21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1689)

19. mál, tollskrá o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru tvær meginástæður fyrir því, að ég gerðist meðflutningsmaður að frv. á þskj. 24. Hinni fyrri, að sanngjarnt verði að teljast, að jafnmikilsvert tæki og hér er um að ræða verði undanþegið að einhverju leyti aðflutningsgjöldum, hefur 1. flm., hv. 6. þm. Reykv., gert grein fyrir, og mun ég ekki gera það að umtalsefni, aðeins lýsa mig samþykkan í aðalatriðum því, sem hann sagði um það efni. Hin ástæðan fyrir minni hlutdeild er sú, að ég tel fjárhagsafkomu bæjarsjóðs Reykjavíkur nú svo slæma, að það eitt réttlæti fram komið frv. Vil ég fara nokkrum orðum um það og fáein önnur atriði, er komið hafa fram í sambandi við umræður um þetta bormál að undanförnu.

Í október 1956 gerðu ríki og Reykjavíkurbær með sér samning um kaup á stórvirkum jarðbor. Skyldi hvor aðili greiða helminginn af verði borsins og hafa hann jafnt til afnota eftir nánar tilgreindum reglum, á meðan sameignin stæði.

Þessi mikli jarðbor er nú kominn til landsins fyrir a. m. k. tveim mánuðum. Öllum ber saman um, að þetta tæki þurfi að komast í gagnið sem fyrst, en af einhverjum ástæðum, sem menn deila nokkuð um, hefur það dregizt til þessa dags.

Á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur 3. okt. s. l. var með öllum greiddum atkvæðum samþykkt till. um að skora á ríkisstj. og Alþingi að fella niður eða lækka verulega gjöld til ríkissjóðs af jarðbornum, sem þá var kominn til landsins fyrir nokkru, keyptur sameiginlega af ríkissjóði og bæjarsjóði.

Ástæðan til, að bæjarstjórnin stóð óskipt að þessari samþykkt, er óvefengjanlega sú, að greiðslugeta bæjarsjóðsins er talin mjög lítil um þessar mundir, en hins vegar brýn þörf á, að þetta dýra nytjatæki komist í notkun sem fyrst. Samheldni bæjarfulltrúanna í þessu máli byggðist þannig á því áliti, að bæjarsjóður Reykjavíkur sé í kröggum. Bókuð athugasemd eins fulltrúans, Þórðar Björnssonar, sýnir þetta glögglega, en hann gerði grein fyrir atkvæði sínu með þessum orðum: „Með því að ég tel, að upplýst hafi verið í umr. um málið, að bæjarsjóði sé nú í svipinn ókleift að leggja út umrædd gjöld að sínum hluta, greiði ég tillögunni atkvæði.“

Hæstv. ríkisstj. hefur þegar svarað tilmælum bæjarstjórnarinnar um eftirgjöf á aðflutningsgjöldum. Er í svarinu bent á, að þau aðflutningsgjöld, sem greiða beri af jarðbornum, séu ákveðin með lögum frá Alþingi og að slík gjöld greiði allir að sjálfsögðu jafnt samkvæmt lögum, af þessum ástæðum geti ríkisstj. ekki orðið við áskorun bæjarstjórnarinnar um þetta efni. Hins vegar kveðst hæstv. ríkisstj. reiðubúin til fyrir sitt leyti að samþykkja niðurfellingu samningsins um sameign ríkis og bæjar á bornum, þannig að ríkið yrði eitt eigandi hans, og mundi það fúst til að framkvæma fyrir Reykjavíkurbæ þau verk, sem farið yrði fram á og um semdist.

Þetta svar ríkisstj. hafa sumir andstæðingar hennar reynt að túlka sem fjandskap við Reykjavík, en slík túlkun er þó hrein fjarstæða. Hæstv. ríkisstj. er bundin af gildandi lagafyrirmælum, sem ekki heimila undanþágu í þessu efni. Í því felst enginn fjandskapur af hennar hálfu. Það, að hún býðst til að leysa bæinn frá gerðum samningum, ber þvert á móti vott um velvild. Með því sýnir hún að mínum dómi vilja sinn til að hjálpa aðþrengdu bæjarfélagi á löglegan hátt.

Ég vil í þessu sambandi leggja áherzlu á þá persónulegu skoðun mína, að það sé í frekasta lagi ranglátt að væna hæstv. ríkisstj. um stirfni eða óvild í garð Reykjavíkur; hún hefur þvert á móti í mörgum efnum gert betur við þetta bæjarfélag, en fyrri ríkisstj. gerðu. Skal ég þessari fullyrðingu minni til stuðnings nefna hér örfá dæmi.

Yfirvöld bæjarins höfðu lengi árangurslaust sótt um fjárfestingarleyfi fyrir væntanlegri sorpeyðingarstöð í tíð fyrrverandi stjórna. Það leyfi fengu þau á fyrsta missiri hæstv. ríkisstj., þeirrar er nú situr. Vegna tregðu fyrri ríkisstj. á að veita fjárfestingarleyfi eða vegna áhugaleysis bæjaryfirvalda, nema hvort tveggja komi til, hefur bygging nauðsynlegra barna- og unglingaskóla farizt fyrir á undanförnum árum, svo að til vandræða horfir nú. Þetta ástand í skólamálum bæjarins er hinn ráðandi meiri hluti bæjarstjórnar farinn að óttast, og er ástæðan efalaust væntanlegar kosningar í vetur. Hann sækir því um fjárfestingarleyfi í gríð og ergi — og hvað skeður? Hann fær leyfi, sem eru mörgum hundraðshlutum hærri, en nokkurn tíma gerðist í tíð fyrri ríkisstj.

Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur stóraukið átakið til útrýmingar húsnæðisleysi og heilsuspillandi íbúðum í landinu. Skyldi Reykjavík hafa farið varhluta af þeirri auknu aðstoð við húsbyggjendur? Ég læt formann húsnæðismálastjórnar svara þessu, en hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í grein, sem hann birti nýlega:

„Hið sanna er, að á þessu ári hefur Reykjavíkurbær fengið greiddar upphæðir úr sjóði þeim, sem ætlaður er til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, eins og hér segir: 23. janúar 900 þús. kr., 1. apríl 360 þús. kr., 29. maí 2 millj. 520 þús. kr. Samtals 3 millj. 780 þús. kr.

Árlegt framlag ríkissjóðs í sjóð þennan er nú 4 millj., var áður 3 millj. kr., en var hækkað fyrir atbeina núv. ríkisstj. með lögum nr. 42 1957. Hefur því Reykjavíkurbær þegar tekið til sín 5.78 af 4 millj. kr., sem ríkið leggur fram í ár, eða 94.5% af framlaginu. Árið 1956 var framlag ríkisins samkvæmt lögum nr. 55 1955 3 millj. kr., og fór þá til bæjarins 14. marz 2 millj. 250 þús. kr.; 15. des. 900 þús. kr., samtals 3 millj. 150 þús. kr. eða meira, en allt framlag ríkisins. Rétt er að geta þess, að greiðslur þessar hafa verið inntar af hendi allmiklu fyrr, en heimilt var samkvæmt reglugerð, en hún leyfir ekki útborgun fjárins, fyrr en lokið er smíði hinnar nýju íbúðar og útrýmingu hinnar heilsuspillandi, sem flutt er úr.

Í viðskiptum sínum við Reykjavíkurbæ hefur því húsnæðismálastjórn gert betur við bæinn, en hann átti rétt og kröfu á samkvæmt lögum og raunar betur, en lög leyfðu. Til þess að gera þó enn betur, án þess að þverbrjóta allar reglur, hefur húsnæðismálastjórn í sumar afhent bænum skriflegt loforð fyrir 3 millj. 150 þús. kr. viðbót, sem útborgast strax og skilyrðum samkvæmt lögum er fullnægt. Þeirri yfirlýsingu mun bærinn þegar hafa komið í peninga, og er þá upphæðin í ár komin upp í 6.9 millj.“

Þessi greinargerð formanns húnæðismálastjórnar sýnir það ljóslega, að ekki hefur ríkisvaldið níðzt á Reykjavík í þessu mikilsverða efni. Hinn ráðandi meiri hluti bæjarstjórnar Reykjavíkur leggur árlega hærri útsvör á hvern íbúa að meðaltali, en nokkurt annað bæjarfélag í landinu, og útsvör Reykjavíkur hækka á ári hverju langt fram yfir það, sem fjölgun íbúa og aukning dýrtíðar nemur. Nú á þessu ári reyndi félmrn. að hafa áhrif á ráðamenn bæjarins og fá þá til að hafa ekki heildarupphæð útsvara mjög miklu hærri, en gerðist hjá þeim bæjarfélögum öðrum, er hæst höfðu útsvör. En tilraunin bar engan árangur. Ráðamennirnir sátu við sinn keip og gáfu í skyn, að mikilsverðar verklegar framkvæmdir yrðu stöðvaðar, ef umbeðin útsvarsupphæð, allt að 199 millj. kr., fengist ekki lögleyfð. Félmrn. lét undan, og það var ekki fyrr, en það vitnaðist, að niðurjöfnun útsvara í Rvík var ólögleg og bæjarbúum ætlað að greiða tæpum 7 millj. kr. meira, en bæjarstjórn hafði samþykkt og lög leyfðu, að hæstv. félmrh. tók í taumana. Honum bar skylda til að reyna að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir forráðamanna bæjarins og valdníðslu, og það gerði hann. Aðgerðir félmrn. í þessu útsvarsmáli öllu voru í þágu bæjarfélagsins og því til gagns, en ekki óþurftar.

Þessi dæmi ættu að nægja til að sýna, að hæstv. ríkisstj. hefur síður en svo gengið á hlut Reykvíkinga, hún hefur þvert á móti hlynnt að þeirra málum, fyrri ríkisstjórnum fremur.

Vafalítið yrði það bæjarsjóði óhagkvæmt að missa eignarhlut sinn í jarðbornum. Starfræksla hans verður bænum dýrari, ef hann aðeins er leigjandi hans, en ekki eigandi. Þetta atriði mun vera þungvægt í augum bæjarfulltrúanna. Því vilja þeir ógjarnan láta til þess koma, að Reykjavíkurbær gangi frá gerðum samningum um borinn, svo sem boðið er upp á í svarbréfi hæstv. ríkisstj., en hún gat ekki betur boðið.

Nú er það hlutur hins háa Alþingis í þessu máli. Fundur bæjarstjórnar 3. okt. skoraði ekki aðeins á ríkisstj., heldur og Alþingi, að niður yrðu felld eða lækkuð aðflutningsgjöld á bornum. Hæstv. ríkisstj. hefur gefið sitt svar, en Alþingi hefur til þessa ekki átt kost á að svara.

Frv. það, sem nú liggur fyrir, er flutt í þeim tilgangi að fá svar við tilmælum bæjarstjórnarinnar. Það vald, sem ríkisstj. brestur í þessu efni, hefur hið háa Alþingi. Það getur með lagabreytingu orðið við áskoruninni, ef því sýnist svo, og um þess undirtektir er nú spurt af bæjarstjórn Reykjavikur.

Afgreiðsla frv. verður svar þingsins í þessu máli.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta miklu meira. Veigamestu rökin fyrir því að samþykkja frv., sem fyrir liggur, eru þau, að Reykjavík á í fjárhagslegum erfiðleikum, a. m. k. nú um hríð. Útsvör hafa greiðzt treglega í seinni tíð, í september t. d. 4 millj. kr. minna, en á sama tíma í fyrra, eftir því sem borgarstjóri Reykjavíkur upplýsti nýlega. Það er vonandi aðeins stundarfyrirbæri. Hitt er alvarlegra, ef fjárhagsgeta bæjarins til að standa undir nauðsynlegum og sjálfsögðum framkvæmdum fer smám saman og til langframa þverrandi. En ýmislegt bendir til þess, að fjármálastjórn bæjarins sé í óreiðu, svo mikilli óreiðu, að jafnvel ráðamönnum ofbjóði. Á það gæti bent sú staðreynd, að nýlega var í bæjarstjórn samþykkt till. um að setja á stofn skrifstofu, er hafi það verkefni að gera að staðaldri tillögur um aukna hagkvæmni í vinnubrögðum og starfsháttum bæjarins og stofnana hans og sparnað í rekstri.

Ef einhver skyldi segja sem svo, að óreiða og sukk í fjármálum séu óafsakanleg sjálfskaparviti og að bæjarfélag verðskuldi þá stjórn, sem það kýs sér, þá væri ég ekki alveg sammála því. A. m. k. tel ég ástæðu til, að hver þegn geri sitt til að draga úr illum afleiðingum óreiðunnar, þannig að þær komi ekki harðar niður, en óhjákvæmilegt er. Því vil ég að lokum biðja hv. þd. að athuga vandlega, hvort ekki sé unnt að koma Reykjavíkurbæ til hjálpar í þessu máli.