17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1680)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Forseti (BSt) :

Út af því, hvort þessar greinar hafa verið löglega samþykktar, vil ég benda á, að í 44. gr. þingskapa stendur:

„Hvorug þingdeildin má gera nokkra ályktun, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði atkv. Þingmaður, sem er á fundi, en greiðir ekki atkv. við nafnakall, án lögmætra ástæðna, telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni.“ Þetta sýnist mér alveg ótvírætt.

Þá var vikið að því, að þetta mundi koma í bága við stjórnarskrána. Mun átt við ákvæði 53. gr., sem segir, að hvorug þingdeildin geti samþykkt mál, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði þar atkvæði. En ákvæði þingskapanna, sem setja nánari reglur um starfstilhögun á þinginu, segir, að sá þingmaður, sem við nafnakall greiðir ekki atkv., teljist taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Samkvæmt þessu og samkvæmt því, sem áður hefur komið fyrir hér í Alþingi og verið úrskurðað, þá eru 10.–13. gr. frv. samþykktar.