17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1673)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björgvin Jónsson) :

Herra forseti. Árið 1949 skipaði þáv. samgmrh. mþn. til þess að endurskoða lög nr. 21 frá 1926, um veitingasölu, gistihúsahald o. fl. N. skipuðu þessir menn: Brynjólfur Ingólfsson stjórnarráðsfulltrúi, sem var form. n., Jón Sigurðsson borgarlæknir í Rvík, voru þeir báðir skipaðir án tilnefningar, Böðvar Steinþórsson frá Sambandi matreiðslu- og framreiðslumanna, Hörður Ólafsson lögfræðingur, tilnefndur af Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, og Sigurjón Danivalsson, tilnefndur af ferðaskrifstofu ríkisins.

Þessi nefnd samdi frv. að lögum um veitingasölu, gistihúsahald o. fl., og var það lagt fyrir Alþingi 1951, en varð ekki útrætt á því þingi.

Samgmrh. hefur nú látið endurskoða þetta frv. og gert á því nokkrar breytingar, eins og um getur í grg., er því fylgir.

Núgildandi lög um þessi mál eru meira en 30 ára gömul, og orkar það vart tvímælis, að brýn þörf er orðin á því að endurskoða þau.

Frv. þetta miðar að því að bæta úr þeim göllum, sem vera þykja á gildandi veitingalögum, koma á betra eftirliti, en nú er með rekstri gisti- og veitingastaða og skapa grundvöll undir reglugerð um flokkun gististaða eftir gæðum og hreinlæti og aðbúnaði í þeim, í því skyni, að bættri skipan verði komið á slíka starfsemi.

l. kafli frv. felur í sér orðaskýringar. Þær sýna m. a., að ákvæði þessa frv. eru víðtækari en samsvarandi ákvæði voru í frv. 1951 og ná m. a. til gistiheimila og söluskýla.

Í II. kafla frv. er kveðið svo á, að enginn megi gera sér gististaðahald né veitingasölu að atvinnu, nema hann hafi til þess leyfi lögreglustjóra. Áður en lögreglustjóri veitir leyfið, skal hann leita álits sveitarstjórnar og heilbrigðisnefndar. Til þess að geta fengið leyfið þarf umsækjandi að vera fjárráða, hafa forræði á búi sínu, hafa óskert borgaraleg réttindi, vera heimilisfastur á Íslandi og hafa ekki hin síðustu þrjú ár verið dæmdur til refsingar fyrir óleyfilegan innflutning, sölu eða veitingu á áfengi.

Í II. kafla frv. eru ákvæði um, að ráðuneytinu sé heimilt að flokka gistihús eftir gæðum og auðkenna þannig, að hægt sé að átta sig á, í hvaða flokki þau eru,

Lagt er til, að heitið „gistihús“ verði lögskipað sem heiti á gististöðum vissrar stærðar og með ákveðnum búnaði.

Í reglugerð, sem ráðuneytið setur, skal setja fyllri reglur um búnað gistihúsa. Samkvæmt frv. mega þau fyrirtæki ein bera gistihúsanafn, hvort sem er einstakt eða í samsettu heiti, er hlotið hafa til þess sérstakt leyfi lögreglustjóra og þannig fengið viðurkenningu á því, að þau fullnægi vissum lágmarkskröfum um stærð og búnað. Jafnframt því að heimila gistihúsarekstur felur gistihúsaleyfi einnig í sér heimild til að reka veitingastarfsemi fyrir dvalargesti og aðra í sambandi við gistihúsið. Um vínveitingar fer þó eftir áfengislögum. Skilyrði fyrir því að fá gistihúsleyfi eru m. a. samkvæmt þessu frv., að í gistihúsinu starfi að staðaldri maður, er hafi öðlazt viðurkenningu á því að hafa sérþekkingu til þess að starfa í gistihúsi með því að hafa lokið burtfararprófi í matreiðslu, framreiðslu eða gistihúsastjórn á innlendum eða erlendum skóla, sem ráðuneytið viðurkennir.

Í IV. kafla frv. eru ákvæði um veitingahús, gistiheimili, gistiskála og greiðasölu og söluskýli. Samkvæmt frv. gildir nafnið veitingahús um veitingastaði af tiltekinni stærð, útbúna til að láta í té þjónustu um veitingasölu og hafa fyrirskipaðan búnað. Gistiskáli nefnist staður, þar sem er aðstaða til gistingar, en takmörkuð þjónusta er látin í té. En gistiheimili eru samkvæmt frv. þeir gististaðir, er selja gistingu og greiða í atvinnuskyni, en eru að einhverju eða öllu leyti í sambandi við heimili gestgjafa. Nafnið greiðasala er samheiti um alla þá staði, þar sem seld er næturgisting. Söluskýli er staður, þar sem seldir eru gosdrykkir, öl, sælgæti og salan er ekki háð reglum sölubúða um lokunartíma og annað.

Í reglum, sem ráðuneytið setur, verður greint nánar, hvaða kröfur skuli gerðar til gististaða og hvers flokks þeirra um sig. Sjálfsagt er að gera kröfu til þess, að á öllum gististöðum sé gætt hreinlætis og hollustuhátta, en að öðru leyti verður að gera minni kröfur til hinna smærri gististaða, en gistihúsa um þjónustu og allan búnað.

Í V. kafla frv. er lagt til, að ferðaskrifstofa ríkisins hafi með höndum eftirlit með starfsemi gisti- og veitingastaða.

Í VI. kafla frv. eru ákvæði um gjald fyrir leyfi, sem veitt eru til þeirrar starfsemi, sem frv. fjallar um. Gert er ráð fyrir, að leyfin verði endurnýjuð á fimm ára fresti gegn 200 kr. gjaldi hverju sinni. Á það að auðvelda aðstöðu lögreglustjóra til þess að hafa yfirumsjón með starfsemi leyfishafa í hverju lögsagnarumdæmi um sig og opna honum leið til þess að fylgja eftir aðfinnslum, ef þurfa þykir.

Það nýmæli er í þessum kafla frv. að veita ráðherra heimild til að ákveða sameiginlegan opnunar- og lokunartíma fyrir alla veitingastarfsemi. Er talið nauðsynlegt, að hægt sé að tryggja, að gisti- og veitingastaðir loki ekki almennt, t. d. á hátíðisdögum, en að því hafa verið nokkur brögð, viðskiptavinum til mikils óhagræðis.

Ákvæði 21. og 22. gr. miða að því að tryggja, að þessi löggjöf raski ekki tilfinnanlega aðstöðu þeirra manna, sem nú stjórna eða vinna við gististaðahald og veitingastarfsemi. Þar eru m. a. ákvæði um það, að hver sá, sem við gildistöku þessara laga rekur gistihús með eigi færri en 20 rúmum fyrir gesti, geti fengið útgefið sér til handa bráðabirgðaleyfi til að halda rekstrinum áfram á sama stað til ársloka 1962, þótt gistihúsið fullnægi ekki þeim skilyrðum, sem sett verða um stærð og búnað.

Með því er núverandi leyfishöfum veittur frestur til þess að ráða bót á því, sem á skortir, eða að öðrum kosti að breyta um nafn fyrirtækisins og falla undir þá flokka, sem veita minni þjónustu og minna er krafizt af.

Samgmn. þessarar deildar hefur rætt frv. þetta á þremur fundum sínum. Telur meiri hl. n., hv. þm. Barð., hv. þm. Ak. og ég, að frv. sé til mikilla bóta, og mælir því með því, að það verði samþykkt. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að flytja og fylgja brtt. Minni hl. samgmn., þeir hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. V-Sk., skilar séráliti um málið og mun gera grein fyrir því álíti sínu.