17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1681)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í 53. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Hvorug þingdeildin getur gert samþykkt um mál, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði þar atkv.

Þessi ákvæði eru alveg skýr. Og þannig var það skilið um langan aldur á Alþingi, að ef ekki fékkst meiri hluti þingmanna eða deildarmanna til þess að segja já eða nei, þá var frv. eða till. þar með fallin.

Fyrir nokkrum árum var gerð sú breyting á þingsköpum með 44. gr. þeirra að túlka þetta ákvæði stjórnarskrárinnar með alveg furðulegum hætti, og túlkunin er á þá leið, að sá maður, sem greiðir ekki atkv., skuli samt teljast greiða atkv. Það er náttúrlega eftir allri heilbrigðri skynsemi ljóst, að þetta ákvæði þingskapa brýtur í bága við stjórnarskrána og fær ekki staðizt. Þegar þessi þingskapabreyting var hér á ferðinni í Alþingi, var þessu að sjálfsögðu mótmælt sem stjórnarskrárbroti. En það var keyrt í gegnum þingið engu að síður, og þannig hefur þessu verið beitt nú um alllangan aldur, svo að auðvitað er það rétt, að hæstv. forseti kveður nú upp sinn úrskurð í samræmi við það, sem tíðkazt hefur nú um nokkurra ára skeið. En hitt þótti okkur hv. þm. V-Sk. rétt að benda á, fyrst þetta tilfelli kom fyrir, sem gerist nú ekki mjög oft, að það fæst ekki helmingur þdm. til þess að greiða atkv. með eða móti. Ég er þeirrar skoðunar og hef jafnan verið, að þetta ákvæði þingskapa, þessi túlkun, sem brýtur algerlega í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, skýlaust ákvæði stjórnarskrárinnar, fái ekki staðizt og þess vegna séu skv. réttum skilningi á stjórnarskránni þessar greinar fallnar.

Ég vildi aðeins láta þessar athugasemdir koma hér fram.