14.03.1958
Efri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1645)

138. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Hv. flm. þessa frv. gat þess í upphafi máls síns, að ég virtist ekki álíta, að hann teldi, að frv. þetta væri til hagsbóta Vestur-Barðastrandarsýslu.

Ég minnist nú ekki að hafa sagt neitt um þetta. Það getur vel verið, að hann telji, að það sé til einhverra bóta fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu, en hins vegar teljum við í minni hl. það ekki vera, a. m. k. að mjög litlu leyti, og erum að því leyti sammála yfirdýralækni. Hv. flm. og ég höfum báðir talað við yfirdýralækni og lesið hans álit, og við vitum fullvel, hvað hann álítur í þessu efni. Verð ég að segja, að það er dálítið hlálegt, — en þó kannske samkvæmt þingvenju, — að umsögn yfirdýralæknis er prentuð með nál. meiri hlutans, en ekki minni hl.

Hv. flm. gat þess, að ég teldi alveg tvímælalaust, að dýralæknirinn ætti að sitja í Búðardal. Það er í sjálfu sér alls ekki höfuðatriði, þótt aðalfundur sýslunefndar Dalasýslu líti einróma svo á. Hins vegar er það ekki nema eðlilegt, að bústaður dýralæknis sé sem næst miðju umdæmi. Þess vegna tel ég, að ef umdæmið yrði óbreytt, þá yrði aðsetursstaðurinn valinn alveg tvímælalaust annaðhvort í Búðardal eða annars staðar um miðbik Dalasýslu. Ef umdæmi þetta yrði stækkað, eins og till. hv. flm. fer fram á, þá væri ekki óeðlilegt landfræðilega séð, að læknirinn sæti í Króksfjarðarnesi, — en einungis landfræðilega.

Hv. flm. sagði, að ég hefði ekki nefnt dagskrártill. á nafn í n. Það mun rétt vera hjá honum, því að ég þóttist engan grundvöll fyrir slíku finna þar. Ég sagði sem satt var, að ég væri andvígur frv. Þó hefði ég með ánægju rætt við hinn hluta n. um málamiðlun í þessu efni. Og út af því, sem hv. þm. Barð. sagði í ræðu sinni, sem hann hefur nýlokið, skal ég upplýsa hann um það, að ég skal með mestu ánægju flytja frv. með honum um að skipta Vestfjarðaumdæmi í tvö dýralæknisumdæmi eða reyna að finna aðra leið Vestfirðingum til hagsbóta.

Þá virtist hv. flm. ekki kannast neitt við þá fjóra dýralækna, sem ég nefndi að störfuðu ólærðir á Vestfjörðum. Taldi sig þó jafnvel kannast við einn mann slíkan, mjög aldraðan. En þessar upplýsingar hef ég ekki frá verri heimildum, en yfirdýralækni nú í morgun. Ég gæti lesið þessi nöfn upp, en ég tel það óþarft, skal þó gera það, ef hv. þm. óskar eftir því. (Gripið fram í.) Já, það eru Ásgeir í Æðey, Hólmgeir Jensson í Önundarfirði, Bjargmundur Guðmundsson, hann mun vera í Dýrafirði, og Andrés á Brekku, ég held í Dýrafirði. (Gripið fram í.) Ja, ég ábyrgist ekkert, hvort mennirnir eru lífs eða liðnir, en vísa því algerlega til yfirdýralæknis. Þetta er skv. upplýsingum hans, og ég hef ekki talið ástæðu til þess að rengja hann í þessu né öðru, sem við höfum átt saman að sælda enn sem komið er. Yfirdýralæknir gat þess um leið, að allir þessir menn væru nú styrktir til starfa að einhverju leyti með framlögum úr ríkissjóði, þó að það sé náttúrlega mjög skorið við nögl, eins og vænta má.

Þá hneykslaðist hv. þm. mjög mikið á því, að ég taldi, að frv. þetta — þó að það slyppi lífs af gegnum Ed, — yrði fellt eða svæft í Nd. Ég þykist þó alveg viss um þetta, einkum eftir viðtalið við hv. þm. Dal. í Nd., því að hann taldi frv. þetta næsta furðulegt og kæmi ekki til mála að láta það lifa degi lengur. Nei, það er vitað mál, hvort sem þetta mál er rætt lengur eða skemur, að frv. þetta er flutt í þeim eina tilgangi að þoka búsetu dýralæknisins vestur fyrir Gilsfjörð, að Króksfjarðarnesi. Það er undiraldan undir þessu frv., og þess vegna hefur öll þessi hreyfing verið sett á stað núna á elleftu stundu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um frv. á þessu stigi, en vænti þess, að hv. deild felli það.