21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1690)

19. mál, tollskrá o. fl.

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim rökum, sem ég tel liggja til þessa frv. frá mínu sjónarmiði, og hv. meðflm. minn, 1. landsk., hefur sínar ástæður, sem hann hefur gert hér allýtarlega grein fyrir og ég skal ekki rekja. En að því leyti sem hann ræðir hér um bæjarmálefni Rvíkur, þá mun ég ekki ræða þau við hv. þm. hér, því að við höfum sameiginlegan vettvang annars staðar, þar sem tækifæri gefst til þess, en það er á fundum bæjarstjórnar Reykjavíkur.

En í ræðu hans kom fram misskilningur að einu leyti. Þetta frv. fjallar ekki eingöngu um aðflutningsgjöld af þeim gufubor, sem ríkissjóður og bæjarsjóður Reykjavíkur kaupa í sameiningu, heldur almennt um innflutning jarðbora og tækja til þeirra. Og í öðru lagi snerta aðflutningsgjöld af þessum stórvirka gufubor ekki eingöngu Reykjavíkurbæ, heldur marga aðra aðila, því að það eru margir aðilar, sem eiga eftir að njóta góðs af þessum bor og verða auðvitað að greiða sinn hluta af rekstrarkostnaði hans. En rekstrarkostnaður þessa bors verður að sjálfsögðu þeim mun hærri, sem stofnkostnaðurinn — og þar innifalin aðflutningsgjöldin — er hærri. M. a. mun að sjálfsögðu verða borað nú á næstunni í Krýsuvík, sem Hafnarfjarðarbær hefur að mestu og eins og nú standa sakir alveg umráðarétt yfir, og þeir aðilar, sem eiga að njóta þessa bors og standa undir rekstri hans, þurfa að borga þeim mun hærri gjöld sem stofnkostnaðurinn er meiri.

Út af ræðu hæstv. fjmrh. vil ég segja: Það má eðlilegt teljast, að hann bendi hér á önnur tæki eða vélar og efnivörur, sem í hans augum eru hliðstæðar jarðborum og tækjum til þeirra, og ég ætla, að hvenær sem ákveðið er, hver tollhæð eða aðflutningsgjalda skuli vera af hverri vörutegund eða undanþáguheimildir, þá er alltaf vitnað í eitthvað annað, sem sumir telja hliðstætt. En samt sem áður er það nú svo, að í sjálfri tollskránni er löng grein, 3. gr., þar sem er upptalning á margvíslegum undanþáguheimildum. Og undanþáguheimildirnar, sem sé heimildir fyrir fjármálaráðherra til að lækka eða undanþiggja hitt og þetta tollum og aðflutningsgjöldum, eru svo margar, að stafrófið hefur ekki nægt. Undanþágurnar eru svo margar, að það byrjar á a, b, c og endar á þ, æ, ö, svo er farið að bæta við undanþágum undir liðunum aa og bb og komið niður í ff, þannig að þegar ég var að semja frv., þurfti ég til að vera í samræmi við allar þessar undanþáguheimildir að nefna þessa undanþágu gg, held ég að það sé. Svona eru margar undanþágurnar, og vitanlega er hægt að benda á eitthvað undir hverjum einasta staflið, þar sem einhverjar hliðstæður eru að einhverra dómi. En það eru engin rök í málinu. Aðalatriðið er það, að aðflutningsgjöldin eru svo há af þessu þýðingarmikla tæki fyrir hagnýtingu jarðhitans, að þegar innkaupsverð á bornum er um 6 millj. kr., þá eru hin opinberu gjöld 3 millj. kr. Og ég ætla, að hver maður sjái, að þótt ríkissjóður þurfi að sjálfsögðu á sínu að halda, þá er hér fulllangt gengið, þegar um jafnmikið þjóðnytjafyrirtæki og þjóðnytjatæki er að ræða eins og hér.

Ein af höfuðröksemdunum fyrir synjun hæstv. ríkisstj, á því að veita hér eftirgjöf eða undanþágu er, að þessi aðflutningsgjöld séu ákveðin í lögum, og þetta frv. er nú einmitt flutt til þess að hjálpa ríkisstjórninni til þess að geta gefið þessa undanþágu eða eftirgjöf, þannig að hún fái lagaheimild sem grundvöll.

Í ræðu hæstv. fjmrh. kom fram eitt atriði, sem getur valdið misskilningi. Hann gaf það í skyn, að Reykjavíkurbær hefði ekki greitt sinn hluta og á því stæði, að hægt væri að taka borinn í notkun. Ég vil taka það fram, að þegar reiknaður er stofnkostnaður og áfallinn kostnaður við borinn, hefur Reykjavíkurbær greitt rúml. helming, þegar frá eru skilin aðflutningsgjöldin. Og bærinn hefur ekki talið ástæðu til þess, meðan þetta mál væri óafgert og nú í höndum Alþingis, að fara að greiða að fullu sinn hluta af aðflutningsgjöldunum, eins og þau nú eru, þar sem vel er hugsanlegt og líkur til þess, að meiri hl. Alþ. sé fylgjandi að veita hér nokkra undanþágu eða lækkun. En varðandi allan annan stofnkostnað og áfallinn kostnað borsins, en aðflutningsgjöldin hefur Reykjavíkurbær þegar greitt rúml. helming.

Ég skal ekki fara hér í upptalningu neitt að ráði á hliðstæðum tækjum, en það má nefna það, eins og kemur fram í grg., að aðflutningsgjöld af yfirleitt öllum áhöldum og vélum vegna landbúnaðar eru miklu lægri, en af jarðborum. Enn fremur er t. d., svo að ég taki eitthvað af handahófi, í m-lið 3. gr. tollskrárinnar heimild til lækkunar eða niðurfellingar á votheysturnum, vélaútbúnaði til að steypa þá, og enn fremur af vélum og áhöldum til landbúnaðar og landbúnaðarframleiðslu, þ. e. a. s. það eru tvenns konar ákvæði varðandi þær: Í fyrsta lagi eru þær settar í miklu lægri tollflokk, en þessir borar og í öðru lagi heimild jafnvel til að undanþiggja frá því lága gjaldi.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vænti þess, að hv. dm. taki frv. vel og fallist á þau rök, sem í grg. eru færð fram fyrir því.