21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1691)

19. mál, tollskrá o. fl.

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Þar sem tveir af meðflm. mínum að því frv., sem hér er til umr., hafa nú skýrt nokkuð ástæður og afstöðu sína til málsins og jafnframt ástæðuna til þess, að málið er hér flutt, tel ég rétt með örfáum orðum að vitna hér einnig um þessa hluti og skal þá taka það fram, að auk þess sem ég er mörgu því, sem þeir hafa báðir fram talið, samþykkur, þá er þó höfuðástæðan til þess, að ég er meðflutningsmaður að þessu frv., sú, að víst má telja, að tæki þau, sem frv. ræðir um, verði leigð milli hinna ýmsu bæjarfélaga, en allir hv. alþm. vita svo aftur um fjárhag bæjar- og sveitarfélaganna, sem árlega leita á náðir fjárveitingarvalds þingsins um ýmiss konar fyrirgreiðslu vegna fjárskorts. Ég álít því, að beinlínis geti verið hér um að ræða bókfærsluatriði hjá ríkissjóði, um það, hvort nú þegar verði lækkuð hin væntanlega leiga bæjarfélaganna eða hvort gengið verður til móts við óskir bæjarfélaganna um undanþágu frá þessari leigu síðar. Af þessum ástæðum tel ég rétt, að nú þegar verði veitt heimild til þeirrar undanþágu frá gjöldum til ríkissjóðs, sem í frv. ræðir. Vegna skrifa í tveim dagblöðum bæjarins um mál þetta vil ég þó taka fram, að meðflutningur minn að frv. þessu þýðir ekki það sama og að allir samflokksmenn mínir á hv. Alþ. séu sömu skoðunar.