frv. verði samþykkt. Hins vegar er ekki því að neita, að það heyrir undir ráðherra hverju sinni að ákveða, hvar dýralæknirinn skuli búsettur í hverju héraði. Nú er það svo, að þarna kemur til greina, hvar hann eigi að vera búsettur, og eftir því sem ég veit bezt, munu vera til þrjú hús í Dalasýslu, sem lítið eða ekki eru notuð sem stendur og dýralæknir þess vegna mundi geta fengið til afnota. Aftur á móti veit ég ekki um, að neitt slíkt sé til í hvorugri Barðastrandarsýslunni. Í grg. frv. er svona í og með a. m. k. búizt við því, að hann muni sitja í Króksfjarðarnesi, ráðherra muni ákveða það. Um það þori ég ekkert að fullyrða. En það er vitanlegt eða a. m. k. trúlegt, að verði þetta frv. samþykkt og umdæmið stækkað, eins og þar er lagt til, Dalasýsluumdæmið, að hann verði annaðhvort látinn sitja í Saurbænum, þar sem til mun vera hús handa honum, eða þá í Króksfjarðarnesi. Og í báðum tilfellunum er ekki því að neita, að partur af mönnum í Dalasýsluumdæminu mundi eiga lengra að sækja til hans, ef hann sæti þar, meðan aftur á móti Vestur-Barðastrandarsýslan hefði möguleika til að nota hann, sem menn þar hafa ekki eins og lögin eru nú.

Ég held þess vegna, að ef maður lítur á heildarþörf bændanna á þessum svæðum báðum fyrir dýralækna og hvernig henni verði bezt fullnægt, þá sé tvímælalaust, að það eigi að samþykkja frv. Mér er alveg ljóst, að þetta er fyrsta breyting, sem kemur fyrir Alþ. á dýralæknalögunum, eins og þau eru nú, og mér er líka ljóst, að þróunin verður sú, að dýralæknaumdæmunum verður fjölgað, svæðin stækkuð og ef til vill líka breytt, eftir þyí sem samgöngur breytast í landinu. Ég vil ekki spá neinu um næstu tillögur, sem hér koma fram. Það er í þinginu önnur till., sem fer fram á nýjan dýralækni í Austur-Skaftafellssýslu, sem hafi þá líka syðstu hreppana tvo í Suður-Múlasýslu. Eins mundu margir vilja, að það kæmi dýralæknir á Snæfellsnesið, sem þá tæki hluta af því umdæmi, sem nú er látið heyra undir Dalina, og þegar vegur kæmi yfir Heydalinn, sem ekki verður mörg ár að bíða, þá er alveg gefið, að Skógarströndin verður annaðhvort lögð undir Borgarnes eða dýralæknir kemur á Snæfellsnesið. Ég gæti haldið áfram svona. Það er nokkurn veginn gefið, að svæði, sem heita mega dýralæknislaus, eins og fyrir norðan Öxarfjarðarheiði í Norður-Þingeyjarsýslunni og nyrzti hlutinn af Norður-Múlasýslunni, fara líka að óska eftir dýralækni þar o. s. frv., o. s. frv.

Þetta litla frv. er fyrsta skrefið af mörgum, sem koma á næstu árum, þar sem þörfin vex fyrir dýralækna. Hins vegar er svo ekki því að neita, að þörf fyrir dýralækna á landinu er ákaflega misjöfn, og það kemur til af því, að með þeim löngu vegalengdum, sem við höfum, og þess vegna dýrt að sækja og nota dýralækni víða, þá kinoka menn sér við það, nema þar sem hvort tveggja hefur skeð, skepnurnar eru orðnar arðsamar og góðar og þar með dýrar fyrir eigandann og dýrt að missa þær, og þá leggja menn mikið í kostnað til þess að geta náð í dýralækni. Bóndi hér nærlendis, sem hefur um 50 nautgripi, þar sem engin kýrin mjólkar innan við 4 þús. lítra og tvær þær nythæstu upp í kringum 6 þús., mundi hiklaust ná í dýralækni, ef eitthvað bæri út af með gripina, þó að það væri dýrt. Aftur á móti þar sem ekki er að ræða um gripi, t. d. kýr, nema sem mjólka milli tvö og þrjú þús. og jafnvel neðan við tvö, þar kinoka menn sér við að fara að leggja í mikinn kostnað, þó að eitthvað sé að gripnum. Nákvæmlega sama er með sauðféð. Af skýrslum frá fóðurbirgðafélögunum, sem eru á nokkrum stöðum á landinu, sést glögglega, hve mikinn arð bóndinn hefur brúttó af sínu fé. Sá hreppur, sem 1955–56 hafði hann mestan, hafði 22.4 kg af dilkakjöti eftir hverja fóðraða kind, og þeir bændur, sem voru hæstir, voru með yfir 30 kg af kindakjöti eftir hverja fóðraða kind. En þeir hreppar, sem voru lægstir, voru neðan við 10 kg eftir fóðraða kind. Bóndanum, sem býr þar, finnst það ekki verulegur skaði, þó að hann missi eina eða tvær rollur, arðurinn af þeim er svo lítill, meðan hinir, sem eru þar, sem arðurinn er beztur, klífa þrítugan hamarinn og reyna að ná sér í dýralækni, þó að það sé dýrt.

Eftir því sem þetta breytist og fleiri og fleiri koma inn í þann hópinn, sem eignast og á arðsamar skepnur, eftir því fjölgar kröfunum um að hafa dýralækni það nærri sér, að hægt sé að nota hann, og eftir því verður þeim smám saman fjölgað um landið þvert og endilangt. Þetta fylgist nokkuð í hendur, kröfurnar um dýralækna, þar sem mikið er hugsað um að fá mikinn arð eftir hverja einustu skepnu, heldur en að meira sé hugsað um hitt, að hafa fjöldann mikinn, þó að arðurinn af þeim sé lítill.

Við vorum ekki allir á fundi, þegar frv. var afgreitt. Finnbogi R. Valdimarsson, 4. landsk., var þá ekki mættur, hann var veikur, en ég talaði við hann bæði fyrir og eftir, og síðan var honum sýnt nál., þegar búið var að semja það, og hann skrifaði undir það, svo að það er meiri hluti, — þó að á fundinum væru tveir og tveir, — sem að því stendur að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, sem ég áðan sagði, að þegar litið er á sjónarmið allra þeirra, sem skepnur eiga og á dýralækni geta þurft að halda í þessum tveimur dýralæknisumdæmum, sem hér er gerð tillaga um að breyta takmörkunum á nokkuð, þá tel ég tvímælalaust, að frv. eigi að samþykkjast. Líti maður aftur aðeins á sjónarmið hluta umdæmisins, t. d. Dalasýslubúanna einna, þá er náttúrlega nokkurn veginn gefið, að ráðh., sem ákveður bústaðinn, ef hann ætti að vera með Dalasýslu eina, mundi láta hann sitja í Búðardal, en ef hann fengi þessu nýja umdæmi við bætt, annaðhvort í Saurbænum eða Króksfjarðarnesi. Þá eru nokkrir, sem eiga lengra að sækja hann, óhægara með að sækja hann. Það fer þess vegna eftir því, hvað víðsýnt er litið á þörf bændanna á svæðinu allra eða hvort maður bindur sig við sjónarmið nokkurra manna á svæðinu, hvort menn samþykkja frv. eða ekki.