11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1662)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er sérstaklega eitt atriði, sem mig langar til að minnast hér á og vildi leyfa mér að beina til hv. samgmn.

Í 23. gr. frv. segir, að öll gistihúsa- og veitingaleyfi samkvæmt lögum nr. 21 15. júní 1926 falli úr gildi við gildistöku þessara laga.

Ég er í nokkrum efa um, að þetta ákvæði fái staðizt. Þeir menn, sem hafa leyfi samkvæmt þeim lögum, hafa ekki fengið þau leyfi sín bundið við neitt ákveðið tímamark. Þar eru sett alveg sérstök ákvæði um það, hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla, og leyfin eru ekki bundin við neinar sérstakar forsendur, að því er mér skilst eftir þeim lögum, sem réttlæti það, að framkvæmdavaldið eða löggjafinn geti hvenær sem er afturkallað þessi leyfi. Það er að vísu fengin viðurkenning fyrir því með dómi hæstaréttar, að það er hægt að afturkalla veitingaleyfi, ef þannig stendur á, að verið er að gera mjög víðtækar breytingar í sambandi við tilhögun veitinga, þ. e. a. s. á þann hátt, að beinlínis er hætt að leyfa í landinu starfsemi, sem leyfið var við bundið. Á ég þar við leyfi til sölu áfengis. Um það urðu á sínum tíma málaferli, þegar bannlögin voru lögfest. Með þeim var að sjálfsögðu tekinn rétturinn til vínveitinga af þeim, sem áður höfðu haft þau réttindi. Út af þessu urðu málaferli, og liggja fyrir dómar um það efni, þar sem var viðurkennt, að löggjafinn hefði rétt til þess að valda mönnum þessu tjóni án sérstakra bóta, þegar með því væri verið að gera víðtækar og gagngerar breytingar í þá átt beinlínis að banna almennt þá starfsemi, sem leyfið var við bundið, og að það væri ekki hægt að svipta löggjafarvaldið þeim rétti að gera sérstakar breytingar á atvinnuháttum í landinu.

Hitt tel ég að sé miklum mun vafasamara, að það sé hægt, svo að gilt sé, að taka slíkt af mönnum bótalaust og meira að segja meira en bótalaust, mér skilst, að það sé ætlunin, að þeir eigi að greiða gjald fyrir að fá leyfi sitt aftur í hendur eftir þessu frv., eins og það liggur fyrir. Ég held a. m. k. að það sé full ástæða til að gera sér grein fyrir því og vil beina því til hv. n., hvort hún hefur kynnt sér það til hlítar, hvort þetta ákvæði fái staðizt að þessu leyti, að svipta menn þessum réttindum. Það hefur að ég hygg aldrei verið talið heimilt í sambandi við margvísleg réttindi, sem borgurunum hafa verið veitt, án þess að þau væru neinum skilyrðum bundin, að svipta menn þessum réttindum, jafnvel þó að það hafi verið gerðar einhverjar breytingar á skipan viðkomandi mála í þá átt að herða jafnvel með einhverju móti þau skilyrði, sem sett hafa verið til þess, að þau leyfi fáist framvegis, enda væri það vitanlega mjög mikið öryggisleysi, ef löggjafinn gæti hvenær sem er, ef honum þóknaðist, með því að breyta í einhverjum minni háttaratriðum löggjöf, og hér er í þessari löggjöf um mjög smávægilegar breytingar að ræða frá því, sem nú er, — að þá gæti löggjafinn, hvenær sem honum hugkvæmdist, látið niður falla öll leyfi, sem veitt hafa verið til margvíslegra réttinda og menn hafa lagað alla sína starfshætti eftir og eiga sína framtíð undir komna, að þeir fái að halda þessum réttindum, meðan þeir ekki sérstaklega af sér brjóta.

Það kann vel að vera, að hv. n. hafi íhugað þetta og aflað sér um það nægilegra upplýsinga. En ég vildi þó, áður en þetta mál fer héðan út úr deildinni, vekja athygli á þessu atriði og vænti þess, að hv. n. gefi okkur fullnægjandi svör um það, hvort hún hafi fyrir því vissu, að þetta ákvæði fái staðizt eða ekki.

Varðandi tvær fyrri brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. 1. þm. Rang. (IngJ) og hv. þm. A-Húnv. (JPálm), skal ég ekki margt segja. Það liggur auðvitað ljóst fyrir, að með 1. brtt. eru þyngd mjög verulega skilyrðin fyrir því, að menn geti fengið veitingaleyfi. Ég hef fyrir mitt leyti ekki á neinn hátt neitt við það að athuga, að það sé gert, en það liggur auðvitað ljóst fyrir, að þarna er um að ræða ýmis önnur brot, sem undir þetta falla, heldur en eftir orðalagi frv. sjálfs.

Um 2. brtt. er það að segja, að ég efast um, að þó að hún yrði samþ., mundi hún hafa nokkur áhrif í þá átt að auðvelda það, sem hv. 1. þm. Rang. hér mælti með áðan, að auðið væri fyrir útlendinga að eiga hér aðild að gistihúsarekstri, af þeirri ástæðu, að það eru til önnur almenn lög um atvinnuréttindi og rétt útlendinga til að reka hér fyrirtæki, sem að sjálfsögðu mundu þá koma til greina í sambandi við ákvörðun þess, hvort þetta væri yfirleitt heimilt eða ekki. Og ef á að gera auðveldara en nú er fyrir útlenda aðila að reka slíka starfsemi hér eða eiga aðild að henni, þá er vitanlega nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að breyta þeim lagaákvæðum.

Með 4. gr. frv. er nú ekki annað sagt ,en að viðkomandi aðili skuli hafa verið heimilisfastur hér á Íslandi. Hann þarf ekki að vera íslenzkur ríkisborgari, heldur aðeins að hafa verið heimilisfastur síðasta ár, og það er einmitt það orðalag, sem notað er í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að þeir verða að hafa átt hér heimili s. l. ár, þannig að þó að 5. gr. væri felld niður, þá mundi það ekki geta komið að neinu gagni til að breyta þessu ákvæði, nema því aðeins að beinlínis væri tekið fram, að þessi ákvæði skyldu ekki gilda í sambandi við veitingarekstur.

Þetta vildi ég aðeins taka fram og sérstaklega óska upplýsinga frá hv. frsm. n. um það, hvort n. hafi ekki tekið þetta atriði, sem ég fyrst gat um, til sérstakrar athugunar.