21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1688)

19. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru nokkur orð við 1. umr. til leiðbeiningar um málið, nokkrar upplýsingar, sem ég vildi gjarnan gefa. Ég vil fyrst minnast þess, að ríkisstj. tók upp á fjárlagafrumvarp sitt fyrir árið 1956 fyrstu fjárveitingu til þess að kaupa stórvirkan jarðbor. Síðar, þ. e. síðar á árinu 1956, varð samkomulag um það, að ríkið og Reykjavíkurbær stæðu saman að þessum borkaupum. Var þá einnig ráðgert að kaupa stærri bor, en forráðamenn raforkumálanna höfðu áður talað um. Síðar var veitt nokkur fúlga á fjárlögum ársins í ár í sama skyni.

Þetta er í fáum orðum aðdragandi málsins að því er ríkið snertir. Fram kom ósk frá bæjarstj. Reykjavíkur til ríkisstj. um, að hún beitti sér fyrir því, að fallið yrði frá að innheimta aðflutningsgjald af bornum, sem nú er kominn fyrir nokkru, en ekki hefur enn þá verið leystur inn, og hefur þar staðið á því, að Reykjavíkurbær hefur ekki greitt sinn hluta af andvirði borsins.

Ríkisstj. íhugaði þetta mál og komst að þeirri niðurstöðu, að hún gæti ekki beitt sér fyrir þessu, og færði fyrir því þau rök, að aðflutningsgjöldin væru ákveðin með lögum frá Alþ. og væru hliðstæð gjöld ráðgerð af þessu tæki og mörgum öðrum vélum og tækjum. Þessi gjöld væru ætluð sumpart til þess að standa undir uppbótum á útflutningsframleiðslu landsmanna. Af þessum ástæðum gæti ríkisstj. ekki beitt sér fyrir því, að borinn yrði undanþeginn aðflutningsgjöldum.

Borgarstjórinn í Reykjavík, þ. e. hv. þm. Gunnar Thoroddsen, hefur nú flutt hér frv. ásamt tveimur öðrum þm., þar sem farið er fram á það við Alþ., að það samþykki heimild til þess að fella þessi aðflutningsgjöld niður. Hefur borgarstjórinn ekki viljað taka fullgild þau rök, sem ríkisstj. færði fram í bréfi sínu varðandi þetta mál.

Það er vikið að því í grg. frv., af hverju þetta sé talið eðlilegt, það sé m. a. talið eðlilegt vegna þess, að heimildir séu í lögum til ívilnana frá tollskránni, og eru þar nefnd þrjú dæmi sérstaklega, þ. e. garn og vélar til veiðarfæragerðar, jeppabifreiðar og efni, vélar og tæki í skip og báta, sem smíðaðir eru innanlands.

Ég vil fyrst benda á, að ástæðan til þess, að gert er ráð fyrir því, að heimilt sé að afnema öll aðflutningsgjöld af garni og vélum til veiðarfæragerðar, er sú, að veiðarfæraframleiðsla hefur enga tollvernd af neinu tagi og verður að keppa við erlendar veiðarfæragerðir. Alveg sama er að segja um efni og vélar og tæki í skip. Skipasmíðastöðvarnar verða að keppa við innflutning á skipum, sem smíðuð eru erlendis og flutt eru inn tollfrjáls svo að segja, og væri þess vegna alveg augljóst, að þessi iðngrein gæti ekki komið til mála, ef ekki væri fallið frá því að innheimta aðflutningsgjöld af efni og vélum í skip. Það er ekkert hliðstætt í þessu við þetta tæki, sem hér er rætt um í frv.

Þá er það varðandi jeppabifreiðar. Um þær er það að segja, að af jeppabifreiðum eru innheimt jafnhá aðflutningsgjöld og af vöruflutningabifreiðum, en þau aðflutningsgjöld eru mun hærri en þau aðflutningsgjöld, sem gert er ráð fyrir að greiða af þessu tæki. Þarna á sér stað einhver misskilningur í grg. fyrir frv.

Þá vil ég og gefa upplýsingar mönnum til íhugunar og nefndinni, sem fær málið til meðferðar, og greina frá nokkrum tækjum og nokkrum vélategundum, sem gert er ráð fyrir að borguð séu af jafnhá gjöld og af bornum, en hér kemur samanburður mjög til greina. Það eru rafmótorar, rafalar og túrbínur. Það eru gufuvélar og hlutar til þeirra, allt nema katlar. Vélar til mjólkurvinnslu, vélar til tóvinnu og ullarþvottar, vélar til niðursuðu, sútunar, lýsishreinsunar, fiðurhreinsunar. Vélar til síldariðnaðar og annars fiskiðnaðar svo og til hvalvinnslu. Frystivélar allar og flökunarvélar. Sjálfvirk löndunartæki. Síðan mætti telja hér til viðbótar nær allar vélar til iðnaðarins, sem gert er ráð fyrir að greidd séu af yfirleitt annaðhvort alveg sömu gjöld eða nær alveg sömu gjöld.

Það er þess vegna alveg augljóst mál og þarf ekki að grafa djúpt til þess að sjá það, að ef samþykkt væri að undanþiggja þetta tæki, sem hér er rætt um, frá greiðslu gjalda í útflutningssjóð og til ríkisins, mundu alveg eðlilega koma fram kröfur um það sama frá fjöldamörgum öðrum aðilum, sem greiða alveg hliðstæð gjöld af þýðingarmestu tækjum til framleiðslu, og nægir í því sambandi t. d. að nefna frystivélar, flökunarvélar og mjólkurvinnsluvélar. Það hefur nýlega verið flutt inn mjög mikið af flökunarvélum, og þeir aðilar hafa vitaskuld greitt þessi gjöld. Sama er að segja um tæki til mjólkurbúanna, sem eru að endurnýja sig hvert af öðru, og svo tækin til rafstöðvanna eða aflstöðvanna, sem ég líka nefndi.

Nú vita það allir hv. þm., að ástæðan til þess, að það þarf að innheimta þessi háu gjöld af þessum tækjum eins og öðrum, er sú, að við búum við uppbótarkerfið. Við skrásetjum ekki okkar gjaldeyri þannig, að framleiðslan geti borið sig, heldur innheimtum við í þess stað gífurlega háar fjárhæðir og notum ýmist í gegnum útflutningssjóðinn til beinna uppbóta á framleiðslunni eða þá í gegnum ríkissjóðinn til þess að greiða niður verðlag á vörum og halda þannig niðri framleiðslukostnaðinum innanlands. Þetta útheimtir hundruð milljóna á hundruð milljóna ofan og óhugsandi að ná þessum fjárhæðum inn öðruvísi en að innheimta há gjöld af svo að segja hverri einustu vörutegund, sem til landsins er flutt. Og eins og okkar gengisskráningu er háttað, er það líka náttúrlega augljóst mál, að þær vörur, sem eru undanþegnar eða búa við lægri gjöld, en almennt gerist, njóta í raun og veru styrks úr þjóðarbúinu. Þannig er samhengið.

Ég held, að það hljóti þess vegna að liggja ljóst fyrir við athugun á þessu máli, að það er ekki eðlilegt að taka þetta mál þeim tökum, sem hv. flm. frv. gera ráð fyrir, heldur verði að hafa þann háttinn á að greiða af þessu þýðingarmikla tæki þessi gjöld, og gildir þar það sama og fyrir fjöldamarga aðra, sem flytja inn og kaupa þýðingarmikil áhöld.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, að málið fari til hv. fjhn., en ég mundi fyrir mitt leyti álíta eðlilegt, að n. afgreiddi þetta mál sem fyrst, þannig að það yrði ekki nein töf á afgreiðslu málsins. Það lægi þá fljótt fyrir, hver niðurstaða hv. Alþingis verður. En ríkisstj. er eindregið þeirrar skoðunar, að það sé ekki hægt að verða við því að undanþiggja borinn gjöldunum.